föstudagur, júlí 04, 2003

Góða kvöldið

Það gengur mikið á þessa dagana. Nú eru 11 dagar í það að fyrsta uppfærslan komi fyrir almennings sjónir og það er ekki laust við að smá fiðringur geri vart við sig í magaræksninu (sem er nú orðinn margu illu vanur). Eftir að hafa fengið manneskju til að kíkja yfir sýninguna í gær þá var ég þungt hugsi. Ég fór niður í leikhús eftir miðnætti til þess að vinna við að reyna að laga ljósin og upphugsa hvernig ég gæti unnið með sviðsmyndina þannig að sem flest af utanaðkomandi hlutum myndi hverfa út. Þetta reyndist þrautin þyngir enda vinnudagurinn farinn að nálgast 18 stundir og var sá endalausi í röðinni. Ég sat sumsé þarna og starði útí myrkrið, eitthvað að fikta í ljósunum og reyna að gera eitthvað. En sama hvað ég strögglaði, ekkert batnaði og varð bara verra ef eitthvað. Ljósarás 1 inn og ohh, ljósarás bla inn og út og inn og út og argg....... Ég hélt áfram í örvæntingu drukknandi manns á sama tíma og ég fann hvernig yfir mig þyrmdi áhyggjum og vonleysi. Þetta væri bara allt ömurlegt og ekki væri möguleiki að ég gæti sýnt þetta nokkrum manni. Þetta var eins og að horfa í spegil og reyna að átta sig á því hvað gæti betur farið í eigin andliti. SViðsmyndin sat þarna og mér fannst sem að hún væri að hæðast að mér. Þú hefðir betur fengiðð einhvern til að gera þetta, sagði hún. Sérðu hvað lýsingin er ömurleg og þú ert bara að gera illt verra, hahaha... Ég sat og sat og alltaf magnaðist vonleysið þar til ég gafst upp, gafst upp og bað til forsjáarinnar að taka völdin og gera eitthvað í þessu.

Ég vaknaði svo í morgun klukkutíma of seint og það var beðið eftir mér niðrí leikhúsi. Forsjáin ekki til í tuskið. Við fórum að vinna allt of seint og allt útlit fyrir að hyldýpi undangenginnar nætur ætti sér stoð annars staðar en í hugarfylgsnum mínum. Þetta brokkaði svona einhvernveginn, ekkert of vel en samt ekki nógu illa til þess að ég næði í hauspokann, en allt í einu fór allt í gang og það gerðist. Síminn hringdi, ljósamaður til í tuskið. Matur hjá mömmu og pabba (lærissneiðar, namm, namm), tvö atvinnutilboð innum lúguna í símeyranu og svo ljósavinna í kjölfarið (sem við vorum að klára rétt áðan). Nú er sýningin aftur orðin æði og ég að hlakka til. Og svo efasta maður???

Það eina sem ég hef áhyggjur af núna er það að ég elska konuna mína en það reynist þrautin þyngri að finna tíma til að sýna það (enda er ástin víst ekki orð heldur athafnir). Þessvegna verður ekkert blogg um helgina. Ég ætla nebbnilega að taka mig saman í andlitinu og taka einn dag í frí og fara með hana að skoða jökla og sumarhúsast og spila scrabl og bara gera ekki neitt nema að elska og segja lélega brandara (sem enginn myndi hlægja að nema hún) og þetta sem gerir hana svona sérstaka og mig svona ástfanginn.

Góða nótt og megi forsjónin ykkar vera með ykkur.

Þorleifur
zorleif@hotmail.com

þriðjudagur, júlí 01, 2003

Góðan daginn.

Kraftaverkin gerast enn. Ég er kominn á lappir og tilbúinn í daginn og klukkan er ekki orðin 10? Hvað er þetta, er maður að missa glóruna. Hvað með allar yfirlýsingarnar um að þegar maður yrði eldri myndi maður aldrei fara snemma að sofa og sko aldrei vakna fyrir hádegi. Svo sit ég hér og er orðinn það vaknaður og ferskur að ég er kominn á ljósvakann! Þetta er skrítið líf svo ekki sé meira sagt. Og þetta á ekki aðeins við um þetta heldur virðist vera að flest sem ég tók mér fyrir og gerði að prinsippum þegar ég var aðeins yngri sé með tímanna rás að gufa upp og vera að engu. En ég barðist svo heitt fyrir þeim á sínum sínum tíma, ég dó næstum fyrir þau.

Annars fer að líða að frumsýningu á fyrsta verkefni sumarsins hjá hinu lifandi leikhúsi. Verkið - Aðfarir að lífi hennar - er að taka á sig endanlega mynd og verður skemmtileg samsetning á hinni harmrænu uppbyggingu og afbeygingu leikhússins. Svona leikhúslistarlegt collage, enda langar mig að nota þetta sumar til þess að gera tilraunir og þróa mig sem listamaður á sama tíma og ég gef vonandi eitthvað af mér til fólksins sem ég er að vinna með. Sumsé 15. Júlí er frumsýnig 15.JÚLÍ!!!

Annars er laus staða óborgaðs aðstoðarmanns í hinu lifandi leikhúsi en mér sýnist að þess verði ekki lengi að bíða að ég fái slíkann. Enda er aðsóknin ógurleg.

Svo laggjum við okkur fram um að gera þetta að góðum degi og ég bið að heilsa

Þorleifur
Góða kvöldið

Alveg er makalaust hvað gjafirnar geta verið stórar og maður blindur á þær. Ég get með sanni sagt að sjaldan eða aldrei hafi ég verið jafn sáttur við líf mitt og tilveru. Ekki það að stóratburðir hafi ekki dunið yfir, það hafa þeir svo sannarlega gert, en ég hef haft tækifæri til þess að læra af þeim, nýta mér þá og ganga í gegnum þá sem breyttur maður.

Fráfall systur minnar var vissulega mikið áfall, og kannski enn erfiðara var að sjá sorgina í augum þeirra sem eftir stóðu. Oft á tíðum stendur maður aðeins hjálpvana á hliðarlínunni, langar til þess að hlaupa til og hjálpa en veit að afraksturinn yrði enginn. Og í því felst einnig lexia. Maður getur ekki alltaf hjálpað beint en maður getur reynt að vera til staðar og tilbúinn ef á mann er kallað. En svo koma aðrir tímar þar sem maður getur skorist í leikinn og þá verður maður að hafa áræði og hjartahlýju til þess að geta gert það. Ekki í eigingjörnum tilgangi heldur hitt að maður er þar algerlega fyrir hinn aðilann.

Það er oft þannig að þegar æfiu er gerð upp þá er horft á stóru atburðina en mín reynsla sínir að þegar uppi stendur þá eru það hinir hlutirnir, þessir smáu, sem skipta máli. Bros á réttum tíma, hendi sem læðist á öxlina og klappar eða tekur undir og hjálpar að bera byrðina. Smám saman opnast augu manns fyrir því að maður breytir ekki heiminum öllum í einu, heldur með því hvernig maður hegðar sér í sínu nánasta umhverfi á daglegum basis. Og því er ég oft blindur, því ég ætla að breyta öllu en gleymi fólkinu sem stendur fast upp við líkama minn og sál og ég sé ekki því þau standa of nálægt.

En fyrir þessu hafa augu mín opnast og fyrir það er ég þakklátur.

Góða nótt

sunnudagur, júní 29, 2003

Góða kvöldið

Stutt verður það og laggott. Mér var bara hugsað til þess í dag, mitt í öllum hamaganginum, hvað mannkynið er fallegt. Það gerir oftar en ekki sitt besta til þess að fela það, reyna að villa manni sín eða kjósa í mikilvæg slæm dæmi um slíkt en þegar maður sest niður, hendir til hliðar einstökum atburðum og gjörðum og leggur allt á vogarskálarnar þá blasir sannleikurinn við manni. Þetta er bara asskoti fínn staður fullur af asskoti fínu fólki. Og sitji maður svekktur við, eins og oft gerist þá er það ekki úr vegi að þetta rufjist upp fyrir manni.

en svo getur maður líka bara snúið við baki, valið svörtu sauðina og haldið áfram að marsera.

Góða nótt

Þorleifur