þriðjudagur, apríl 08, 2003

Það var fallega gert af þér Dabbi!

Það var fallega gert af landsföðurnum að láta sjá sig með öðrum stjórnmálaleiðtogum í sjónvarpinu. Loksins hugsaði litli ég og lagði við hlustir. Og viti menn, enginn brást, Steingrímur málefnalegur (og vann líklega ef málefnin væru það sem máli skipti), Halldór reiður og sár, enda þátttakandi í barna og almenningsmorðum í Írak og flokkur hans blessunarlega að hverfa af sjónarsviðinu, Guðjón?????, Ingibjörg flott, mannamál og skiljanleg, lét ekki einræðisherrann taka sig á taugum þegar hann opnaði munninn til að gera lítið úr henni (og Steingrími sem hann klappaði svona líka fallega á hendina alltaf þegar hann opnaði munninn, eins og gömlum kennara sæmir þegar leiðrétta þar óbeytta almúgastrákinn sem trúir á eitthvað annað en vasadýpt sína ). Það er bara eitthvað við hana sem er svo trúverðugt og mannlegt. En svo er röðin komin að manninum í brúnni, þó að hann reyndi að hroka niður þann frjálslynda fyrir að hafa þó unnið við eitthvað atvinnuskapandi. Honum tókst að vera málefnalegur í svo sem eins og fimm mínútur áður en hann brast á með sinni víðkunni almúgafyndni. Þetta er leikur sem fundinn var upp til sveita og Davíð lærði ungur. Í honum felst að gera lítið úr viðmælanda sínum á skondinn og íbygginn hátt, en á sama tíma segja fólkinu sem situr heima í stofu að viðkomandi sé ekki aðeins lygari og ómerkingur heldur einnig treggefinn. Maður hefði haldið að Davíð hefði tekið mark á eigin orðum á framfaraþinginu, sem hann hélt fyrir skemmstu, þar sem hann sagði að málefnin ættu að sitja í öndvegi. En Davíð þarf ekki að hlusta á eigin orð frekar en orð annarra og því gleymir hann málefnunum og mígur á fólkið í kringum sig sem mest hann má eins fljótt og auðið er. En nú er það vona mín og vissa að fólk hafi fengið nóg, að svona sé ekki það sem við viljum sjá frá stjórnmálaleiðtogum okkar. Að kannski taki einhver af þeim sem hafa orðið fyrir barðinu á vinapólítíkinni sig til og sendi honum spólu sem áletrað væri á: "Og snýttu þér svo drengur".

Ég get ekki sagt skilið við þennan pistil fyrr en ég hef vottað sjónvarpsmönnunum á Stöð 2 virðingu mína. Ekki aðeins fyrir það að hafa náð í skottið á ofurmenninu og dregið það inn í herbergið þar sem óvinirnir biðu hans heldur hitt að þora að bauna á Davíð og Dóra í sambandi við Írak. Þó þeir hafi ekki gengið lengra en svo að ég stóð gargandi á sjónvarpið spurningar sem brunnu á mér, þá var það gaman að einhver þyrði að minnast á það við herrana að fólk deyr í stríðum, líka í þessu. En ekki er hægt að hrósa án þess að skeita við lítilli skömm í hattinn. Undarlegt þótt mér að ekki skildi hvarla að sjónvarpsmönnunum að minnast á menntamálin og guð forði okkur jafnréttismálin sem (eftir að Sjálfstæðar konur drápu þau, og sig) hafa ekki átt uppá pallborðið í umræðuna. En það er líklega hægt að fyrirgefa þeim það enda eru þeir báðir af sama kyninu, kyninu sem er að vinna jafnréttisstríðið.
Að skömm lokinni vill ég svo óska Stöð 2 til hamingju. Vel gert góða fólk og megi hið Sjálfstæðisrekna RÚV vakna upp við vonda draum!

Þorleifur Örn Arnarsson
www.lifandileikhus,blogspot.com

mánudagur, apríl 07, 2003

Þetta var grein eftir mig sem Mogginn sá ekki ástæðu til að birta, gjöriði svo vel:

Land hinna frjálsu

Ég hafði lengi velt því fyrir mér hvernig stendur á því að daunillar, fitusprengdar og hættulega ávanabindandi kartöflur geta verið nefndar eftir höfuðsetri menningar og rómantíkur, Frakklandi? Hvernig stendur á því að Ameríkanar er ekki löngu búnir að tryggja sér að einkarétt yfir kartöflutegundinni sem þeir, ekki Frakkar, færðu heiminum? Því gladdi það mig mikið að lesa það í Morgunblaðinu, að vinir mínir í vestanhafs hafi loks náð áttum, nafnið á kartöflunum er komið heim. Og nafngiftin hefur fullan rétt á sér. Hvergi er meira frelsi á holdafari en í Ameríku, hvergi minni mengunarhöft vegna soðningar kartaflanna, hvergi meira víðsýni og því Frelsis-kartöflur!
En hvað fékk menn til að opna augun fyrir þessu vandamáli? Jú blessaður stríðsreksturinn, eða verðandi stríðsrekstur öllu heldur. Frakkarnir gerðu nefnilega þau reginmistök að standa með Saddam Hussein. Þjóðin sem færði okkur Chopan og Sartre, hýsti Joyce og Beckett, stendur nú staðfastlega við bakið á Íröskum fjöldamorðingja!
Frakkar hugsa ekki um öll lífin sem stríðið mun bjarga, hugsar ekki um öll litlu börnin sem gætu haldið uppá litlu afmælin sín á McDonalds í Bagdad ef dusilmennið væri drepið. Nei, Frakkar ásamt Þjóðverjum og nokkrum öðrum þjóðum, sem ekkert vægi hafa í heiminum, ætla að styðja manninn sem selur kommúnistunum í Rússlandi olíu, frekar en að ganga í lið með öflum frelsis og fagnaðarerindis. Og nú fá þeir heldur betur að kenna á því.
En af hverju að stoppa hér? Þó svo að franskarnar séu fallnar í valinn þá er af nógu að taka. T.d. mætti banna öll rússnesk nöfn á áfengum drykkjum. Smirnoff gæti til dæmis kallast Bush-off, Stolisnæja gæti orðið Rumsfelding. Nú, ekki mega Þjóðverjarnir sleppa og hægt væri að flytja Októberfest fram í Júlí og kalla það The Great Fourth of July Festeval. Kínverjarnir mundi svíða undan því ef Chinatown yrði endurskýrður Powell-ville og Sameinuðu Þjóðirnar myndu seint ná sér af því ef höfuðstöðvunum í New York yrði lokað og þær fluttar til Kanada. Slá þar sem meiðir!
Í þessu sambandi get ég ekki annað en dáðst að stjórnvisku íslenskra ráðamanna. Hugsa sér ef við værum í hinu liðinu. Þá gætum við lent í því að The Icelandic Lamb (íslenska fjallalambið) yrði bannað í núverandi mynd og allt kynningarstarfið færi í súinn. Við sætum e.t.v. uppi með að þurfa að senda til Ameríku pakkningar sem segðu “Þetta lamb studdi innrás í Írak og féll við að koma skoðunum sínum á framfæri”. En þetta er tilgangslaus útúrsnúningur þar sem Ísland stendur sem klettur við bak Ameríku í styrjaldarrekstrinum.
Að lokum. Þar sem Bretar og Ameríkanar eru nú bandamenn þá má rífa frelsisstyttuna sem Frakkarnir byggðu og reisa í staðinn nýtt minnismerki. Minnismerki sem ekki aðeins tekur hinu fyrra fram í verkfræðilegri kunnáttu og umfangi, heldur geri lýðum það ljóst að Ameríku byggir og stjórnar guðs útvalda þjóð.

Þegar á allt er litið, á mannkynið séns?

Það virðist vera að fólk sé alveg endalaust tilbúið að ráðleggja manni, hafa áhyggjur og deila þeim með manni, sérstaklega ef áhyggjurnar stafa af þér sjálfum eða um þig. Á undanförnum árum hefur fólk verið einmitt meira en tilbúið að ræða við mig um áhyggjur sínar af mér og skoðunum mínum. Flestir setja fyrir sig að annaðhvort sé þetta gott fyrir mig eða fyrir það sjálft þegar málið er, þegar öllu er á botnin hvolt, að hvorugt er rétt. það sem raunverulega liggur að baki er það að skoðanir mínar koma einvernvegin við hagsmuni þeirra. Hvort sem er með beinum eða óbeinum hætti. Skoðanir annarra hafa nefnilega þann eiginleika að hafa áhrif á mann séu þær ekki sprottnar af sömu hugmyndafræði og manns sjálfs. Þær geta komið róti á þann fastmótaða viðhorfabanka sem búið er að koma sér upp og sé sá farvegur ekki lagður eftir hjartans reglum, heldur innblásinn einkahagsmunum, þá er hætta á að flæði yfir sé á það bent. Og mitt hlutverk (bæði sjálfskipað og af náttúrunnar hendi) hefur oftar en ekki verið það að benda á það. Þetta hefur í för með sér ýmsar hliðarverkanir, fólk telur oftar en ekki að ég sé þar með að setja mig á háan hest og horfi þaðan niður til litlu mannana þegar í raun vakir það eitt fyrir mér að vekja fólk, mig jafnt og aðra, til umhugsunar um sig og umhverfi sitt.

Það skal ég segja manna fyrstur að ég er engin engill. Margt í fortíð minni og nútíð er til þess fallið að ég eigi bara að halda trantinum á mér saman og ganga hljóður eftir götunni, en er það endilega þannig sem það á að vera? Hefur maður ekki rétt, sé sálin snúin í þá átt, til að benda á það sem manni finnst mislaga fara í samfélaginu í kringum sig? Má maður ekki benda á það að manni hugnist ekki fjöldamorð í Írak jafnvel þótt maður heillist endilega ekki af stjórnunarháttum Saddam Hussein? Auðvitað ætti það að vera þannig í upplýstu samfélagi manna að hver ætti að geta haft sína eigin skoðun. En því miður er það ekki svo.

Til dæmis er ég mótfallin ríkisstjórn Íslands (og það áður en hún lagði blessun sína yfir nýjasta kafla ný-heimsvaldastefnu Bandaríkjanna). Þetta kallar yfir mann viðræður og ábaunanir úr ýmsum áttum og manni er alltaf stillt upp miðað við andstöðu sína. Þegar ég er á mótil ríkisstjórninnni þá er ég umsvifalaust orðinn kommi og á móti hvers kyns framförum og lýðræði, sé ég á móti stríðinu í Írak þá er ég án tafar orðinn sérstakur bandamaður Saddam Hussein. Ef ég styddi rétt kvenna til fóstureyðingar væri ég þá orðinn ungbarnamorðingi?

Mér leiðast þessar nútíma útfærslur á rökræðunni. Ætli Sókrates myndi ekki snúa sér við í gröfinni gengi hann nú á meðal vor?

Uppspretta þessarrar útfærslu má finna í nútíma stjórnarháttum. Þar sem flokkshollusta og pólítísk rétthugsun er orðin svo leiðandi að sjálfstæð hugsun á sér engan málsvara annan en flokks línuna. Og hvað verður um manninn ef hann hættir að hugsa sjálfur og standa fyrir sínu? Erum við þá ekki að grafa undan því sem maðurinn hefur áorkað síðan á tímum grikkjanna, síðan Babílon var og hét (það man engin í vesturheimi að menningin á sér uppruna í Kína, það er staðreynd sem aðeins mun koma fram í dagsljósið þegar Kína fer að dæmi okkar og stofnar lýðræði og leyfir frjálsar kosningar. Gerir allt eins og við lijum að það sé og þá og þá fyrst munum við muna hverju við eigum þeim að þakka). Vissulega má að til sanns vegar færa að mannkynið hefur af og til tekið eitt skref aftur á bak og þá venjulega þar sem menningin telst vera hvað háþróuðust. Eki er ýkja langt síðan upp kom stjórnmálaflokkur í Evrópu sem sankaði að sér atkvæðum með því að hugsa fyrir fólkið, um fólkið. Þeir beittu rauðum fána með flottu merki, þeir höfðu public relations officer sem áttti varla sinn líkan og lofuðu fólkinu stöðuleika og velsæld. Svo fór allt til andskotans. Þar ríikti engin rökræða, þar var ekkert umræðuplan annaðen plan flokksins og því urðu hugmyndirnar afbakanir á hugsjónum og verkin eftir því. Ekki fyrr en heimurinn lá meira og minna í rúst komust menn að því að þetta væri ef til vill ekki svo sniðugt og reyndu að útrýma fólkinu sem þessa hugmyndafræði aðhylltist. Þetta er sannsögulegt og gerðist fyrir skömmu síðan! En samt skulum við ekki læra af reynslunni og leyfa fólki að tala, samt skulum við halda hugmyndum niðri og vona að þær finni sér farveg í vatni gleymskunnar, samt skulum við bara gleyma. Og hver verður niðurstaðan? Ekki veit ég það, en mér líst ekki á teiknin sem eru á lofti.....

En þetta er bara ég. Ég ætla halda í vonina að mankynið hafi þróast eitthvað og muni sjá að sér fyrr en seinna. Annars mun sú staða koma upp að einhvertímann í framtíðinni mun lítil mannvera sitja fyrir framan tölvuna sína (eða hvað hún nú heitir þegar þar að kemur) og skrifa: Ég vona að við lærum einhverntímann. En þangað til ætla ég að þora að tala!

Þorleifur
zorleif@hotmail.com
annars var byltingafundur í kvöld. Nú ætla skáldin að svara fyrir sig!

Góða nótt og megi draumarnir verða blóðugir hugsjónum!

Þorleifur
zorleifur@hotmail.com
Langar nætur, stutt milli stríða.
Hann gengur niður Laugarveginn. Það er ekkert óvenjulegt í loftinu en samt setur að honum einhvern hroll. Eins og eitthvað óráðið hafi tekið þá ákvörðun að stinga sér inn á milli hugsana hans, taka sér bólfestu og lifa af honum. Ætli sér að menga hann og skemma allt þar til ekkert sé eftir nema skinn og bein. Hann stoppar við glugga af kaffihúsi sem var. Horfir stingandi á spegilmynd sína og ímyndar sér lífið sem einu sinni var til staðar innan veggja hússins sem hann nú stendur frammi fyrir. Hér sat hann og lét sig dreyma um líf sem var, líf sem er, líf sem koma skal og allt gekk einhvernveginn upp. Þá virtist allt vera gott. Hvað varð um þann mann??? Spegilmyndin svarar eki spurningum hans heldur kastar framan í hann veruleika lífs hans. Hann er að verða tómur, tunna sem þjónað hefur hlutverki sínu og bíður þess nú aðeins að verða komið fyrir í einhverju porti gleymskunnar þangað til að greinin um endalokin birtist á baksíðu Moggans. Hann lýtur undan, ekki tilbúinn að horfast í augu við sjálfan sig lengur og tekur af stað að nýju niður lífæð miðbæjarins í átt að hjartanu.

Ég var ekki alltaf svona, var það. Ég hefði ekki gert þetta þegar ég trúði ennþá á eitthvað, hugsaði hann með sér og reyndi að bægja frá sér augntillitunum sem fólkið á götunni. Einu sinni brosti ég og meinti það, hló ég og hafði innstæðu fyrir því. Af hverju eru fáin börn mér nú fyrir hugskotssjónum þegar ég fer að sofa? Hvert fór lífið? Ekki hugsa, ganga! GAnga eins og ekkert hafi komið fyrir, ekkert sé að, ekkert hafi gerst. GAnga eins og mér ber, sýna fólki að ég trúi því í raun sem ég segi. éG er eftir allt búin að æfa mig undir þetta allt mitt líf. er það ekki?

Ætli allir hati mig, þau segja það en þau geta ekki meint það, er það nokkuð? (muna að spurja ritarann um skoðanakannanir helgarinnar) Ég hef gert svo margt fyrir þau, ég reyndi að láta molanna falla til þeirra af borðum þeirra sem betri eru. Kunna þau ekki að skammast sín, eftir allt sem ég hef gert?

Hann gengur áfram og nú eru hugsanir hans farnar að sína sig utan á honum. Þær virðast brenna í augum hans og berast út um svitaholurnar. Hann reynir enn að halda uppi ásjónu sinni en honum fylgja skarar dáinna barna og fólkið sem mætir honum sér þau þó svo þau standi rétt utan verlaldleikans. Fólk stoppar og horfir á hann, hann þykist ekki sjá þau en greikkar sporið í átt að vinnustaðnum þar sem hann er óhultur. Hvað er þetta, þau stoppa og stara á mig, það hefur aldrei gerst áður, þau hafa verið reið en aldrei stoppað, er skjöldurinn að bresta???

Fólkið fer að elta hann eða börnin dánu. Hann gengur fremst en á eftir honum kemur skari manna, kvenna og barna. Búðarfólkið er hætt að afgreiða og stendur í hurðargætttinni, lítur til baka en er loks dregið áfram af þeirri sýn sem blasir við. Eitthvað óviðráðanlegt er í loftinu, eitthvað magískt.

Hann er farinn að hlaupa, hann heldur að hann komist undan en það er ekki hægt, þau hlaupa líka. Hann finnur tryllinginn koma upp í sér, AF HVERJU ÉG? og hleypur hraðar undan skuggum sínum. Kemur að Lækjargötu, stekkur innum hliðið viðalmenningsklósettið í Bankastrætinu. Kemur að anddyri skrifstofunnar sinnar og kastar sér inn um hurðina....

Hello, hello....
Mister, we will have the list published in the morning, your countrys name will be in between Haiiti and Italy.
Thank you sir, good luck and may GOD be with you!