þriðjudagur, desember 02, 2008

Fullveldisdagurinn 1 Des...

Dagurinn þar sem mótmælendur og lögreglan töluðu saman.

Maður veit ekki alveg hvort það var, að mótmælendur hefðu lesið sinn Martin Luther King eða þá að löggan er sammála mótmælendum og langar ekkert að lemja þá í nafni ríkissins.

En allaveganna er það magnað að motmælendur bjóði lögreglunni samning, "Þið farið - við förum" og lögreglan verði við því. já, og mótmælendur.

Það er eitthvað göfugt við svona enda. Ofbeldi leysir engan vanda.

----------

En ég held að ég hafi komist að því fyrir mig hvert vandamál mótmælanna er. Það er engin stefna. Fólk er að mótmæla til þess að fá breytingar. Það er offramboð á gagnrýni og skortur á skýrri sýn.

Þetta útskýrir það sem sagt var í bók sem ég las um Wachlav Havel og hvernig "atvinnumenn-byltingarmenn" hefðu tekið yfir tékknesku byltinguna.

Það sem þeir gerðu (rétt eins og í Rússlandi) var að gefa henni fókus. Gefa byltingunni sýn. Hvert bæri að stefna.

Og urðu þar með rödd byltingarinnar.

Ég man að þetta fór ferlega í taugarnar á mér, að menn rændu byltingum, en skil það betur núna þegar ég fylgist með því sem er að gerast.

Fækkunin mun halda áfram nema að það komi fókus.

-----------

Og ég held að ég verði að afþakka frekari ræðuhöld. Ég hef heyrt allt frá Einari Má sem ég þarf að heyra.

Það er ekkert nema eigingirni að halda ræðu í 15 mínútur í 10 stiga frosti og vindi.

Ég er ekki að hlusta á ræðurnar. Ég er ekki einu sinni sammála ræðunum.

Ég vil ekki öskra upphátt "niður með Davíð" og vil ekki vera beðinn um það.

En ég tel mótmælin með því mikilvægasta sem gerst hefur á þessu landi.

Þetta er ekki persónulegt, þetta er kall á breytingar.

Ég vil ekki afturhald sem lokar landinu, vil ekki gjaldeyrishöft, vil ekki sitja undir því að stjórnmálamenn, sem ég tel að séu ekki viljandi að vinna þjóð sinni skaða, séu kallaðir skítberar, og vi lekki láta bera upp á mig persónulegan kala.

Nei, Ég vil ESB, ég vil opin viðskipti, ég vil frelsi og ábyrgð hönd í hönd.

Þessi mótmæli eru að verða VG mótmæli og það er of þröngt.

Það er vandamálið.

Þorleifur

sunnudagur, nóvember 30, 2008

Reykjavík er köld.

Á sama tíma og upplifun af henni er betri úr fjarlægð en reynd er það einhvernveginn alltaf notaleg tilfinning að koma aftur heim.

Ég hef mikið verið að hugsa um stöðuna í samfélaginu okkar. Hvernig komum við okkur hingað?

Hubris kemur ekki úr neinu. Hubris kemur frá því þegar meirihlutinn missir tökin á veruleikanum, trúir uppspunanum sem sannleika.

Í þessu þarf ekki endilega að felast dómur.

Þetta var óumflýjanlegt.

Neyslusamfélagið er samfélag þar sem neysla þarf sífellt að aukast til þess að standa undir vextinum. En laun geta ekki haldið í við neysluna heldur þarf framleiðsluaukning að gera það. Henni er hægt að ná fram með því að vinna meira og þannig er minni tími eftir aflögu til þess að njóta lífins. Neyslu verður því það sem fylla á upp í tómleikan sem fer að grafa um sig hjá þeim sem aldrei hefur tíma til þess að anda aðeins.

Þannig að kaupa flatskjá er ekki endilega merki um samsekt heldur einkenni samfélags sem búið er að missa fótana, hvað varðar manneskjurnar sínar.

Og svo springur blaðran og allir tapa.

Ósanngjarnt þó að þeir tapa mest sem áttu minnst. Einhvernveginn skýtur það skökku við.

Munum við læra af reynslunni?

mér sýnist að við ætlum að halda áfram með sama kerfið ogsama fólkið að stjórna því. Sama hugmyndafræðikerfi og sömu verkfæri. Ef eitthvað er þá er meira vald komið í hendurnar á pólitíkusunum til þess að misnota.

En svo birtir, eða við kveikjum á ljósunum og þá fellur birtan kannski á snjóinn í nýjum vinkli og heimurinn breytist. Og breytist og breytist.

Það er þó allaveganna hægt að gleðjast yfir því.

Þorleifur