laugardagur, janúar 22, 2005

Góða kvöldið

Var að koma af fundi samfylkingarinnar um alþjóðamál með séráherslu á öryggismál.

Þetta var afar góður fundur (allir 4 tímarnir) og ég er margs fróðari.

Fyrirlesararnir voru 4.

Birna Þórarinsdóttir, framkvæmdastjóri UNIFEM, fjallaði að mestu um nýtt hugtak í alþjóðamálum (og þá sérstaklega kvenna) sem kallast personal security. Hugtakið byggir á því að öryggi borgara skipti jafn miklu og í sumum tilfellum meira máli en öryggi ríkja. ÉG ætla að kynna mér það betur áður en ég fer að tala mikði um það opinberlega.

Magnús Þorkell, lektor í USA og sérfræðingur í mið austurlöndum, talaði um stöðuna í miðausturlöndum og lýsti ástandinu sem hrikalegu. Sérstaklega hjó ég eftir þegar hann minnti á mikilvægi orðræðunnar í þesu sambandi. Að langvinn umræða um Íraka sem hryðjuverkaþjóð og illmenni gerðu það afar erfitt fyrir þá að tala á eigin forsendum. Sýn vestræna samfélagsins á þá væri svo lituð að þeir ættu sér ekki viðureisnar von í orðræðunni. Og þar getum við í netheimum lagt okkar á vogarskálarnar.

Valur Ingimundarson talaði um ósjálfstæði íslenskrar utanríkismálastefnu. Það að við höfum frá inngöngunni í NATO fylgt hugmyndum stórveldisins í vestri eftir blint og hefðum því engin áhrif. Sérstaklega nú þegar ísland býr ekki lengur við hernaðarlegu eða landfræðilegu mikilvægi. Þetta ýtir bara undir vöntunin á skýrri utanríkisáætlun!

Thorvald Stoltenberg er fyrrum utanríkisráðherra Noregs. Hann var sáttasemjari SÞ í júgóslavíu og núverandi höfuð rauða krossins í Noregi. Hann talaði um mikilvægi alþjóðastofnana og að með áframhaldandi þróun í átt sameiningar á alþjóðavettvangi þá væri lagður hornsteinn friðsamlegra samskipta þjóða. Hann var afar hlynntur EU og fannst að Ísland ætti að ganga inn eins fljótt og auðið er.

Þetta var afar gaman og ég mun efalaust leyfa því sem þarna fór í gengum hugann læðast í einu eða öðru formi inn í AMerican Diplomacy. Málin sem þarna voru rædd eru akkúrat malin sem ég er að tala um í verkinu og því var gaman að sjá að það sem maður er að gera í listgrein sinni eigi sér samhljóm í pólitík samtímans.

Annars ganga æfingar afar vel og ég er ekki frá því að þetta sé að taka á sig leiklistarlega mynd. Þetta verður áfram fyndið, hart og skerandi og ég hlakka til að sjá hvert skútan vill fara og hvaða áhrif maður geti haft á stefnuna. Finna jafnvægi milli þess að stýra og vindanna sem um fleygið þjóta.

Góðar Stundir
Kaffibrennslunni
Þorleifur Örn Arnarsson