föstudagur, febrúar 01, 2008

Góða kvöldið

Þjóðverjar eru í National Socialisma ham þessa dagana enda eru 75 ár síðan Hitler og co. komst til valda.

Hér er varla hægt að kveikja á sjónvarpi, opna blað eða hlusta á útvarp án þess að heyra Þjóðverjana vera að velta þessu fyrir sér.

Það er ekki nokkur efi að stærsta spurning sem Þýskaland er kollektívt að kljást við er "hvernig stóð á því að við kusum þetta yfir okkur"?

Þetta er heillandi fyrirbrigði. Kynslóðir sem muna ekket eftir stríðinu eru engu að síður heltekin af þessu. Ekki má minnast á þetta á almannafæri nema hvíslandi undir 4 augu, í skólanum er þetta umræðuefni stöðugt upp á pallborðinu, þetta gegnsýrir í raun allt.

Auðvitað er þetta stór spurning. Hvernig vel menntaðri og upplýstri þjóð tókst að falla fyrir öðrum eins vitleysingi og Adolf Hitler. Maður þarf nú ekki að lesa lengi í Mein Kamp til þess að komast að því að maðurinn er annaðhvort snarruglaður eða takmarkalaust vitlaus, nema bæði sé.

Og menntasnobbararnir í borgarastéttinni skilja þetta bara ekki.

Ég hef notað tækifærið til þess að lesa upp fyrir Þjoðverja stuttaralega þýðingu mína á orðum Þórbergs Þórðarsonar sem skrifar í bréfi sínu um Hitler 1931 að annað eins samansafn af vitleysu, innihaldslegum útúrsnúningum og öfgabulli hafi hann aldrei augum litið. Og bætir því svo við að þessu geti ekki nokkur upplýstur maður fallið, fyrir nema í mjög skamman tíma í senn, og þá líklega fullur.

Þessu taka Þjóðverjarnir óstinnt upp, enda ekki vanir því að sitja undir mórölskum lexíum frá íbúum smáþjóða út í hafi, hvað þá rauðhærðum.

En eftir stendur að þeir kusu þetta yfir sig og geta ekki hætt að hugsa um það.

Og allir á bullandi móral.

Auðvitað er svo ris Nasistana efni í risa pistil, maður yrði að taka inn kreppuna miklu, versalasamninginn, niðurlæginguna í WW1 og hroka þýska keisaradæmisins, en þann pistil vil ég ekki skrifa í kvöld, og efast um að þið vilduð lesa hann.

En fyrir þá sem lesa þýsku var Spiegel að gefa út gott 100 síðna blað um þetta. Hér er svo fyrir enskumælandi.

Bestu kv,

Þorleifur

þriðjudagur, janúar 29, 2008

Góða kvöldið

Það segir marga söguna að hagkerfi sé nú nefnt eftir Britney Spears.

Þessi fárveika manneskja jók áhuga almennings á slúðurblöðum, þáttum og öðru tilheyrandi að í viðkomandi miðlum var mikil gósentíð.

Þessi misnotkun á eymd hennar er því miður sorgleg birtingarmynd á stöðuna í fjölmiðlaheiminum. Fjölmiðlar eru katastrófum háðir, enda eru það þær sem koma með björg í bú. Og eftir allt er það takmark fjölmiðla (sem og annara fyrirtækja) að græða peninga.

Auðvitað er ekki hægt að banna misnotkun á eymd manneskja, það eru fullt af stöðum í samfélaginu þar sem ólukka er nýtt til þess að græða peninga (þarf ekki að hugsa lengra en til vændis eða kláms) en það breytir því ekki að samfélagið þarf að staldra við, fjölmiðlarnir þurfi að staldra við þegar augljóst er að ásóknin í "fréttina" er farið að valda stórum hluta vanlýðaninnar.

Ég horfði á myndband þar sem Britney kemst ekki út úr búð vegna þess að hún er umlukt hundruðum myndatökumanna. Þeir húka yfir bílnum hennar, kalla á hana, ýta við henni, leyfa henni ekki að komast leiðar sinnar, hún er beinlýnis ofsótt.

Britney hefur vissulega náð langt með því að nýta sér aðgang að fjölmiðlum en það gefur þeim ekki rétt til þess að svifta hana grundvallar ferðafrelsi.

Og má því spyrja sig hver sé gerandi í svona tilfelli.

Eru það fjölmiðlarnir sem ekki gefa henni frið, eða erum það við sem klikkum á linkinn, kaupum blaðið og gefum fjölmiðlunum þannig ástæðu til þess að sækja svona á stelpugreyjið?

hvernig sem á það er litið er sorglegt að fall einnar manneskju sé skemmtun umheimsins.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín