Góðan daginn
Þessi mynd er myndlíking.
Myndlíkingin á við hvar maður er staddur þessa dagana.
Uppsetning á leikriti er stórkostlegur prósess, sérstaklega þegar vel gengur. Eins og núna...
Og maður sest í klefann, fyrir framan mann er himininn, fyrir neðan hafið og jörðin og maður veltir fyrir sér hvernig manni takist í þetta skipti að tengja þetta tvennt saman.
Og þegar það tekst þá er von á stórvirkjum, en oftar en ekki tekst það ekki en tilraun til þess verður engu að síður að eiga sér stað.
Ég hef aldrei verið eins bjartsýnn á uppfærslu eins og ég er núna. Það er einhver andi í hópnum, í okkur, í textanum, í persónunum sem ég hef ekki séð áður í verki sem ég hef komið nálægt.
En nú fer róðurinn að þyngjast og þá er að halda sér við efni, hafa sig nógu hreinan í huga og sál til þess að geta tekist á við það sem uppá kemur, geta valið og hafnað en umfram allt að halda sér við innsæið.
List er nefnilega ekki formúla. Það er ekkert kerfi sem framkallar list. List á heima á mörkum, list er tilfinning, list er innsæi. Hitt eru hugvísindi. Og List getur því aðeins átt sér stað á mörkum rökhugsunar og tilfinningar, raunveruleika og óraunveruleika. Og til þess að geta starfað þar verður maður að treysta.
Góða nótt
Þorleifur
miðvikudagur, janúar 10, 2007
Gerast áskrifandi að:
Færslur (Atom)