föstudagur, janúar 25, 2008

Góða kvöldið

Orð dagsins er lýðræði.

Þetta orð hafa allir nota til alls undanfarna daga. Menn tala um misnotkun á því bæði í borgarráðssal og á pöllum, í fréttum og spjallþáttum, og ekki hefur nokkur pólitíkus opnað munninn í dag án þess að taka sér þetta orð í munn.

Ekki furða að hugtök séu að missa merkingu.

Frelsi... anyone... ?

Það er einnig áhugavert hvernig umræðunni um óhæfuna í borgarstjórn Reykjavíkur hefur verið snúið upp í umræðu um mótmælin sjálf, ekki gegn hverju var verið að mótmæla. Borgaraleg sýn fréttastofu sjónvarpsins fékk hér að ráða.

Vona bara að þetta hafi ekki sömu áhrif og Kárahnjúkamótmælin, sem höfðu fullan rétt á sér en fréttaflutningur af þeim (sem og á stundum undarlega umfjöllun um þau í fréttum) gjaldfelldi algerlega málstaðinn.

Stundum er fólk einfaldlega reitt og afar skiljanlegt er að fólk taki út reiði sína á þeim sem ollu henni.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín

fimmtudagur, janúar 24, 2008

Góðan daginn

Egill Helgason fer mikinn og segir mótmælin á pöllum borgarstjórnar muni vekja upp samúð með Ólfi, nýjum borgarstjóra.

Gefur þar með í skyn að ef fólk lætur heyra í sér, grafi undan þeim málstað sem það er að berjast fyrir.

Þessi borgaralega sýn Egils er týpísk fyrir skrif hans. Hann vill ekki óróa, vill umræðu en að hún fari fram í ró og næði, án þess að í raun trufla neinn og taki alls ekki á sig öfgakenndar myndir.

Mig gleður hinsvegar að sjá fólk bregðast við á þennan hátt. Ef stjórnmálamennirnar hegða sér eins og fólkið sé ekki til (eða skipti ekki máli) þá var heldur betur kominn tími á að minna þá á það.

Ég leyfi mér að halda að köllinn muni glymja í eyrum Ólafs, Villi og co það sem eftir lifir stjórnartíð þeirra (sem ég spái að muni standa í 103 daga). Því það er ekki hægt að vona að mótmæli breyti einhverju á staðnum (við erum ekki í Frakklandi) heldur að þau ýti hlutunum örlítið í rétta átt.

Lengi megi því köllin hljóma.

Þorleifur
Berlín
Góða kvöldið

Ég hef verið að hugsa. Það er ekki hægt að taka frá nýjum meirihluta að þeir hafa meirihluta. Og fyrst fólk sá ekki í gegnum framsókn og frjálslynda í síðustu kosningum þá má svo sem færa rök fyrir því að það eigi þessa borgarstjórn skilið.

En það er kannski ekki lýðræðið sem er að svíkja okkur, það eru stjórnmálamennirnir sjálfir. Sama hvernig þessu er snúið þá er ekki hægt að líta fram hjá því að D bauð manni sem búinn er að vera langdvölum frá vegna veikinda, og hefur á því tímabili ekki getað sinnt skildum sínum við borgarbúa, borgarstjórastólinn í þeirri von að valdagræðgi hans myndi verða til þess að þeir kæmust aftur til valda.

Ólafur getur talað eins og hann vill um málefnin sín en hefði hann tekið upp meirihlutasamstarf ef ekki hefði verið stóll í boði.

En ég veit ekki hvort er verra og gildissnauðara, hann að taka stólinn eða Villi og co. að bjóða honum hann.

Þorleifur
Berlín

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Góða kvöldið

Fyrst vil ég óska Sjálfstæðisflokknum til hamingju með nýjan samstarfsflokk. Miðað við það sem upplýst hefur verið í dag um samskipti Dags. B og Ólafs þá mega þeir eiga von á góðu. Ekki það, þeir hafa reynslu af svona samstarfsmönnum.

Stjórn Reykjavíkurborgar er farið að vera eins og stemmingin á góðu sveitaballi, allir að reyna við alla.

Allir með öllum, allir að svíkja alla, og allir gleyma því sem sagt var í gær og lofa svo öllu fögru fyrir morgundaginn...

Nú er D búin að reyna við V og sofa hjá F og B, S er búið að sofa hjá öllum nema D, B er búið að sofa hjá öllum sem og botnfyllan Ólafur sem nú fullkomnar hringinn.

Vert er þó að geta þess að Reykjavíkurborg er stærsta fyrirtæki landsins, sem og grunnur flestallrar þjónustu sem fólk í Reykjavík sækir.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín

PS: Reyndar gladdi það mig að eina manneskjan sem fannst til þess að óska Ólafi til hamingu var mamma hans, fallegt hjá vísi að koma því á framfæri.

mánudagur, janúar 21, 2008

Góðan daginn

Ég tel að fáir myndu nú gráta það ef Bingi myndi finna sér eitthvað annað að gera, nema þá kannski helst hann sjálfur. Grátur hans á flokkþingi framsóknar virkaði svo vel að Clinton tók það upp.

Það eina sem ég myndi óska mér væri að Bingi fengi starf þar sem ekki er nokkur leið að hann geti haft áhrif á unhverfi sitt.

Vissulega væri það einhver bitlingur sem hann fengi, sérstaklega frá þeim vinum sínum sem hann hefur stutt með ráð og dáð í gegnum tíðina. En eiga þessir vinir hans ekki fyrirtæki í útlöndum, langt langt í burtu? kæmi það í raun ekki bara best út fyrir alla?

Þorleifur
Berlín