miðvikudagur, júlí 23, 2008

Frá Grundarfirðinum

Ég hef alltaf verið haldinn fordómum út í grundarfjörð. Veit ekki af hverju, kannski er það nafnið, kannski þessi óhuggulega vondi matur sem ég át hér að kvöldlagi um árið, kannski inngróinn plebbismi þess sem alinn er upp á mölinni í 101 eða kannski bara hreinir fordómar.

Hvað sem því líður þá hef ég neyðst til þess að endurskoða þessa afstöðu mína. Ég er sumsé staddur á Grundarfirði og hef sjaldan átt betri daga.

Ef einhver hefði sagt mér að ég myndi eyða fyrstu dögum nýss áratugar í lífi mínu hér í þessu pleisi þá hefði ég umsvifalaust afskrifað viðkomandi sem sjúkling en ætli það sé ekki ég sem er sjúkilingurinn...

Í mér hefur blundað fjallagarpur mikill um ómuna tíð. Blundað svo sterkt reyndar að hans hefur vart orðið var, svona nema rétt í morgunsárið þegar ég lít um um gluggan á kompunni í 101 og sé falleg fjöllin í fjarska.

En hann var vakinn með látum hér í fyrradag þegar lagt var á helgrindur í rigningu og þoku. Ég gekk með vinkonu minni upp á þetta mikilúðuga fjall og þvílíkt ævintýraland sem finna má í háum hlíðum fjallsins.

Eltum fossarunu upp (enda þokan svo stíf að skyggnið var sama sem ekkert) og við hvern foss sem birtist úr móðunni tókum við andköf. Fossarnir runnu niður hlíðarnar í ótrúlegri sinfóníu græns, rauðs og guls mosa. Steinarnir tóku á sig svart sigg sem gerði á dularfyllri og stungu þeir í augun mitt í þessum litakonsert og minntu okkur á að þeirra er tíminn - við erum hér bara í heimsókn.

Miðja leið upp stóð svo stór klettur uppúr jafnsléttunni. Ekki var nokkur leið að sjá hvaðan þessi klettur hefði getað komist þangað, of langt var í hlíðina en passaði hann þó ekki í umhverfi sitt.

Ég ákvað að þarna stæðum við við fjallshjarta. Einu ummerkin sem eftir væru af fjalli sem þar hefði staðið. Tíminn, vindurinn og vatnið hefðu sorfið fjallið niður og eftir stæði ekkert nema þessi klettur, tímaklettur, eilífðarklettur.

Ég faðmaði tímaklettinn í nokkrun tíma og hlustaði eftir enduróm aldanna.

Ég sver það að ég heyrði það.

Þorleifur