laugardagur, janúar 01, 2005

Uppssss.....

Og gleðilegt ár!

Þorleifur
Góða kvöldið

Stundum kemur yfir mann yfirgnæfandi löngun til að skrifa, jafnvel ekkert sérstakt. Bara að setjast niður fyrir framan tölvuna og láta fingurna leika um borðið. Leyfa gleði og vonbrigðum hjartans að flæða út og tengjast umheiminum þannig einhvernveginn.

Það er næstum depimerandi að koma hingað heim í amatörismann. Leikhúsið er amatör, pólitíkin er amatör, meðalmennskan er fáð og dýrkuð. Menningin er mestmegnis fengin úr eða leitar áhrifa til frænda vorra í Bandaríkjunum. Pólitíkin eru vinir og vandamenn ráða vini og vandamenn til þess að berja á þeim sem ekki eru þóknanlegir.

Allir sem ég hef hitt bölva íslensku leikhúsi. Það þykir öllum það meira og minna ómerkilegt og einskinýtt. Það er hver sýningin á fætur annari sem fer á svið án þess að hafa neitt að segja, án þess að vilja hafa neitt að segja. Vilja bara vera með og fá launatékkann. Það eru svo fáir sem taka af skarið og segja við sjálfan sig og aðra: Það eru afar lélegir hlutir að gerast hérna og því verður að breyta. Þjóðarstofnun leiklistarinnar þjáist í listrænum fílabeinsturni sem sér æ meira á og kemur æ minna úr. Reyndar verða þar nú leikhússtjóraskipti og vonandi kemur það til með að hleypa nýju lífi í, en viðkomandi er búin að lýsa því yfir að hún sé engin byltingamanneskja. En það er kannski akkúrat það sem þarf, við þurfum byltingamanneskju sem er tilbúin að taka í hnakkadrambið á listamönnunum og krefja það að standa undir nafni sem listamenn. Það þarf mannskju sem keyrir áfram af hörku og viljafestu, með sterka framtíðasýn og skýra listræna stefnu. ÉG vona að nýr þjóðleikhússtjóri finni í sér byltingarandann og elti hann hvert svo sem hann leiðir hana!

Staðreyndin er sú að flestir sem ég hitti fannst sýning stúdentaleikhússins "þú veist hvernig þetta er" besta sýning undanfarins árs. Og það er alvarlegt. Með því er ég ekki að draga úr stúdentaleikhúsinu sem ég hef bæði unnið með og var stoltur af þegar ég sá sýninguna, heldur hitt að þegar það eru áhugamenn sem standa fram úr atvinnumönnunum hvað varðar listræna sýn og meðferð þá verða atvinnumennirnir að fara að spyrja sig spurninga. Og ef þetta svo heldur áfram þá getur fólk farið að spyrja sig hvers vegna við þurfum á dýrum listastofnunum að halda þegar áhugamennirnir geti alveg jafn vel ef ekki betur.

OG kannski þurfum við að fara í gegnum það, kannski þurfa leikararnir að fara að vinna á verðbréfastofum og leikskólum til þess að skilja hvað er í húfi. Kannski leikhúsið þurfi að fara í gegnum fátækt og vosbúð til þess að finna aftur sjálft sig og skilja að nýju hvað það sé að gera og til hvers það sé. Að þetta sé meira heldur en bara atvinnubótavinna, eða sjálfsdýrkandi sjónarspil. Heldur þetta sé hluti af menningararfi og hluti af umræðu samfélagsins. að leikhúsið geti haft mótandi áhrif á hvaða vindar blási í háloftum hugmyndafræðinnar, sprengi kýli, öskri, rífist, kynni okkur fyrir framandi menningarheimum, komi hinni ósklijanlegu heimspeki aftur til fólksins.

Leikhús eins og það er ástundað her heima um þessar mundir hefur engan tilgang annan en að vera allt of dýr afþreyjing fyrir þá fáu sem nenna. Og þegar leikhúsið er komið þangað þá er það búið að missa tilverurétt sinn. Það er sorglegt en staðreynd engu að síður.

Það er stórt mál að fara að setja niður fyrir sig hvað það sé sem vanti. Kannski er leikhúsið bara að elta tíðarandann. Vera spegill samfélagsins í stað þess að halda speglinum að því. Þessir yfirborðs dýrkandi tímar hugmyndahönnunar og stjórnaðrar samfélagsumræðu stórna leikhúsinu rétt eins og flestum örðum sviðum mannlífsins. Það er að elta skottið á sér í sjálfsdýrkandi og gagnrýnislausri áráttu blinds manns sem heimtar að vísa öðrum veginn. Það gerir ekkert annað en að næra sjálft sig og er því dæmt til að deyja á fórnaraltari egósins og sjálfsblekkingarinnar.

List sem ekki vísar út fyrir sig, sem hefur ekkert að segja og sér ekkert nema það sem það gerir sjálft hún er á villigötum og þarf kannski að týna sjálfri sér áður en hún getur endurnýjað sig.

En ég er ekki búin að gefast upp. Og ég vona svo sannarlega að ég sé ekki einn í liði. Það er einu sinni þannig að þegar umræðan er komin í gang og fleiri taka þátt og fara að spurja áleitnra spurninga þá geti eitthvað farið að gerast. Þá opni nokkrir augun og taki höndum saman.

Það er nefnilega allt í lagi að vera gagnrýnin, því að með henni og aðeins henni er hægt að stefna að nýju fram veginn. Ef maður telur allt sem maður gerir og það sem allir aðrir eru að gera sé frábært og ekkert megi gagnrýna og spurja þá líður ekki á löngu þar til nályktin leggur alla að velli. List, rétt eins og vatn í glasi, þránar sé aldrei skipt um og nýjir straumar látnir renna í gegn.

Og því skal berjast með gagnrýna hugsun og hugsjón á lofti gegn úldnun leikhússins.