laugardagur, nóvember 25, 2006

Góðan daginn

Ætli þessi mynd sé ekki lýsindi fyrir hvernig ég upplifi umhverfi mitt á þessum fagra laugardagseftirmiðdegi.

Þessi mynd er tekin í hinu stórmerka gyðingasafni í Berlín.

Þessi hluti safnsins heitir garður útlegðarinnar og er samansettur úr 49 ferhyrndum súlum. 48 fyrir stofnun ísraelsríkis og ein fyrir tengingu Berlínar við þá stofnun.

Það sem er einstakt við þennan "garð" er hönnunin og hvernig hún tengist hugmyndinni um útlegð.

maður gengur út um dyr frá gangi útlegðarinnar þar sem maður getur lesið um einstaklingsbundna upplifun á því að yfirgefa heimili sín og þurfa að hverfa til framandi landa, allt frá hugmyndafræðilega útlögðum fullorðinna manneskja sem fullljóst var að aldrei gætu þau snúið heim að nýju til barnslegra upplifanna þeirra sem ekki skildu ástæðu brottfararinnar og trúðu jafnvel á ævintýrin.

Þegar maður gengur inn í garðinn þá blasa annars vegar við þessar miklu súlur og hins vegar að undir fótum manns er búið að leggja steinagöngustíga sem óþjálir eru fótum sem ganga inn á milli súlnanna.

Þegar maður gengur inn á milli súlanna þá byrjar hægt og rólega að byggjast upp óþægindatilfinning. Maður sér aðeins beint fram fyrir sig en þar stöðugt að ganga yfir krossgötur þar sem hið óvænta bíður manns á hverju horni. Við bætist svo að maður heyrir í fólki sem maður ekki sér í skringilegu bergmáli súluganganna. Manneskjur birtast manni og hverfa áður en maður hefur gert sér grein fyrir því, þær eru á sínum eigin gangi.

Þessi "hætta" sem liggur á hverjum gatnamótum magnast því lengur sem maður ráfar þarna um, enda fær maður með þessu að upplifa það að vita aldrei hvað liggur handan hornsins. Gildran gæti smollið við hvert skref. Sjón manns er takmörkuð við eina stefnu, sem endar í ljósi við enda gangsins, en það er fjarlæg von.

Við þetta bætist svo að allur garðurinn hallar undan fæti. Maður gengur uppímót inn í garðinn og þegar maður hefur dvalist þar nokkra stund þá fara fæturnir að þreytast og heimta að fara til baka, þaðan sem komið var. Likaminn vill fara heim.

Þannig tekst hönnuðnum, Daniel Liebeskind, að skapa í líkama gestsins upplifun þess sem hefur þurfa að yfirgefa heimkynni sín, vini og umhverfi, öryggi og framtíð og neyðst til þess að byggja að nýju frá grunni. Óvissan og heimþráin líkamnast í upplifun þess sem garðinn heimsækir. Maður skilur á einhvern óhugnarlegan djúpstæðan máta missi þess sem rekin er á flótta.

Og hvernig tengist þetta minni upplifun minni þennan laugardag?

Að skrifa er eins og fara í útlegð (nú ætla ég ekki að lýkja því saman við skelfingu þeirri sem gyðingar heimstyrjaldarinnar fóru í gengum), maður leggur frá landi raunheimsins og tekru stefnuna á hið óþekkta.

maður ráfar þar um óviss og hræddur, leitandi, vonandi, skjálfandi í leit að hugdettum, mannskjum, tenglsum, skilningi.

Maður veit ekki hvað liggur handan hornsins, maður heyrir skringileg hljóð, raddir sem kalla mann heim en verður að halda ótrauður áfram.

Það eina sem maður getur haldið sig í er ljósið við gangsendann. Trúnna að ef maður þorir að loka augunum og hlusta, þorir að staldra við, þorir að kynnast þessum nýju manneskjum (sem verða svo sannarlega raunverulegar leyfi maður þeim að komast að sér) þá muni maður komast á leiðarenda. Einhvernveginn muni maður ganga ganginn á enda og standa í ljósinu að nýju.

Ég ætlaði aldrei að verða skáld, eða rithöfundur eða hvað svo sem leikritaskrásetjarar eru kallaður á tímum skilgreiningarleysisins. Ég neyddist til þess vegna þess að það sem mig langaði að tala um, það sem mér fannst nauðsynlegt að segja var óskráð og vildi ég fjalla um það þá yrði ég að skrá það sjálfur.

Og hægt og hægt fer maður að taka þetta hlutverk sitt alvarlega, manni fer að skiljast að þessar manneskjur sem maður kynnist í útlegðinni hafa fullan rétt til þess að verða manneskjur af kjöti og blóði, hafa fullan rétt á því að trúa, vona og þrá. hafa fullan rétt á því að vera sjálfum sér ekki samkvæmar, rétt á lífslygi, rétt á því að anda rétt eins og ég.

Ég vona að ég komi út í ljósið aftur og hafi ekki brugðist þeim.

Þorleifur

Engin ummæli: