föstudagur, apríl 25, 2008

Góða kvöldið

Æfingar ganga frábærlega, mikið stuð, mikið kreativití, mikið hlegið og mikið af alvöru.
Svona á þetta að vera...

Annars er ég að læra mikið þessa dagana, um æðruleysi í vinnu (að þora að treysta ferlinu, að vita ekki alltaf allt fyrirfram heldur að skapa rétta andrúmsloftið til kreatívrar vinnu) um æðruleysi í einkalífinu, um sjálfstæði, vera sjálfum sér trúr og gefa ekki umhverfi sínu vald til þess að stjórna sér.

Raunverulegt frelsi...

Er að hlusta á frábæra seríu frá Teaching company um sögu frelsisins. Um hvaðan hugmyndin kemur og hvernig henni hefur verið beitt í gegnum tíðina, magnað stuff.

Mun skrifa almennilega um það þegar ég er ekki að lognast niður úr þreytu.

Góða nótt

Þorleifur

sunnudagur, apríl 20, 2008

Góða kvöldið

Það segir einhversstaðar að skoðanir séu eins og rassgöt, allir fá að njóta þess að hafa eitt slíkt.

Ég hef mikið verið að hugsa um þetta í dag.

Ég er fullur skoðana, oftar en ekki, fyllri en ég kæri mig um eða er gott fyrir mig.

En það er svo skrambi erfitt að njóta þeirra ekki.

Maður nýtir þær til þess að kasta skoðunum sínum á heiminum og lífinu fram, á stundum sýna snilli sína, reyna að koma öðrum upp á eigin sjónarhorn, kemur jafnvel fyrir að maður opinberi fordóma sína.

Þar með er ég ekki að segja að skoðanir séu að hinu illa, þær eru það ekki, en spurningin er hversu háður maður er þeim, hversu óhagganlegur maður stendur á þeim og hversu mikilvægt það er manni að aðrir fallist á þær.

Og þær geta verið mönnum eins og mér stórhættulegar, sérstaklega þær sem byggjast frekar á tilgátum en raunverulegum staðreyndum. Því slíkar skoðanir eru byggðar á fordómum og um fordóma hefur eftirfarandi verið sagt:

Það er til prinsipp sem stendur í vegi fyrir öllum nýjum upplýsingum, virkar sem mótrök í hverju samtali og getur ekki annað en haldið manni í ævarandi fáfræði, þetta prinsipp er dómur áður en rannsókn hefur farið fram.

Svo mörg voru þau orð.

Þorleifur