laugardagur, nóvember 15, 2003

Hvaða, hvaða

Þetta er búin að vera mikill rússíbani, undanfarin vika það er. Framleiðandinn af verkinu sem ég er að gera dró sig í hlé sökum anna. DAgur stress og vona...

Klukkan 11 var ég komin með annan í liðið, BAldvin Þór, frænda minn og vin. Við sátum á brennslunni og það lá allt ljóst fyrir strax frá byrjun (þrátt fyrir smávægilegar mótbárur frá honum). Við vorum að fara í s0mu sæng og þvílík sæng sem það verður.

Hið Lifandi Leikhús verður leiðandi afl á Íslenskum (til að byrja með) listmarkaði og mun leggja línurnar fyrir þá sem á eftir koma. Það, eða við verðum gjaldþrota!!!


Svo er bara að rokka áfram, horfa djarfir mót vindi og slá í gegn.

BEstu kv.

Þorleifur

mánudagur, nóvember 10, 2003

SVona er það bara vinir mínir.

Lífið er alltaf fallegra og unaðsemlegra en maður þorir að vona, eða vill sjá. Eina sem þarf að gera er að vera! Vera her og nú og þá er allt alltaf allt í lagi...

Þorleifur
Sæl og bless

Þetta er búið að vera alveg stórkostlegur dagur.

Við konan reyndum að fara á söfn en þau eru öll á þeim buxunum um þessar mundir að sýna ekkert af viti.

Við fórum því heim til að þroska okkur og horfðum á alveg mergjaðan heimildamyndaþátt um eiturlyfjastríðið í Brasilíu. Alveg rosalegt. Það ríkir´víst bara stríðsástandi í fátækrahverfunum þarna. 18 ára pjakkar með M 16 og sprengjuvörpur að verja hverfið fyrir löggunni. Og svo er talað um að það ríki stundum stríðsástand í miðbænum.

SVo fæ ég ekki nóg af því að lesa skrifin hennar Dagnýjar Framsóknarungstyrnis. Hún er send sem fulltrúi Íslands, Evrópu og lýðræðisins til Georgíu og talar um land og þjóð eins og hún hafi verið send nauðug í gúlagið. Hvað er þetta. Að hegða sér eins og illa upp alinn táningur sem fær móðursýkiskast þegar hún fær ekki kók og heita sturtu í 2 daga!

Og svo slær hún út með því ða hún hafi gefið SVÍANUM harðfiskinn (af því að hann var maðurinn sem var að svelta í hel!!!).

Ég þoli ekki svona.

Þorleifur

sunnudagur, nóvember 09, 2003

Annars er ég enn að bíða eftir því að Eiríkur sendi mér restina af svarbréfunum svona til þess að þessi umræað geti haldið áfram.

Bestu kv.


Þetta er dómurinn úr DV (skilaboð að handan)

Og ég ákvað að skella honum hingað ðinn svona til þess að hægt sé að bera saman.




SEM TILBIÐUR FLOKK SINN OG DEYR


Sagan um manninn sem gat ekki hætt að hugsa


Það þarf hugrekki til að setja skáldsöguna 1984 eftir George Orwell – eitt þekktasta verk vestrænna bókmennta – á svið, og það með áhugamönnum. Hugrekki gæti satt að segja verið yfirskrift sýningar Stúdentaleikhússins í Tjarnarbíói á 1984 – ástarsögu, sem frumsýnd var á föstudagskvöldið. Hugrekki í vali á atriðum, hugrekki sem felst í því að treysta ófaglærðu fólki til að framkvæma flóknar samhæfðar hreyfingar á sviðinu og syngja jafnvel um leið, og síðast en ekki síst hugrekki leikaranna sem víla ekki fyrir sér að ganga fram á ystu nöf í túlkun, hvort sem um er að ræða ástarleiki fremst á sviðsbrún, fáeina sentímetra frá áhorfendum á fremsta bekk, eða grimmilegar pyntingar sem halda áfram og áfram þannig að áhorfanda finnst að lokum sem verið sé að pynta hann.

Sýningin er órækur vottur um að þátttakendur hafa treyst leikstjóra sínum fullkomlega, þótt ungur og lítt reyndur sé. En Þorleifur Örn Arnarsson hefur gert furðumargt vel þótt ekki sé nema tæplega hálft ár síðan hann útskrifaðist úr Listaháskólanum, leiklistardeild.
Allir hafa einhverja hugmynd um efni 1984 því að fá verk er eins vinsælt að vitna í. Sagan kom út 1949, árið áður en Orwell dó úr berklum. Hann hafði verið mjög róttækur en varð æ tortryggnari á kommúnismann og eflaust er Stalín ekki síður en Hitler fyrirmyndin að „stóra bróður“ í 1984 (sem er svo flott upp settur á stóran skjá í sviðsgerðinni og fær andlit Arnars Jónssonar lánað).

Aðalpersóna verksins er Winston Smith, fótgönguliði í Flokknum (Hinrik Þór Svavarsson), ósköp venjulegur gaur og ekkert afburðasnjall eða djarfur en sem á við þá fötlun að stríða að vilja endilega halda áfram að hugsa, í stað þess að láta stóra bróður og fína liðið í Innri flokki um það. Winston kynnist Júlíu (Lára Jónsdóttir), léttlyndri stelpu sem ekki lætur bann við kynlífi trufla langanir sínar, og það óvænta gerist: Þau verða innilega ástfangin. Það er í sjálfu sér tortryggilegt, ef ekki bannað, og þegar við bætist að þau efast um rétt stóra bróður til að ráða yfir lífi þeirra og huga verður refsingin ekki umflúin.

Saga Orwells um alræðisríkið var hugsuð sem víti til varnaðar fremur en spásögn en hefur auðvitað iðulega reynst hastarlega sannspá. Þó hefur „mannsandinn“ sem Winston trúir á oft risið upp eftir langvarandi kúgun eins og sjá má ef hugsað er til þróunar í löndum eins og Sovétríkjunum og Chile. En seint verður hægt að útiloka að upp rísi nýir harðstjórar, og 1984 skírskotar óþægilega til ýmissa teikna í samfélögum okkar nú til dags, ekki síst í Bandaríkjunum.

Verk Orwells er magnað og sýning Stúdentaleikhússins er afar áhrifamikil. Sviðið ömurlegt að sjá en svínvirkar með fínni ljósabeitingu, búningar markvissir, hópsenur agaðar og leikur einstaklinga góður. Lára Jónsdóttir var Júlía á frumsýningu og fór djarflega með þessa spennandi persónu. Melkorka Óskarsdóttir, sem leikur Júlíu á móti henni, lét sér nægja að vera senuþjófur í hópsenum á frumsýningu. Friðgeir Einarsson var óhugnanlegur sem O’Brien pyntingameistari, eins og blíður en strangur faðir í heimi þar sem engin takmörk eru fyrir því sem hann má gera. Fremstur meðal jafningja var svo Hinrik Þór í aðalhlutverkinu. Maður hreinlega skilur ekki það vald sem hann hefur yfir hreyfingum, líkamsburði, látbragði og rödd, og þegar kemur að endinum – eftir þriggja tíma stím – átti hann enn eftir hápunkt þess sem leikstjórinn leggur á hann og fór eiginlega fram úr sjálfum sér.
Þetta er hápólitísk sýning sem reynir verulega á huga og augu áhorfenda. Gerðu þér ekki þann grikk að missa af henni.

Silja Aðalsteinsdóttir

Ekki verra að mogginn skyldi jafnframt byrta grein um 1984 og framtíðina í lesbókinni sama dag. Eina sem ekki gengur alveg upp er að við erum hætt að sýna verkið!

En betra seint en aldrei!

Þorleifur
Þetta er dómurinn um 1984 sem ég leikstýrði með Stúdentablaðinu nú um daginn. Ekki slæmt, sérstaklega lokasetningin.

Hún meikar jafnvel sens þessi kona, svona inn á milli, þó svo að ég hafi átt í mesta basli með að þýða textan fyrir konuna mína vegna almennrar tyrfingar hans.

Allaveganna.

LEIKLIST - Stúdentaleikhúsið

Skelfileg sýn
1984, ÁSTARSAGA

Leikgerð eftir skáldsögu George Orwells: Þorleifur Örn Arnarsson og Arndís Þórarinsdóttir; leikstjóri: Þorleifur Örn Arnarsson; leikmyndarhönnun: Hlynur Páll Pálsson; ljósahönnun: Declan O'Driscoll; tónlistarstjóri: Jóhannes Ævar Grímsson, kórstjóri Gunnar Ben. Frumsýning í Tjarnarbíói, 24. október, 2003.


ÞAÐ liggur í loftinu, nú á tímum yfirgengilegrar velferðarneyslu og fjölmiðlavædds eftirlitssamfélags, að breyta til í leikhúsinu. Eftir nokkurra ára ofuráherslu á söngleiki, ævintýraleiki, gleði, rokk og ról velja æ fleiri leikhópar dramatísk raunsæisverk með boðskap. Á þetta sérstaklega við um yngri kynslóð þeirra sem iðka leiklist.
Stúdentaleikhúsið flytur okkur nú boðskap og skelfilega sýn George Orwells, í skáldsögunni 1984. Leikstjórinn Þorleifur og meðhöfundur hans Arndís velja ástarsöguna í sögu Orwells sem rauðan þráð leiksins og heppnast það ágætlega.

Í leikgerðinni kemur skýrt fram sú myrka sýn að ást og tilfinningar eigi ekki heima í pólitísku alræði þar sem ,,stóri bróðir kemst að öllu með hjálp tækninnar. Með því að velja ástarsöguna er ennfremur aðveldara að tengja skáldverkið nútímanum vegna þess að ástin lætur alltaf í minni pokann gagnvart valdagrimmd og - græðgi. Boðskap þessum er komið ágætlega til skila. Sýningin var sterk og áhrifamikil í heild sinni með undirtóni lífsþorsta en hann birtist einkum í firna sterkum og glæsilegum hópsenum á í stílhreinni leikmyndinni á hinu litla sviði Tjarnarbíós.

Þorleifur hefur greinilega mjög gott auga fyrir sviðslausnum og augljóst að hér er listamaður með köllun á ferð. Hins vegar má alltaf spyrja hvort rétt sé að leikstjóri stýri eigin leikgerð eða hvort ekki sé rétt að aðstoðarleikstjóri komi inn með ferska sýn en hér var meðhöfundurinn Arndís einnig aðstoðarleikstjóri. Sýningar mega alveg vera langar en mig grunar að nokkur atriði, eins og ástarsenur, pyntingar og yfirheyrslur, hefðu orðið markvissari og áhrifaríkari ef þriðja augað hefði komið að mótuninni.

Góð leikstjórnin kom einkum fram í hópsenunum þar sem heilaþvegnir flokksmeðlimir hrópuðu slagorð til heiðurs flokknum og ,,stóra bróður. Þarna kom líka í ljós kraftur leikaranna og auðvelt að hrífast með geislandi baráttuanda æskunnar á sviðinu þó svo að málstaðurinn sé miður geðslegur. Einstakir leikarar voru misjafnir eins og eðlilegt er í tuttugu og tveggja manna hópi þar sem leikreynslan er lítil. Hinrik Þór Svavarsson lék aðalpersónuna Winston Smith, sem rís gegn flokknum, fullur af fallegum réttlætisanda.

Hinrik lék vel og ekki við hann að sakast þótt persónan væri einsleit að því leyti að sjálfsvorkunn og píslarvætti einkenndi hana. Stúlkuna Júlíu, kærustu Smiths, lék annaðhvort Melkorka Óskarsdóttir eða Lára Jónsdóttir en þær eru báðar skrifaðar fyrir hlutverkinu í leikskrá. Það var synd að fá ekki upplýsingar um hvor þeirra lék á frumsýningu þar sem leikkonan hvíldi áberandi best í hlutverki sínu. Mér segir svo hugur að hún geti leikið hvaða hlutverk sem er af jafnmiklu öryggi og stillingu.

Öll umgjörð verksins var vel unnin; lýsing, leikmynd og búningar ásamt söngvunum sem færðu áhorfendur óhugnanlega nálægt íslenskum nútíma. Upplýsingar og fróðleikur í leikskrá eru til fyrirmyndar.

Í leikverkinu 1984 er mikið af þeim kraftmikla anda sem hefur fylgt Stúdentaleikhúsinu en upp úr stendur gott byrjendaverk leikstjóra framtíðarinnar, Þorleifs Arnar Arnarssonar.

Hrund Ólafsdóttir


Enn hefur Eiríkur ekki svarað mér en ég er búin að vera að fá mikið af skrítnum sms-um um að mæta hingað og þangað, nú er bara spurning hvað gerist næst, hvort portið bíði mín kalt og nöturlegt?

Annars er lítið að gerast í Þorleifsheimi, þetta verður líðandi dagur!

Þorleifur