Þetta var grein eftir mig sem Mogginn sá ekki ástæðu til að birta, gjöriði svo vel:
Land hinna frjálsu
Ég hafði lengi velt því fyrir mér hvernig stendur á því að daunillar, fitusprengdar og hættulega ávanabindandi kartöflur geta verið nefndar eftir höfuðsetri menningar og rómantíkur, Frakklandi? Hvernig stendur á því að Ameríkanar er ekki löngu búnir að tryggja sér að einkarétt yfir kartöflutegundinni sem þeir, ekki Frakkar, færðu heiminum? Því gladdi það mig mikið að lesa það í Morgunblaðinu, að vinir mínir í vestanhafs hafi loks náð áttum, nafnið á kartöflunum er komið heim. Og nafngiftin hefur fullan rétt á sér. Hvergi er meira frelsi á holdafari en í Ameríku, hvergi minni mengunarhöft vegna soðningar kartaflanna, hvergi meira víðsýni og því Frelsis-kartöflur!
En hvað fékk menn til að opna augun fyrir þessu vandamáli? Jú blessaður stríðsreksturinn, eða verðandi stríðsrekstur öllu heldur. Frakkarnir gerðu nefnilega þau reginmistök að standa með Saddam Hussein. Þjóðin sem færði okkur Chopan og Sartre, hýsti Joyce og Beckett, stendur nú staðfastlega við bakið á Íröskum fjöldamorðingja!
Frakkar hugsa ekki um öll lífin sem stríðið mun bjarga, hugsar ekki um öll litlu börnin sem gætu haldið uppá litlu afmælin sín á McDonalds í Bagdad ef dusilmennið væri drepið. Nei, Frakkar ásamt Þjóðverjum og nokkrum öðrum þjóðum, sem ekkert vægi hafa í heiminum, ætla að styðja manninn sem selur kommúnistunum í Rússlandi olíu, frekar en að ganga í lið með öflum frelsis og fagnaðarerindis. Og nú fá þeir heldur betur að kenna á því.
En af hverju að stoppa hér? Þó svo að franskarnar séu fallnar í valinn þá er af nógu að taka. T.d. mætti banna öll rússnesk nöfn á áfengum drykkjum. Smirnoff gæti til dæmis kallast Bush-off, Stolisnæja gæti orðið Rumsfelding. Nú, ekki mega Þjóðverjarnir sleppa og hægt væri að flytja Októberfest fram í Júlí og kalla það The Great Fourth of July Festeval. Kínverjarnir mundi svíða undan því ef Chinatown yrði endurskýrður Powell-ville og Sameinuðu Þjóðirnar myndu seint ná sér af því ef höfuðstöðvunum í New York yrði lokað og þær fluttar til Kanada. Slá þar sem meiðir!
Í þessu sambandi get ég ekki annað en dáðst að stjórnvisku íslenskra ráðamanna. Hugsa sér ef við værum í hinu liðinu. Þá gætum við lent í því að The Icelandic Lamb (íslenska fjallalambið) yrði bannað í núverandi mynd og allt kynningarstarfið færi í súinn. Við sætum e.t.v. uppi með að þurfa að senda til Ameríku pakkningar sem segðu “Þetta lamb studdi innrás í Írak og féll við að koma skoðunum sínum á framfæri”. En þetta er tilgangslaus útúrsnúningur þar sem Ísland stendur sem klettur við bak Ameríku í styrjaldarrekstrinum.
Að lokum. Þar sem Bretar og Ameríkanar eru nú bandamenn þá má rífa frelsisstyttuna sem Frakkarnir byggðu og reisa í staðinn nýtt minnismerki. Minnismerki sem ekki aðeins tekur hinu fyrra fram í verkfræðilegri kunnáttu og umfangi, heldur geri lýðum það ljóst að Ameríku byggir og stjórnar guðs útvalda þjóð.
mánudagur, apríl 07, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli