miðvikudagur, nóvember 26, 2008

Kaffihús í Berlín

Á næsta borði situr stúlka og mænir á varir stráksins sem situr á móti. Í klukkutíma hafa þau setið svona, það er óvissa, er hann að segja henni upp eða þorir hann ekki að kissa hana.

Stundum er svo stutt á milli löngunar og aðskilnaðar, milli komu og brottfarar.

Og hann hallar sér upp að henni, rétt eins og hann vilji hvísla að henni, eða kissa á henni hálsinn, en hann gerir hvorugt. Hún horfir sorgmædd yfir öxlina á honum.

------------

Ég horfði á ráðherrana á borgarafundinum. Þeir skildu loksins.

------------

Stúlkan er falleg. Djúpbrún augu, sterk kinnbein, dökk spænskættað hár, síður toppur fellur við fagurlega sköpuð eyrun. Suðræn fegurð máluð vonbrigðum, eða eftirvæntingu.

Þetta er skrítinn dans sem þarna fer fram. Þau stöðvast stuttu frá hvoru öðru , hún horfir á varir hans, langar að kissa hann. Engin tekur af skarið.

------------

Ráðherrana langar bara til þess að segja sorry. Geta það ekki - nema einn.

----------

Ef þau eru að hætta saman þá er það tregabundin skilnaður. Jafnvel mistök.

Hún brosir við, en það er skilningur í brosinu, svona sem maður brosir þegar maður veit að lógíkin mun hafa tilfinningarnar undir.

Kannski er hann að fara til Afganistan.

Hann stríkur henni ljúflega um vangann.

Aftur þetta skrítna blik í augunum...

Ég er eins og pervert hvar ég sit og fylgist með þessu, en hvernig getur maður ekki fylgst með. Lífið á sér stað beint fyrir framan nefið...

-----------

Ég horfði á fundinn á netinu. Fékk fjarlægð. Jafnvel skilning.

Ótrúlegt lýðræði. Vonin kviknaði um betri tíma.

En ekkert virðist sefa reiðina.

-----------

Kannski er hún ólétt... eða hann?

Kannski eru þau 16 ára...

Ég hef ekki séð framan í hann. En hann er í hetupeysu, ekki flottir týpu heldur svona Berlínarsveitttýpu. mér líkar umsvifalaust ekki við hann.

Þau fjarlægjast en haldast samt í hendur undir borði.

Hún er greinilega kaþólikki.

----------

Ísland og kreppan er fjarlæg.

Þegar fólkið á Islandi kom af fundinum þá fél snjórinn fyrir utan gluggan. Hér er öllum sama um borgarafund, öllum nema mér, göturnar urðu bara hvítar.

En net áhorf veitti mér nýtt sjónarhorn

-----------

Hún starir í augun á honum eins og hverjum dreng dreymir um. Rómantík. Ást.

Er það ekki það sem allir vilja?

Er það ekki það sem gleymdist í öllum kapítalismanum, að fólk vill ekki peninga, það vill bara vera elskað og virt. Og það kaupa peningar ekki.

Þessi drengur hefur ekkert borgað fyrir þetta augntillit sem hann fær þrátt fyrir hettupeysuna.

En þó svo hann sé með hendina um hálsinn á henni þá er hún sorgmædd. Horfir niður í borðið. Elskar hann. Getur ekki horft á hann. Getur ekki litið framan í heiminn.

------------

Hvernig ætli það sé að vera ráðherra í dag? Vilja en geta ekki talað við þjóðina...

Engin skilur þig. Nema fjölskyldan sem kysi þig hvort sem er

------------

Hún brosir þegar hún horfir á hann, er það feik?

------------

Það er talað af yfirlæti. Það virkaði alltaf hingað til. Ekki lengur. Tími íróníunnar er að baki, nú vill fólk bara raunveruleika og sannleika.

------------

Og þau faðmast. Það er eitthvað svo endanlegt við þetta. Það er svo mikil kveðja. Hún kreystir á honum öxlina.

-----------

Ráðherrarnir voru niðurlútir. Það styttist í kvðjustund

-----------

Þau sátu og horfðust í augu í klukkutíma. Nú faðmast þau eins og það sé í síðasta skipti. Hún brosir við honum en þegar hann fer til þess að narta í hálsinn á honum þá hverfir glittið úr brosinu.

Ég fæ aldrei að vita af hverju en ég veit að þetta er í síðasta skipti sem þau hittast. Það segir mér augu hennar sem sýna hvað hún vill en hún gerir það ekki. Sýnir mér hvernig hún kreistir aftur augnlokin þegar þau faðmast. Sýnir mér er hún leyfir honum að strjúka sér um kinn með handarbakinu en víkur sér svo fimlega undan.

-----------

Hvernig ætli það sé að missa trúnað heillar þjóðar?

Hvernig á maður að segja bless?

-----------

Hann lítur við og ég sé framan í hann. Hann reynir að bera sig vel en hann getur ekki falið að hann langar mest til þess að gráta.

Og þau faðmast.

Þorleifur

þriðjudagur, nóvember 25, 2008

Ég ákvað að sitja við her í Berlín og horfa á borgarafundinn á rúv.

Ég get sagt að ég var stoltur af því sem ég sá. 

Mikið hefur maður nú kvartað yfir skort á lýðræði undanfarið og gegnsæji og þó svo mér hafi ekki líkað allt það sem ég heyrði á þessum fundi þá hlýtur það að vera einsdæmi að ráðamenn þjóðar mæti og sitji fund með 1500 borgurum. 

Þessir borgarar voru ekki valdir af stjórnmálamönnunum, stjórnmálamennirnir höfðu ekki fundarstjórn og sátu þarna undir beinum spurningum og jafnvel móðgunum.

Mér er það til efs að stjórnmálamenn annars staðar hefðu látið annað eins yfir sig ganga.

Ekki skal ég svo segja hvort þetta sé til marks um ótta þeirra og ráðaleysi eða lýðræðisást, en þetta fannst mér mögnuð sjón. Og það er kannski að þetta breyti farveg mótmælanna. Það er mér þó til efs.

Ég held að undiraldan sé orðin það sterk að ekkert fái stöðvað ölduna sem nú stefnir á land. Maður bara vonar að hún brjótist ekki út í ofbeldi. Eða að menn og konur ríkisstjórnarinnar sjái að sér áður en að því kemur.

Bestu kv.

Þorleifur Berlín


sunnudagur, nóvember 23, 2008

Frá Berlín

Ég sá Baader Meinhof Komplex í bíó í dag. Myndin rekur sögu RAF hreyfingarinnar, hryðjuverkahreyfingar í Vestur Þýskalandi sem spratt uppúr róstri 7 áratugarins.

Það var svo óhuggulegt að koma heim og horfa á fréttamyndir af árásinni á lögreglustöðina.

RAF spratt upp úr stúdentahreyfingunni eftir að forrystumenn þeirra voru beittir ofbeldi, eftir að ekki var hlustað á þau og þessu unga fólki fannst eins og þau hefðu enga aðra leið en að beita ofbeldi.

Og það sem meira er, það bjóst engin við þessu. Bjóst engin við því að upplýst vestræn ungmenni myndu grípa til ofbeldis, en það gerðist nú samt.

Ef stjórnvöld heima bregðast ekki við kröfum fólksins á götunum þá leitar þessi reiði sér annara leiða til þess að fá útrás.

Og þá er hætta á ferð.

Það er ekki bara hægt að tala um rannsóknir og ekki megi rugga bátnum.

Það er of mikil undiralda til þess.

Fólk mun ekki sætta sig við að stjórnmálamenn hvítþvoi sjálfan sig í gölluðum könnunum unnum undir þeirra nefi. Hver sakfellir sjálfan sig og vini sína í slíku mati?

Nei, tími tvískinnungsháttar er liðinn og nú verða stjórnmálamennirnir okkar að grípa til aðgerða ef ekki á illa að fara.

Annars gæti Ísland fengið að upplifa hluti sem við höfum hingað til aðeins séð í fréttum utan úr heimi.

Og gott er að hafa það í huga að fólk er ekki byrjað að finna kreppuna á eigin skinni, þetta er ennþá að mestu leyti hugmyndarfræðileg mótmæli. Hvað gerist þegar þau fara að snúast um lífsviðurværi og sjálfsvirðingu?

Þorleifur