fimmtudagur, desember 20, 2007

Góðan daginn

Vinur minn sendi mér bréf í dag þar sem hann kvartar yfir því að honum sé það ófært að skrifa grein gegn einkarekstri í heilbrigðiskerfinu. Orsakar ófærðar sinnar rekur hann til þess að allt sem hann skrifi gegn hinni kapítalísku stefnu hljómi eins og það sé 25 ára gamalt.

Og ég tel að þetta sé rétt hjá honum. Það er næsta ómögulegt að skrifa gegn kapítalsimanum (vilji maður það) þar sem umræðan hefur överið efnahagsvædd. Með því á ég ekki við að þetta sé eitthvað miðstýrt plott hægri manna og kapítalista, heldur hitt að kapítalisminn þurfti svo lengi að berjast fyrir tilveru sinni að þegar han varð svo loks ofaná þá var orðræðan orðin algerlega einhliða.

Ég er á því að kapítalisminn sé besta samskiptakerfi vöruskipta sem við eigum. Það þarf ekki að þýða að það sé líka besta samskiptakerfið þegar að mannlegum samskiptum kemur, þegar að tilfinningamálum á samfélagslegum grundvelli kemur, þegar þetta snýst um það sem hagkerfið nær ekki utan um.

Kannski þurfum við að hætta að berjast fyrir kapítalismanum og meðtaka hann eins og hann birtist (sem þýðir ekki að við eigum að hætta að bæta hann og lagfæra) og með því þá að opna fyrir önnur kerfi mannúðlegri samskipta til þess að ræða það sem ekki er hægt að telja í krónum og aurum.

Meðal annars heilbrigðiskerfið...

Þorleifur
Ísland

þriðjudagur, desember 18, 2007

Góðan daginn

Í dag kemur ný grein inn á mittleikhus síðuna mína. Þetta er frekari umfjöllun og hugleiðingar um stöðu leikhússins í hinu kapítalíska umhverfi.

Sjá hér

------------

Nú berast fréttir frá Saudí Arabíu um að naugunarfórnarlaminu unga, sem dæmd var til fangelsisvistar og svipuhögga, hafi verið þyrmt. Þetta er í sjálfu sér ánægjulegt en tekur ekkert frá þeim óhuggulegu forsendum sem lágu að baki dómnum til þess að byrja með.

Hún var dæmd fyrir það að vera á ferli með ókunnugum manni þegar þau voru gripin og þeim báðum nauðgað. Reyndar kom svo í ljós að hinn "ókunnugi maður" var fyrrum kærasti hennar og hún var á staðnum í þeim tilgangi að ná aftur myndum sem hann hafði tekið af henni, hún var nefnilega að fara að gifta sig.

Þetta segir manni að í Saudí Arabíu eins og annars staðar leika ung pör sér, sumir með því að fara í búninga og aðrir með því að taka myndir. En líklega má leiða að því líkur að alvarlegra sé litið á slíkar myndir komi þær út (t.d á internetinu) í Saudi en annars staðar. Og þó svo að líta megi á þetta sem ákveðið skref í frjálsræðisátt hjá parinu fyrrvernadi, þá í raun var um afar skynsamlega aðgerð að ræða hjá umræddri stúlku.

Einnig vekur það athygli mína að ekkert hefur verið fjallað um það að drengnum var líka nauðgað. Í Saudi Arabíu liggur allt að dauðarefsingu við nauðgunarbrotum og einnig við samkynhneigð.. Þegar þetta tvennt kemur saman þá hlýtur nauðgarinn heldur betur að sjá sæng sína útbreidda.

En hvergi er minnst á þetta. Þannig líklega hafa sömu fordómar og sjá samkynhneigð sem dauðasynd bjargað nauðgurunum, enda vandræðalegt fyrir stjórnvöld að dæma menn fyrir samkynhneigðar nauðganir í landi þar sem samkynhneigð á ekki að vera til staðar.

Út af fyrir sig er það gott að þetta mál komst upp, sýnir að fjölmiðlar eru rétt farnir að gróssera í landinu og harðstjórnin getur ekki haldið aftur af öllum fréttum (eins og N-Kóreu). En á sama tíma hlýtur maður að spyrja sig um þær þúsundir og tugþúsundir kvenna sem eru nauðgað og barðar og misnotaðar í landinu og komast aldrei undir kastljós fjölmiðla. Mun þetta bæta stöðu þeirra? Er þrýstingurinn nógur til að svo geti orðið? Mun svona pr fíaskó sjá til þess að einræðisherrarnir hugsi sig tvisvar um og fari að vinna að bættri stöðu kvenna? Mér er það að gefinni reynslu til efs.

Maður hlýtur einnig að spyrja sig um örlög þessarar stúlku. Nú tel ég nokkuð líklegt að giftingin hafi ekki gengið í gegn enda hefur hún verið svipt hreinleikanum. Hún býr líklega við stöðugar hótanir enda gengur framferði hennar gegn hinni opinberu stefnu (og hinni trúarlegu stefnu þar sem konur eiga að halda sig heima og sitja í aftursætinu), efnahagsleg framtíð hennar er einnig heldur dapurleg enda mega ógiftar konur ekki vinna. Og þetta í ofanálaf við það að vera nauðgað 14 sinnum af 7 mönnum.

Hvað um lögfræðinginn hennar sem sviptur var lögfræðiréttindunum fyrir það að neita að sætta sig við málsmerðferðina? Hver er hans framtíð?

Og hvað varð um fyrrum kærastan sem var nauðgað? Hvar fær slíkur drengur vinnu? Talar nokkur við hann?

Ef fjölmiðlar vilja hafa raunveruleg áhrif (og laga frekar en skemma) þá verða þeir að halda áfram að flytja fréttir af þessu máli, verða þeir að rannsaka hag kvenna í Saudí Arabíu almennt og opna augu vesturheims fryrir raunverulegu ástandi í þessu "bandalagsríki" vestursins. Fjölmiðlar mega ekki skilja þetta hugrakka fólk eftir - eitt - andspænis ríki og kirkju eigin lands.

Þetta mál leiðir einnig hugann rétt einu sinni að því harðræði sem ríkir í Saudi Arabíu. Saudi Arabía hefur lofað bót og betrum árum saman, lofað að einhverskonar lýðræði sé handan hornsins en alltaf gengið á bak orða sinna. Þetta tilbúna ríki heldur þegnum sínum í heljargreipum og ef ekki væri fyrir olíuna og vinskapinn hennar vegna við valdhafa heimsins þá væri þessi stjórn þarna löngu fallinn. Sýnir enn einu sinni fram á það að gríðarlegar náttúrulegar auðlyndir geta verið góðar fyrir efnahag hinna fárru en leitt skelfingu yfir þjóðina sem hinir fáu stjórna.

Þorleifur
Ísland

mánudagur, desember 17, 2007

Góðan daginn

Fyrst vil ég hrósa Morgunblaðinu fyrir það hversu áberandi leikhúsin eru í blaðinu. Þetta er óumdeilanlega mikill styrkur fyrir leikhúsin og sýnir þetta að Morgunblaðið sýnir þessari listgrein mikin og góðan skilning.

Og því tengdu.

Nú voru að koma af því fréttir að leikhúsfólk og tónlistarmenn eru verst borguðu starfsmenn ríkisins. Það er af sem áður var. Upphaflega var nefnilega stefnan að laun leikara fylgdu háskólakennurum.

Flestir eru nú á því að listir og menning séu það sem skilgreina samfélög. Þegar maður skoðar menningarsöguna þá eru það listirnar og stríðin sem lifa tímans tönn, búrókratarnir og viðskiptamógúlarnir falla í gleymskunnar dá.

Þess vegna er staða listamanna á Íslandi í dag stóralvarlegt mál. Það er ekki hægt að lifa á þeim tekjum sem bjóðast í þessum geira. Laun eru skýrasti mælikvarði mikilvægis starfsmanna og þegar launin eru svífirðileg þá segir það mikið um hvernig vinnuveitandinn metur starfsmenn sína.

Því er svo haldið fram að listamenn liggi á fyrirtækjum til þess að snappa styrki og er það rétt. En það er ekki gert af fégirnd heldur til þess að lifa af, til þess að koma verkum á framfæri, til þess yfirhöfuð að geta stundað þessa listsköpun. Listamenn þurfa að liggja á fyrirtækjum og vona að fyrirtækin sjái á þeim aumur svo þeir þurfi ekki að snúa sér að öðrum störfum. Taka ber þó fram að styrkir fyrirtækja (þó eru á þessu undantekningar) ná aldrei upp í nema lítin hluta uppsetningar leikverka.

Og staðan er mun verri hjá sjálfsstæðu leikhúsunum en hjá liststofnunum ríkisins. Þar vinna menn meira og minna fyrir ekki neitt, sem hver heilvita maður sér að getur aðeins gengið þegar menn eru fjölskyldulausir. Þegar fjölskyldurnar koma til þá leggjast menn í alls konar önnur störf til þess að draga björg í bú.

Mér er það til efs að nokkur leggi stund á nám í leiklist til þess að vera veislustjóri, lesa inn á auglýsingar eða syngja í coverböndum í brúðkaupum. Vissulega allt hlutir sem geta verið skemmtilegir en taka á sama tíma athyglina frá því sem listamaður "á" að vera að sinna - það er listsköpun sinni, samfélaginu til framdráttar.

Markaðssamfélagið er að mörgu leyti afar gott samfélagsfyrirkomulag en innan þess verður samfélagið að skilgreina hverju það finnst skipta máli og hvað ekki. Ef listirnar skipta það ekki máli þá verður svo að vera og íslenskt samfélag stendur fátækar eftir. Ef Íslands hins vegar lítur á listirnar sem hluta af sjálfsmynd sinni og telur það styrkja og styðja framrás samfélagsins þá verður að grípa til aðgerða og það strax.

Annars er hætta á að allir sem getu og áhuga hafa snúi sér að einhverju öðru - og verður það Íslands missir.

Bestu kv.

Þorleifur
Island

laugardagur, desember 15, 2007

Góða kvöldið

Smá komment á umræðuna um Mao bókina hennar Jung Chang.

Ég tók þessa bók til lestrar enda orðið töluvert hrifinn af bók hennar um strit og líf kvennanna í fjölskyldu hennar.

Hafði það svo í bakhöndinni að foreldrar mínir hefðu farið sem sérlegir fulltrúar íslenskra listamanna til Kína árið 1971, í andarslitrum menningarbyltingarinnar, og ég lifði með sögunum sem þau sögðu mér.

Það var vissulega bland aðdáunar og krítíkur sem þær sögur báru með sér (eins og flest í heiminum í raun og veru er við nánari eftirgrennslan).

Þegar ég svo stal Mao bókinni hennar systur minnar og tók með mér til Finnlands þá hlakkaði ég mikið til.

Mér fannst strax í bókinni að þarna væri um algerlega einhliða frásögn að ræða. Svo einhliða að um miðbik bókarinnar, eftir kaflan um uppbyggingu búrókrasínnar (einhver magnaðasta kennslubók í uppbyggingu einvelda sem ég hef lesið), þá hreinlega gafst ég upp. Ég nennti ekki meiru.

Ekkert er frá Maó tekið hvað varðar illmennsku hans og fyrirlitlegra aðgerða þó svo á mann renni tvær grímur við lestur svo grímulauss haturs á viðfangsefninu.

Þegar farið er að túlka ljóðin hans frá unglingsárunum, þar sem hann sér allt í dimmu og vonleysi, sem lýsandi dæmi um hatur hans á manneskjunni þá hlýt ég að vera sekur um álíka mannvonsku (er líka uppgjafar þunglyndisskáld frá unglingsárunum), þegar því er haldið fram að hann hafi ekki stigið eitt skref í göngunni löngu önnur en þau til þess að traðka þræla hans og burðarmenn til dauða þá verður þetta fljótlega aðeins hjákátlegt.

Og það sem maður á kannski erfiðast með að skilja með þessum skrifum er það að af nógu er að taka vilji maður reyna að brjóta á bak aftur goðsögnina um Maó, ekki er nauðsyn á því að túlka allt a versta veg og gera það af svo mikilli heiftúð að hinn venjulegi lesandi kvekkist við.

Að þessu leyti er þessi bók algerlega misheppnuð og tekst alls ekki ætlunarverkið, það er að hvetja aðra til haturs, vegna þess að sparka í liggjandi fólk, jafnvel þó svo viðkomandi sé fyrirlitlegur, veitir engum venjulegum manni ánægju.

Þorleifur
Ísland

miðvikudagur, desember 12, 2007

Góða kvöldið

nú liggur fyrir alþingi frumvarp sem snýst um það að breyta þingsköpum. Þarna eru margar góðar og gildar breytingar að finna.

Heppilegt er að stjórnarandstöðuformenn og þingmenn sem þurfa að dvelja langdvölum úti á landi fái aðstoðarmenn, gott er að þingmenn geti oftar borið upp spurningar til ráherra(frúa). Um þetta er vart hægt að deila. Þingmenn þurfa að komast yfir mikið magn upplýsinga á sama tíma og þeir þurfa að sinna sínum heimahögum, er því gott fyrir upplýsingu og lýðræði að þeir fái til þess nauðsynlega aðstoð. Sama á við um stjórnaranstöðuleiðtoga sem þurfa að hafa góða yfirsýn.

En svo liggur líka fyrir breytingartilaga um að takmarka ræðutíma í annari umferð sem nú er ótakmarkaður.

Þarna stoppar maður aðeins við.

Í raun er þetta ekki slæmt ef ekki væri fyrir það að stjórnaraðstaða á Íslandi er óttalega máttlaus til þess að berjast gegn málum (sérstaklega þegar um sterka stjórn er að ræða). Þó vissulega hafi ákvæðið um ótakmarkaðan ræðutíma ekki verið hannað til málþófs þá er hægt að nýta það til þess að tefja mál og jafnvel (ef nóg er undir) koma í veg fyrir afgreiðslu mála.

Að misnota heimildir er vissulega áhættusamt, því ef ekki liggur að baki nógu góður rökstuðningur þá er misnotkunin einvörðungu til trafala, og gjaldfellir jafnvel hugmyndina að misnotkuninni. En hins vegar geta vissulega komið upp þær aðstæður að bráð nauðsyn sé á stjórnarandstöðu sem töggur er í. Og sé því þetta ákvæði fjarlægt þá er einnig búið að fjarlægja sterkasta vopn upplýstrar stjórnarandstöðu til þess að standa gegn málum.

Vissulega má deila um þau málþof sem stjórnarandstaðan stóð fyrir á undanförnum árum, flest voru þau óþörf og drógu þar með úr vægi þess að notast við málþófið. En hinsvegar má benda á mál sem fjölmiðlafrumvarpið, þar sem málþófi var beitt, og vakti mikla athygli á málinu (reyndar skaðaði ekki að verið var að ræða um lög gegn upplýsingaveitunni).

til samanburðar má benda á málþófsréttinn (Filibuster) í Bandaríkjunum sem er sterkasta vopn minnihluta í efri fulltrúadeildinni (Senat) og hefur notkun á málþófi þar bæði komið í veg fyrir að mál næðu í gegn sem og hótanir um málþóf sé til þess að mál yrðu ekki lögð fram. Repúblíkanar reyndu á síðasta þingi að fella þetta akvæði úr gildi, það er þangað til þeim datt í hug að þeir gætu tapað kosningum og þyrftu þá etv. að nýta sér slíkan rétt.

Auðvitað væri best í máli sem þessu að komið væri inn heimild til stjórnarandstöðu þar sem hún getur á einhvern hátt haft áhrif á mál stjórnarinnar. Einhverskonar aðhaldsákvæði. en þar sem ekki er nokkur möguleiki á að slíkt ákvæði næði fram að ganga þá held ég að við búum við sterkara lýðræði ef þessu ákvæði væri ekki breytt.

Og þá væri það á ábyrgð stjórnarandstöðunnar að misnota það ekki og gjaldfella þar með endanlega hugmyndina sem að baki stendur.

þriðjudagur, desember 11, 2007

Góðan daginn

Þá er maður kominn aftur á heimaslóðir.

Reyndar var heimkoman með glæfralegasta móti. nú er ég maður ekki flughræddur og hef tilturulega gaman af rússibönum og slíku en ég get tæpast mælt með því að lenda í 40 metrum á sekúntu.

Vélin hristist og skalf, og í fyrsta aðfluginu, er við vorum komin í hæð við ljósastaurana sem þekja heiðina þá gaf flugstjórinn allt í einu allt í botn (fór ekki fram hjá mér þar sem ég sat við hlið hreyfilsins) og við skutumst á ný upp í loftið. Hin huggulega flugfreyja, sem reynst hafði mér og kvefinu mínu sérlega góð á leiðinni, varð heldur föl milli freknanna og er við komum inn í annað skiptið og flugvélin nötraði meira en í fyrsta aðfluginu var ég farin að búa mig undir það að dvelja yfir nótt í hinu huggulega bæjarstæði Egilstöðum.

En flugstjórinn (sem reyndist svo vera að mér sýndist 17 ára gamall frakki) ákvað að láta slag standa og bomba okkur niður. Og það var það sem hann gerði. Við skullum niður með þvílíkum látum að vélin hossaðist nokkurum sinnum áður en hún rétti sig af og keyrði í mestu makindum, eins og ekkert væri, inn að flugstöðvarbyggingunni.

Þar sátum við svo föst í klukkutíma áður en okkur var hleypt frá borði, enda of hvasst fyrir rannan að komast að vélinni.

hálftíma seinna lék svo hreinsandi fjallaloftið um kollinn og var sem aldrei hafði hvesst.

Dagurinn í dag svo notaður til þess að ná áttum, heilsa upp á vini og kunningja og njóta þess að vera, eftir langt hlé, kominn aftur heim.

Góðar stundir

Þorleifur
Ísland

laugardagur, desember 08, 2007

Góða kvöldið

Ég hef verið mikið í leikhús undanfarið, enda á leið heim og vildi byrgja mig upp af Þýskunni áður en haldið er á heimahagana. Á leikhússíðunni er að finna leikdóma um það sem fyrir augu bar.

Sjá hér

-------------

Á torginu við heimili mitt í Berlín (Rosenthaler platz) standa nú yfir massív mótmæli. Það eru líklega þúsundir mótmælanda sem standa andspænis hundruðum lögreglumanna við alvæpni.
Ég fór og spurðist fyrir um þessi mótmæli og var þá réttur miði til útskýringar. Á honum kemur fram að mótmælin eru fyrir, og haldið ykkur nú fast: "fyrir aukinni sjálfsstjórnun afmarkaðra svæða, auknu beinu lýðræði hverfa og svona til þess að vera örugg - gegn valdi og kapítalsima". Svona er vart hægt að taka alvarlega

Ég verð þó að viðurkenna það að ég er pínku rifinn yfir þessu. Ég hef tekið þátt í mótmælum sem brutust út í óeirðir, og slóst í kjölfarið við lögregluna sem beitti óþarfa ofbeldi. Og er ég horfi á löggurnar leita á fólki sem vill taka þátt í mótmælunum og inn á milli eru lögreglumenn sem taka allt upp á videókamerur, þá finnst mér ég horfa upp á myrka daga.

Valdbeiting er skiljanleg til þess að vernda borgarana en mér finnst sem við séum löngu komin yfir grensuna, maður strippar á flugvöllum í nafni hryðjuverka, maður kemst ekki heim til sín án þess að leitað sé á manni vegna þess að það er mótmæli, það er skráð niður í databeisa hvað maður er að kaupa á Amazon, og svo mætti lengi telja. Og allt gert í nafni öryggis. En hvað með rétt borgaranna?

Það er eins og gleymt sé að í vestur Evrópu eru rétt rúmlega 20 ár síðan síðasta einræðisríkið lagðist af, og innan við 20 síðan það síðasta lagði upp laupana í austrinu (nema í Hvít-Rússlandi og kannski nú síðast í Rússlandi). Við lýðræðislega stjórnarhætti er hættan af skorti á borgaralegum réttindum minni en eins og veraldarsagan hefur margoft sýnt þá er oft stutt stórra högga á milli, og skyldi það gerast er búið að koma upp fulkomnasta eftirlitskerfi í mannkynssögunni.

En kannski fer þetta svo bara allt vel og ríkið og fyrirtæki misnota aldrei upplýsingarnar um okkur. Videóin er bara til þess að hjálpa hinnu góða við að halda hinu vonda frá okkur, öllum til heilla.

------------

að allt öðru og óskyldu...

Spiegel í Þýskalandi heldur því fram að Vilhjálmur keisari hafi fjármagnað Oktoberbyltinguna. Hvað er næst, að Hannes hafi hætt hjá FL til þess að gerast fjármálameistari Vinstri Grænna?
Ég mun kaupa Spiegel (sem kemur út á morgun og lesa í flugvélinni á leiðinni heim, skrifa svo um það hér.

-------------

Þorleifur Örn Arnarsson
Berlín

fimmtudagur, desember 06, 2007

Góðan dag

Það hlýtur að vekja furðu manns að heyra málflutning Egils Helgasonar um Silfur Egils og konurnar.

Hann ver þetta stöðugt með því að segja að það sé færri konur í þeim stöðum sem hann sækir í að fá í þáttinn. Auðvitað er það hárrétt en það er í rauninni það sem er að, og með því að viðhalda þeim hlutföllum, og verja þær ákvarðanir með því að segja að þetta sé ekki honum að kenna heldur fáum valmöguleikum er hann að ýta undir status quo, ekki að ögra því.

Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um ábyrgð fjölmiðla.

Ef það er í raun þeirra ekki á þeirra ábyrgð að fara fyrir með fordæmi heldur einvörðugnu að spegla veruleikann, hversu óréttlátur sem hann er, þá hefur Egill vissulega ekkert rangt gert.

En ef það er á hinn bóginn þeirra hlutverk að halda uppi merkjum þeirra sem misrétti eru beittir þá hlýtur Egill hér að teljast sekur.

Þannig spurningin er í raun aðeins sú, hvernig íslenskir fjölmiðlar sjái sig og hlutverk sitt.

------------------------

Vil í jafnréttisumræðunni benda á frábæra grein Katrínar Helgu Hallgrímsdóttur á Deiglunni. Það er gaman að sjá konu sem merkir sig "hægra megin" í pólitík taka þess afstöðu. sjá hér

------------------------

Talandi um reglur og kvóta. Í Þýskalandi vill SPD (sósíal demókratar) skoða möguleikann á því að setja lög gegn ofurlaunum forstjóra. Þetta er í takt við umræðuna hér í Þýsklandi. Varaformaður sama flokks kallaði "Hedge Funds" lókost (engisprettufarald) og sagði þá skilja eftir sig sviðna jörð á fjármálamörkuðum. Hvað myndi fyrrum forstjóri stærsta íslenska "Hedge Funds" Íslendinga, Hannes Smárason, nú segja um þetta.

------------------------

Er á leið í djúp-austrið á morgun til þess að heimsækja leikhúsið í Schwerin þar sem ég mun leikstýra með haustinu. Þessi bær er frægastur fyrir þar að í þingi Mecklenburg, sem er með þing sitt í Schwerin, sitja nýnasistar, enda fengu þeir um 7% í síðustu kosningum.

föstudagur, nóvember 30, 2007

Baby Grace

Það birtist frétt á eyjan.is um barnlík sem fannst fljótandi í Flórídaflóa. Barninu hafði verið beitt miklu og ítrekuðu ofbeldi. Barnið gekk undir nafninu Baby Grace.

Þetta er sjokkernadi mál og maður hlýtur að spyrja sig spurningar um manneskjur og samfélög þegar maður les svona.

Hvaðan kemur þessi grimmd, þessi ömurð, hvernig getur fólk tekið aðra manneskju og limlest hana og misþyrmt eins og foreldrar þessa barns?

Svarið við þessari spurningu er að finna í kommentunum á eftir fréttinni. Það er greinilega bara fullt af fólki sem væri til í að stunda svona pyntingar, en bara við fólk sem stundað hefur pyntingar sjálft.

Nokkur dæmi:

SÞA segir: Taka þessa anskota af lífi, helst að grýta þau til bana eins og tíðkast í mið-austurlöndum.

Ásdís segir: það er svona fólk sem að lætur mig skammast mín fyrir að vera partur af þessu mannkyni...að einhver geti gert litlu barni svona lagað skil ég einfaldlega ekki. Megi þeirra óverðskuldandi lík rotna í helvíti!!!

Kari bætir um betur: DJÖFUS ógeð þetta eru svona manneskjur sem ég væri til í drepa

Noname: það á að láta pynta þau til dauða

Lea segir: sko, þegar svona lagað gerist, þá er ekkert annað sanngjarnt að þetta fólk (ef fólk má kalla) “ófreskjur” fái sömu meðferð og þau gerðu litlu stúlkunni. pyntuð til dauða!!! ef að ég mætti ráða!!!

Og toppinum er líklega náð með eftirfarandi hjá Valdimar: réttast væri bara að taka þessa ömurlegu manneskjur af lífi með því að pynta þær,t.d rífa af þeim hárið,sparka endalaust í kynfærið á föðurinum, berja þau bæði með kylfu í fésin og hrinda þeim fram af bergi!!!!!!!

Það er sjokkerandi að sjá þessi viðbrögð. Það er eitt þegar andlega ruglað fólk misþyrmir börnum sínum og annað þegar íslenskir fréttalesendur gerast að múgi sem tilbúinn erð að beita ákvæðum úr gamla testamentinu til þess að svala hefndarlosta sínum á sjúku fólki. Svona viðbrögð myndi ég skilja ef um fjölskyldumeðlim væri að ræða en vera tilbúin/n til mannsmorða og pyntinga eftir að hafa lesið fréttir, það er komið yfir öll mörk.

Og þetta hlýtur að vekja upp spurningar um bloggið sem fréttamiðil. Bera þeir sem skrifa enga ábyrgð? Getur maður lýst því yfir á fréttasíðum að maður vilji pynta fólk til dauða? Eða þýðir þetta að bloggið er ábyrgðarlaust og því skiptir engu máli hvað þar stendur. Það getur vart verið bæði.

Bestu kv.

Þorleifur
Góða kvöldið

Vissir þú að í heiminum eru 400 miljónir kristinna manna sem trúir því að Jesú muni snúa aftur af himnum ofan og leiða okkur í gegnum heimsendi, ef bara við biðjum nógu sterk og lengi.

Vissir þú einnig að yfir 80% ofangreindu fólki trúa því að þeir hafi
talað beint við guð, 50% að þeir hafi séð kraftaverk séð kraftaverk og um 30% að þeir hafi upplifað exorsisma!

En helmingurinn af þeim getur ekki svarað því hver flutti fjallræðuna!

Fólk sem lifir eftir hinu helga orði og veit ekki hver flutti FJALLRÆÐUNA!!!

Er verið að grínast í mér...

Stundum finnst mér í alvöru að maður eigi bara pakka saman tjaldi,
kíki og gott á grillið, setjast upp á fjall og enjoy the show!

---------------

Þjóðverjar eru skrítinn þjóðflokkur. Þeim finnst fátt skemmtilegra en að ala fólk upp úti á götu. Þeim mun minna sem það þekkir viðkomandi (Best ef þau hafa aldrei sést áður) þeim mun skemmtilegra.

Þetta snýst um að lagfæra hluti í fari þeirra sem á vegi þeirra verður. Benda fólki á umferðarreglurnar, benda því á að blístra ekki á almannafæri, að standa rétt í röð, að lækka í I-pod, að leggja hjólinu á réttum stað.

Og guð hjálpi þeim sem biður fólk í þjónustustörfum að veita þjónustu. Augntillitið sem skotið er að manni er engu líkt. Sérstaklega ef maður hefur stigið utan við reglurnar að einhverju leyti.

Þegar maður lendir í þeirri sérstöku aðstæðu þá gerist algerlega ótrúlegur hlutur. Þjóðverjinn mun hiklaust byrja að segja þér að þetta sé þér að kenna. Og sama hvað tautar og raular, þá er þetta þér að kenna. Hann fer svo að útskýra fyrir þér hvernig þetta er þér að kenna og hvernig þú hefðir ekki lent í þessu ef þú hefðir bara gert það sem þú áttir að gera þegar þú áttir að gera það.

En ótrúlegt nokk þá hefu hann nú þegar hafist handa við að leiðrétt viðkomandi hlut. Þannig það er engin fylgni milli þess sem munnurinn er að hjala og þess sem hendurnar eru að framkvæma.

Skrýtið að framandgerving (verfremdung) hafi verið fundin upp í Þýskalandi...!!!

-------------

Frumsýning að baki, gekk ferlega vel. Fólk almennt ánægt, sumir mjög, sumir tilturulega, sumir á því að þetta sé vonlaust verk (sjá www.mittleikhus.blogspot.com). Ég sjálfur er ferlega ánægður og finnst sem ég hafi lært alveg gríðarinnar býsn á því að takast á við svo erfiðan texta sem Lars Noren býður upp á.

Næstu vikur nota ég svo til þess að vinna úr þessu, draga hvert atriði fram og reyna að skoða í gagnrýnu ljósi því að þegar uppi stendur þá hlýtur hver að vera sinn besti krítíker.

------------

Var kallaður inn í skólann morguninn eftir frumsýningu til þess að presentera HAMLET fyrir skólastjóranum, dramatúrg skólans og dósentinum. Getið rétt ímyndað ykkur ferskjuna á andlitinu á mér!

Góða nótt

Þorleifur
Berlín

mánudagur, nóvember 26, 2007

Góða kvöldið

Það snjóar og rignir til skiptis í Berlín þessa dagana. Og maður hugsar heim.

Berlín er grá borg, eins og flestar stórborgir en gráminn margfaldast í þungbúnum skýjunum, í skortinum á útsýni og þá sérstaklega þegar skýjin láta undan og demba niður vætunni.

En þegar svo bregður við og kólnar og skýjin kasta niður snjóflyksunum, þá brosir Íslendingahjartað. Það verður einhvernveginn ekki jafn langt heim.

----------

Það er frumsýning á morgun (þriðjudag) og ég er að verða spenntur. Auðvitað er þetta öðruvísi ferli en maður hefur átt að venjast, að vera með forfrumsýningu fyrir 3 vikum og æfa svo sýninguna upp fyrir frumsýninguna, en þetta er í raun ferlega gott ferli. Bæði fyrir leikendur og aðstandendur.

Verkið sest einhvernvegin betur. Leikaranir fá tíma til þess að melta og leyfa þessu að setjast og aðstandendurnir slíkt hið sama og geta, ef út í það er farið, lagað til, hreyft, bætt eða breytt eða ef ekki annað, þá bara setið aftur og notið þess að koma að verkinu að nýju.

Við vorum með rennsli í dag og það var alveg stórskemmtilegt að horfa á, fannst að vissu leyti að ég væri að horfa á verk eftir einhvern annan.

----------

Svo er fólkið farið að týnast inn til borgarinnar til þess að sjá. þórhildur fylgdi Sólveigu út og Arnar fylgir í kjölfarið. Nokkrir vinir mínir eiga svo pantað flug á mán og þriðjudag þannig það verður fjöl- og góðmennt í borginni.

Og vissulega er planað gott og mikið partý á frumsýningarkvöldið.

ég er búin að fá fastakaffihúsið mitt, St Oberholz, til þess að vera opið lengur fyrir okkur og þar vonast ég til þess að það verði djammað fram á nótt.

-----------

Svo er tvennt sem mig langar til þess að benda á:

Svona eiga menn að bregðast við vondum fréttum

Bestu kv,

Þorleifur

föstudagur, nóvember 23, 2007

Sæl og bless

Þá er þetta að komast í gagnið.

Nú er komið efni inn á leikhússíðuna . Þar er um að ræða vangaveltur um leikhúsið og tímann ö með hliðsjón af verkinu Næturvaktin eftir Lars Noren sem ég er að frumsýna á þriðjudag

og hinsvegar er komið efni inn á skáldskaparsíðuna og er þar að finna smásöguna "DAUÐANS TRÚÐUR", saga sem ég skrifaði fyrir nokkru.

Njótið vel

Þorleifur
Góða kvöldið

Þetta er búin að vera ein heljarinnar reið, að koma upp þessum síðum sem ég var að tala um. (sjá að neðan og til hliðar í linkasafninu) Sérstaklega þar sem ég sit á internetkaffihúsi í Berlín (St Oberholz) þar sem sambandið er stöpult og oftar en ekki var ég búinn að þjösna mér í gegnum alls konar uppsetningamöguleika, fontsetningu, litaval og linkasöfnun aðeins til þess að horfa upp á "no connection" birtast á skjánum.

Ef ég væri ekki með nýju tölvuna mína þá voru móment 12 og 43 mómentin þar sem ég hefði tekið svona office kast og hent tölvunni, barið einhven viðstaddan sakleysingja, já eða bara farið að gráta.

En þökk sé Apple þá neyddist ég til þess að halda aftur af mér og vonast nú til þess að geta hætt hönnunartilraununum og farið að skrifa eitthvað að ráði.

Viðbót hálftíma seinna - við nánar eftirgrennslan varð mér ljóst að hönnunarhæfileikar mínir á vefsviðinu eru vægasta sagt ömurlegir og má því fastlega búast við því að að breytingar verði gerar á layouti síðnanna innan skamms, það er, um leið og ég finn einhvern sem hefur minnsta auga fyrir útliti heimasíðna.

Fyrsta greinin verður á Mitt Leikhús og fjallar um leikhúsið og tíma, hvernig tími verður afstæður þegar maður stendur frammi fyrir textum sem bera tíma skrifanna sterkt í sér.

Þetta er tengt uppsetningunni á "Die Nachtwache" eftir Lars Noren sem verður frumsýnt nú á þriðjudaginn.

Vonandi mun ég svo ná að hrita niður texta um samskipti manneskja í hinum einstaklingsvædda samtíma og mun sá pistill birtast á Mitt Samfelag síðunni.

Loks ætla ég að henda inn smásögu sem ég samdi um árið á mín Fantasía til þess að koma því í gagnið.

Annars eru Solveig systir, Thorhildur mamma og Jósi mágur að koma á eftir þannig ég býst við því að kvöldið verði samfelldar samræður um tímann, rúmið, leiklistina og annað sem á daga okkar hefur drifið.

carpe dium

Þorleifur

fimmtudagur, nóvember 22, 2007

I'M BACK
Góða kvöldið

Ég hef ákveðið að snúa aftur í bloggheima.

Eins og sjá má þá er liðið fast að ár síðan ég setti síðast niður orð á internetið en undanfarna daga hefur það hvarlað að mér að nýta mér þennan miðil að nýju.

Það er aðallega þrennt sem hafði áhrif á mig þegar ég tók þessa ákvörðun.

Í fyrsta stað það að ég kom mér fyrir á facebook (og forðaði mér þar með frá því að vera sá síðasti í heiminum til að gera slíkt) og kynntist þar með undraheimum social networking.

Í annan stað að bloggið er fín leið til þess að halda sér í æfingu við að skrifa á hverjum degi.

Og í þriðja lagi að ég las yfir gamla bloggið mitt og þetta er í raun eins og dagbókin sem ég hef aldrei haldið.

En ég ætla að vera með nýtt fyrirkomulag í þetta skipti.

Ég stefni á það að vera með þrjá external linka.

1. Síðu þar sem ég ætla að koma fyrir frumsömdum skrifum eftir eftir undirritaðann
2. Síðu þar sem ég ætla að vera með umfjöllun um leikhús og leikhúsmál
3. Greinar og umfjöllun um málefni tengd efnahagsmálum, samfélagsþróunarmálum og öðru á hinum pólitíska umfjöllunarvettvangi.

Svo verð ég með aukasíðu þar sem ég verð með innslög á þýsku og ensku en ég tel það ekki með þar sem það verður að mestu endurvinnsla á efni sem ég verð með á hinum síðunum, einvörðungu hand aþeim sem ekki kunna ísl.

Hér á aðalsíðunni verður svo bara að koma í ljós hvað ég hrita niður.

Bestu kv.

Þorleifur í Berlín

miðvikudagur, janúar 10, 2007

Góðan daginn

Þessi mynd er myndlíking.

Myndlíkingin á við hvar maður er staddur þessa dagana.

Uppsetning á leikriti er stórkostlegur prósess, sérstaklega þegar vel gengur. Eins og núna...

Og maður sest í klefann, fyrir framan mann er himininn, fyrir neðan hafið og jörðin og maður veltir fyrir sér hvernig manni takist í þetta skipti að tengja þetta tvennt saman.

Og þegar það tekst þá er von á stórvirkjum, en oftar en ekki tekst það ekki en tilraun til þess verður engu að síður að eiga sér stað.

Ég hef aldrei verið eins bjartsýnn á uppfærslu eins og ég er núna. Það er einhver andi í hópnum, í okkur, í textanum, í persónunum sem ég hef ekki séð áður í verki sem ég hef komið nálægt.

En nú fer róðurinn að þyngjast og þá er að halda sér við efni, hafa sig nógu hreinan í huga og sál til þess að geta tekist á við það sem uppá kemur, geta valið og hafnað en umfram allt að halda sér við innsæið.

List er nefnilega ekki formúla. Það er ekkert kerfi sem framkallar list. List á heima á mörkum, list er tilfinning, list er innsæi. Hitt eru hugvísindi. Og List getur því aðeins átt sér stað á mörkum rökhugsunar og tilfinningar, raunveruleika og óraunveruleika. Og til þess að geta starfað þar verður maður að treysta.

Góða nótt

Þorleifur

mánudagur, janúar 01, 2007

Góðan daginn og gleðilegt ár

Ég vaknaði við það í morgun að sólin glampaði á glugganum og kallaði mig fram úr rekkju. Þegar ég skreið fram úr og að glugganum sá ég hana speglast í nauthólsvíkinni, létt þoka lá yfir Reykjanesinu dulúð fjarlægðarinnar mögnuð upp með þessu samspili sólar og skugga.

Ég ákvað að vappa mér frammúr og í gönguferð, byrja nýtt á með sjálfum mér einum og ganga til skerptar hugsunar.

Og þetta gekk eins og í sögu. Ég var kominn í 66° úlpuna og með vettlingana, en fannst einhvernveginn ekki nóg um og tók því upp á að heilsa hverjum þeim sem ég myndi rekast á á göngu minni frá Ægissíðu og upp í Öskjuhlíð. Þetta reyndust vera vel á annað þúsund manns þannig lítið varð úr einsemdinni, en þeim mun skemmtilegra var að fylgjast með viðbrögðum fólksins við þessari augljósu truflun.

Ísland er að verða eins og New York. Stresshæli þar sem ekki má yrða á nokkurn mann án þess að sá hinn sami kvekkist við, eða hlaupi í burtu.

Vandamálið við það hér, ólíkt New York, þá er þetta svo rosalega ungt samfélag hér að í raun er það sem mest var heillandi við íslenska þjóð gæti horfið í þessum tíðaranda stress og brjálæðis. Það sem heillaði mig (þó svo maður hafi oft hlegið að þessu í gegnum tíðina) er þessi smáeyjarháttur. Þar sem allir þekkja alla, allir heila öllum, fólk stoppar og hjálpar þeim sem fests hefur í snjónum á Fiatinum sínum. Einkenni lítils og náins samfélags. Þorpsfílingur...

Ég er alinn þannig upp að sjálfsagt sé að heilsa fólki á förnum vegi og því ætla ég að halda til streitu.

ví er oft klínt upp á mig að ég sé svo pólitískur og uppreisnargjarn og þar fram eftir götunum. Og það getur vel verið að svo sé þegar á heildina er litið en það er þannig með þann stimpil eins og flesta aðra, að hann lýsir mér ekki nema að hluta.

Annar hluti af mér, sá sem nennir ekki alltaf að vera að analísa og skilgreina, er hrifgjarn og pínkulítið íhaldssamur. og það er þannig sem ég vil vera.

Það er ekki hægt að flokka fólk niður þó svo að markaðsöflin langi óskaplega að geta sett okkur í hinn eða þennan markhópin.

Lífið og manneskjan er og flókin til þess að svo geti verið.

Bestu kv.

Þorleifur