miðvikudagur, desember 28, 2005

Góðan daginn og gleðilegar hátíðar.

Nú er svei mér búið að éta og drekka, labba um í snæviþöktum skógum og liggja á meltinu með góða bók í hönd.

En þar sem internettengingin upp í sveit sveik mig þá er um að gera að ég bæti það upp nú og fjalli um restina af sýningunum sem ég sá undanfarið í Berlín.

Enda lítið annað að gera þessa dagana en að lesa um fjarlægt leikhús og leyfa huganum að reika.

Jæja, sýinginarnar sem eftir eru:

1. Endastöðin Ameríka (Sporvagnin girnd) í leikstjórn Frank Castorf (A. Þýskaland)
2. Shopping and Fucking í leikstjórn Thomas Ostermeier (W. Þýskaland)
3. Measure for Mesure í Leikstjórn Simon McBurnley (Bretland)

Endastöðin Ameríka er eins og svo mörg af verkum Castorfs hans eigin útgáfa af hinu klassíska verki Sporvagnin girnd.

Eins og mátti sjá í Borgarleikhúsinu um árið þá ákvað Castorf að fara þá leið að láta fígúrurnar vera White Trash fólk í Ameríku. Alkóhólisma, atvinnuleysi, ömurð og niðurlæging er blákaldur raunveruleiki þess fólks sem okkur er gefinn kostur á að kynnast þessa kvöldstund.

Og Castorf (sem í kjölfar þessarar sýningar sagði tímabundið skilið við leikhúslegt handverk, enda búinn að sýna fram á að þar væri meistari á ferð) leikur sér hér að því að sýna þetta fólk í sem sterkustum anstæðum við þá ímynd sem maður býst við þegar leikritið hefst. Mikið er keyrt áfram af húmor, absúrd situationum, og löngum meistaralegum byggðum senum.

Sviðið er lítil íbúð þar sem einn vegginn vantar (þannig á þessum tímapunkti er Castorf ennþá að vinna með nokkurs konar fjórða vegg, sem hann afneitar líka í seinni verkum sínum), eina rýmið sem við sjáum ekki er klósettið en þess í stað þá er þar búið að koma fyrir videóvél og við fáum að fylgjast með því sem fram fer í gegnum lítið sjónvarp sem stendur við hlið klósetthurðarinnar. Þessi fídus er skemmtilega notaður þar sem til að byrja með er okkur "sagt" að þetta sé ósýnilegur gluggi fyrir áhorfendur einvörðungu en svo allt í einu í miðju stykki fara leikendur að nota þetta til þess að fylgjast með hvoru öðru inni á klósetti (þangað sem allir flýja þegar tilfinningar þeirra bera þá ofurliði).

Annað sem gefur þessari sýningu slíkan gæðastimpil er hvernig farið er með sambandið við áhorfendur. Eins og ég hef lýst hér að ofan þá hefst þetta í raun eins og "well made play". Fjórði veggurinn stendur sterkur og klár og við sitjum handan hans viss í þeirra trú að við séum örugg fyrir því sem á sviðinu á sér stað. En ekki líður á löngu þar til Castorf stenst ekki mátið og fer að fíflast í okkur. Hlutum er hent út í áhorfendarýmið, mónólógarnir fara stöðugt meira og meira fram "in our face" og loks er verkið leikið meira og minna til okkar (þegar það hentar sýningunni).

Loks lyftist sviðið að framan og við hættum að sjá það, á meðan leikararnir berjast við að vega salt á sviðskörinni og leika til okkar.

Að mörgu leyti lætur Castorf söguna liggja nokkuð nærri upprunalega textanum þó svo hann hafi endurskrifað textann sjálfan. Mikið er af kvótum í samtímann og þó svo að persónurnar séu ennþá pólskir innflytjendur í Bandaríkjunum (sem eru í aðra röndina stolt af uppruna sínum og skynja að Ameríski draumurinn var greinilega ætlaður öðrum en á hinn bóginn hafa ekkert annað að fara og dreyma einvörðungu um að snúa heim) en Castorf er óhræddur við að skjóta inn tilvísunum í þýskan samtíma. Staðarnöfn, atburðir og annað í textanum virðast manni svo að textinn sé endurunninn í hvert skipti sem verkið er tekið upp að nýju. Hvort svo er veit ég ekki, en sé svo ekki þá sínir það einungis hversu vítækur hugsuður Castorf er.

Tónlistarnotkun í verkinu er einnig snilldarleg. Meira og minna öll tónlist er flutt live á sviðinu og situr þá einn leikarinn (það virðist að þýskir leikarar kunni meira og minna allir á hljóðfæri) og spilar til skiptis á fiðlu, gítar og kontrabassa. á einum stað mætir svo allt castið og spilar sem hljómsveit á hápunkti verksins þegar Blanche brotnar saman. Þetta var frábær stund!

Ég get ekki yfirgefið umfjöllun um verkið án þess að minnast á andartak sem í raun er ekki hluti af verkinu en sýnir vel fram á hvers konar leikhús Volksbühne er og hvað er hægt í leikhúsi.

Einn helsti leikari Volksbühne, Henry Hübchen í hlutverki Mitch, stendur þá og hlýðir á grátbólginn mónólóg Blanche. Á því andartaki fær einn áhorfendanna hóstakast og linnir ekki látunum fyrr en Blanche er hætt að gráta og starir á viðkomandi áhorfenda. Hann skammast sín og reynir að bæla niður hóstann. Við þetta fær leikkonan sem leikur Blanche hláturskast og getur ekki haldið rullu sinni og mónólóg gangandi. Henry Hübchen horfir á og sér að mótleikkona sín er dottin út, við það snýr hann sér út í áhorfendasal og segir "láttu þér batna" (gesundheit á þýsku) og snýr sér aftur að blanche (sem nú er að ná sér) og heldur áfram að leika. Á þessu andartaki greip salurinn andan á lofti enda var leikhúsgaldurinn brotinn í andartak og á sviðinu stóðu allt í einu leikarar, ekki persónur.

Þetta sæji ég í anda í Þjóðleikhúsinu!!! HAHAHA

Þetta er orðið að venju, allt of langt og því verður að bíða aðeins lengur með umfjöllun um shopping and fucking og Measure for Measure. En ég lofa að það verður innan skamms.

Áramótakv frá Helsinki.

Ykkar

Þorleifur