þriðjudagur, júlí 01, 2003

Góða kvöldið

Alveg er makalaust hvað gjafirnar geta verið stórar og maður blindur á þær. Ég get með sanni sagt að sjaldan eða aldrei hafi ég verið jafn sáttur við líf mitt og tilveru. Ekki það að stóratburðir hafi ekki dunið yfir, það hafa þeir svo sannarlega gert, en ég hef haft tækifæri til þess að læra af þeim, nýta mér þá og ganga í gegnum þá sem breyttur maður.

Fráfall systur minnar var vissulega mikið áfall, og kannski enn erfiðara var að sjá sorgina í augum þeirra sem eftir stóðu. Oft á tíðum stendur maður aðeins hjálpvana á hliðarlínunni, langar til þess að hlaupa til og hjálpa en veit að afraksturinn yrði enginn. Og í því felst einnig lexia. Maður getur ekki alltaf hjálpað beint en maður getur reynt að vera til staðar og tilbúinn ef á mann er kallað. En svo koma aðrir tímar þar sem maður getur skorist í leikinn og þá verður maður að hafa áræði og hjartahlýju til þess að geta gert það. Ekki í eigingjörnum tilgangi heldur hitt að maður er þar algerlega fyrir hinn aðilann.

Það er oft þannig að þegar æfiu er gerð upp þá er horft á stóru atburðina en mín reynsla sínir að þegar uppi stendur þá eru það hinir hlutirnir, þessir smáu, sem skipta máli. Bros á réttum tíma, hendi sem læðist á öxlina og klappar eða tekur undir og hjálpar að bera byrðina. Smám saman opnast augu manns fyrir því að maður breytir ekki heiminum öllum í einu, heldur með því hvernig maður hegðar sér í sínu nánasta umhverfi á daglegum basis. Og því er ég oft blindur, því ég ætla að breyta öllu en gleymi fólkinu sem stendur fast upp við líkama minn og sál og ég sé ekki því þau standa of nálægt.

En fyrir þessu hafa augu mín opnast og fyrir það er ég þakklátur.

Góða nótt

Engin ummæli: