mánudagur, apríl 07, 2008

Góða kvöldið

Þorleifur skrifar frá St Gallen í Sviss.

Ég settist upp í bílinn minn í gærdag, brunaði sem leið lá í gegnum Þýskaland (sem er nú ekkert sérstaklega leiðinlegt þar sem engin eru hraðatakmörkin og bíllinn fær um að nýta hömluleysið), skellti mér sem leið lá í gegnum göng og kom út í Sviss.

Ég var hér líka í fyrra. Þá var tilgangurinn að heimsækja fjöllin, sækja orku og frið. Og það tókst.

Í þetta skipti þá misreiknaði ég mig örlítið hvað árstíma varðar og komst að því að hér er ekki hægt að ganga fjöll á þessum árstíma, enda þakin snjó, en hinsvegar er hægt að skíða.

Skíði hef ég ekki sett á fætur mínar síðan ég var 14 og féll við í Bláfjöllum. Það var þegar ég var ungur og hafði ekki áttað mig á eðlisfræði. Nú er ég eldri, reyndari og vitrari og veit að manneskjur geta ekki flogið - og er því fullfær að reyna aftur við skíðin, því fjöllin verð ég að heimsækja.

Sumsé, í fyrramálið verður vaknað snemma og fjöllin leituð uppi.

Ég er hér annars til þess að skoða leikhúsið sem ég er að fara að setja upp í næsta vor. Hitta fólk, plana og plotta. Þetta er annars einn skemmtilegasti hluti vinnunnar minnar, að plana heiminn sem maður ætlar að koma á svið. Að hugsa um möguleikana áður en veruleikinn hefur eitthvað með það að segja. Nú ríkir ekkert nema hugmyndir.

-----------

Ég kom í gærkvöldi, snemma, tékkaði mig inn og fór svo á flakk um borgina. Ég var í leit að veitingastað - mcdonalds nánar tiltekið - en komst að því eftir mikið labb í snjókomunni að Mac lokar hér á kristilegum tíma. Eini staðurinn sem hægt væri að fá matvæli væri á bensínstöðinni.

Well, beggers cant be choosers þannig ég fór sem leið lá á bensínstöðina.

Móti mér tók fullur salur af reykjandi aröbum (ég mun fjalla um nýtilfundnar rasistatilfinningar mínar í næsta innslagi), kokkur með svuntuna yfir öxlina með hárið lafandi ofan í steikpottunum, stæk fýla sem samanstóð af gömlu brennsluolium, reyk og bensínstybbu.

Mér leyst frábærlega á þetta, tók mér sæti, pantaði kjúkling, franskar og salat ala Stuðmenn og settist innan um fjölmenningarhópinn.

Ekki leið á löngu þar til maturinn kom á borðið og í kaupbæti settist til móts við mig maður, þrútinn af drykkju og spiki og hóf umsvifalaust samræður. Þar sem mér fannst andrúmsloft staðarins ekki bjóða upp á, spurði ég hann út í St Gallen, hvað hefði til dæmis orðið um reykingarbannið sem er víst í gildi í Sviss. Hann svaraði því til að reykingarbannið væri leið pólitíkusanna til þess að fela það að þeir hefðu engar lausnir við hinum raunverulegu vandamálum samtímans. Atvinnuleysi ungmenna, menntaskorti, erfiðum efnahag og svo framvegis.

Mér fannst þetta áhugavert. Getur það verið að pólitíkusar tækli svona mál eins og reykingarnar af því þeir einfaldlega geta það? Af því að þeir trúa því að þeir séu kosnir til þess að gera hluti og því verða þeir að gera eitthvað til þess að það líti út fyrir að þeir séu að gera eitthvað.

Það skilur engin hvernig hagkerfið virkar svona í alvöru. Efnahagsmódel eru ferlega spennandi en virðast oftar en ekki fallast í faðma með frænda sínum veðurfréttunum, að geta lýst í smáatriðum hvað gerðist í gær, en þegar kemur að morgundeginum þá er það anybodies guess...

Og hvað eiga pólitíkusar að gera? Verða þeir ekki að gera eitthvað? Eða þurfa þeir kannski bara að halda sér til hlés og grípa inn í þegar aflaga fer...

Illugi Gunnarson trúir því að hlutverk hans sem stjórnmálamaður sé að framleiða fá en góð lög. Það megi ekki hugsa um alþingi eins og fyrirtæki þar sem allt er metið í framleiðni. Það þurfi að hugsa alþingi eins og think tank samfélagsins. Þar sem fólk af hinum ýmsu þrepum samfélagsins, með mismunandi menntun og heimssýn hittist til þess að taka afstöðu til þess hvað betur megi fara. Því ætti takmark Alþingis að vera fá en góð lög, en ekki bara fullt af lögum sem svo engin hefur þörf eða áhuga fyrir.

Þetta er áhugaverð pæling...

Gæti verið að bensínstöðvarfyllibyttan (sem gengur undir nafninu LORD FÄSI - Künstler der Kockologi) hafi rétt fyrir sér?

Ég skal ekki segja um það en hitt er ljóst að ég mun heimsækja þennan stað reglulega hér eftir, Mcdonalds bíður ekki upp á svona heimspeki.

Bestu kv.

Þorleifur