laugardagur, desember 17, 2005

Góða kvöldið

Þá er loks komið að því sem ég er búinn að vera að skjóta á fresti lengi lengi, að gera upp þær leiksýningar sem ég hef séð hér á undanförnum tveimur mánuðum.

Eins og gefur að skilja þá mun ég eyða mismunandi mörgum orðum í hverja þeirra, fer allt eftir því hversu mikið mér finnst viðkomandi sýning hafa fram að færa sem mögulega gæti vakið áhuga þess sem ekki sat með mér í leikhúsinu það kvöld.

Sýningarnar sem ég ætla að fjalla um eru:

1. Dagur í lífi Ivan Denisovich í leikstjórn Zholdeks(Úkraína)
2. Mánuður úti á landsbyggðinni í leikstjórn Zholdeks (Úkraína)
3. Rómeó og Júlía - fragments í leikstjórn Zholdeks (Úkraína)
4. Boðorðin 10 í leikstjórn Christof Marthaler (Sviss)
5. Endastöðin Ameríka (Sporvagnin girnd) í leikstjórn Frank Castorf (A. Þýskaland)
6. Shopping and Fucking í leikstjórn Thomas Ostermeier (W. Þýskaland)
7. Measure for Mesure í Leikstjórn Simon McBurnley (Bretland)

Dagur í lífi Ivan Denisovich í leikstjórn Zholdeks.

Áhorfendur eru leiddir inn í salinn baksviðs. Þeir eru leiddir fram hjá öskrandi hundum haldið aftur af hvítklæddum varðmönnum. Hundarnir kjamma og gelta og strengja keðjurnar sem halda þeim til hins ítrasta. Eftir þessa heldur óhuggulegu upplifun (sem ég verð að segja að ég naut töluvert) þá vissi maður ekki hvernig maður ætti að taka sviðinu sem við blasti. Þar sem maður sat á hörðum kolli til móts við rimlaslengar lengur meðfram sviðinu, þá var manni ekki ljóst hver væri fanginn, leikendur eða áhorfendur. Loks þegar allir voru sestir (og úkraínski diplomatinn var búinn að öskra á mig að færa mig þar sem konan hans þurfti að setjast) þá ruddust inn á sviðið u.þ.b. 20 karlkyns leikarar og fóru að henda litlum kössum inn á sviðið svo þeir skullu í rimlarana sem vörðu okkur sakleysingjana. Hent var á sviðið með órúlega áhrifamiklum hætti einum 300 kössum. lætin og brútalitetið sem þetta kallaði fram í hugum áhorfenda dró okkur svo sannarlega inn í heim gúlgasis sem þessi saga gerist í.

Í kjölfarið komu inn 20 kunur og tóku til við það að raða kössunum upp í vegg sem aðskildi þær frá mönnunum og voru þær reknar áfram af sama hvítklædda fólkinu sem áður hafði haldið aftur af hundunum.

Verkið var allt leikið í hópum, en einstaklingssögurnar spruttu upp úr massanum af og til til þess að gefa okkur innsýn í þann heim sem þetta fólk býr við. Leikstjórinn fer afar frjálslega með textan enda er tilgangur hans miklu heldur að færa ástandið sem ríkir í gúlaginu (já eða í fangelsum nútímans) á svið heldur en að segja okkur sögu eins manns.

Ofbeldi og skelfing eru líklega orðin sem best lýsa fyrri hluta verksins. Maður er hlekkjaður í rimlana fremst á sviðinu og reynir að hafa samskipti eins og api, konum er nauðgað og fangarnir eru pyntaðir af hvítstökkunum. Eins og minntist á þá skýtur upp af og til sögum einstaklinga, eða frekar andartökum í lífi þeirra, þegar þeir reyna að tengjast hvorum öðrum (eða hvoru öðru), menn sem reyna að gera eitthvað saman en eru ófærir um það í heimi haturs og tortryggni, kona og maður sem elskast en þegar á reynir þá er valinu milli þess að opna sig annarri manneskju og hætta þar með því að mannveran sem lokuð er inni og niðurlægð alla daga fái að brjótast út eða hins, að halda veggjunum uppi og svara tilfinnignum með ofbeldi. Og ofbeldið verður alltaf ofan á. Manneskjurnar eru sviptar því sem gerir þær mannlegar. (hefði vesturlandabúi sett þessa sýningu upp þá mætti líklega reikna með því að búningar fanganna hefðu verið appelsínugulir en ætli austantjaldsleikstjórinn hafi ekki nærtækari dæmi til þess að vinna með).

Í síðari hluta sýningarinnar er farið í gegnum sömu "sögu" en nú út frá draumum persónanna á sviðinu. Þarna kemur í ljós af hverju Zholdek er kallaður síðasti leikhús súrealistinn. Varla er mögulegt að fara í gegnum það hvað fyrir augu ber, hvernig getur sá sem ekki sat í leikhúsinu skilið drauminn sem þar var leikinn. Hvernig á maður að útskýra það að kona hafi sets í áhorfendasalinn með míkrófón og leikið öll hljóð eins og um teiknimynd hafi verið að ræða en á sama tíma þá hafi þetta gengið fullkomlega upp. Hvernig hlaðborð var sett upp og egg borin á borð. Hægt og rólega þá voru borin á sviðið egg (sem táknmynd frjóleikans geri ég ráð fyrir) sem fólkið við borðið tók að éta. Hægt og hægt færðist kapp í leikinn og að lokum þá þá lá fólkið á borðin uog tróð í sig sem mest það mátti. Það er ekki friður í draumum fyrir skelfingu mannlegrar niðurlægingar. En lokamyndinni get ég lýst, þar sem Ivan Denisovich (sem er í raun eini leikarinn sem maður tók eftir sem einstaklingi, og átti eftir að gera í öllum sýningunum Zholdeks, en ég held að það stafi frekar af því að þarna er á ferð stórkostlegur leikari. Slíka áru hef ég varla á sviði séð) lagðist á borð og hópurinn tók að bera inn steina. Hægt og rólega þá huldu þau lík hans. Ivan Denosivich lá dáinn og grafinn á sviðinu, bæði í raunveruleika sem draumi.

Hópsenurnar eru með því magnaðra sem ég hef á sviði séð, og auðvitað liggur þarna undir sérlega sterk ádeila á samfélagsbyggingarkerfið sem samfélagið í Úkraínu bjó við fyrir appelsínugulu byltinguna (en meira um hana síðar). Það er sérstakt og segir mikið um kraft leikhússins hversu mikið er í raun hægt að ná til manns, hversu sterkar myndir geta verið til þess að tala til okkar og hvernig skortur á eiginlegri sögu getur skipt litlu máli þegar hugsunin sem að baki stendur er nógu skýr.

2. Mánuður úti á landsbyggðinni eftir Tjúrganíev í leikstjórn Zholdeks.

Þetta var þriggja kvölda maraþon. Á öðru kvöldinu vissi ég ekki hverju ég ætti von á eftir ósköpin kvöldinu áður. En þ´vi miður verður að segjast að hér tókst Zholdek ekki jafn vel upp. Sýningin, sem var 4 tímar, var að mestu leiðinleg. Ástæðan liggur í því sem ég sagði hér á undan, skotur á sögu gerir ekkert til í leikhúsi þegar að baki liggur skýr hugsun. En þegar þennan skýrleika skortir þá verður leikhúsið fljótt leiðinlegt. Og svo var á þessu kvöldi.

Stílbragðið var allt annað. Ennþá var hópurinn til staðar en nú byggði Zholdek allt upp á myndum. Svart með tónlist, ljós upp, mynd stendur á sviði í allt að 40 sek og svo dofna ljósin aftur á meðan verið er að stilla upp næstu mynd. Svona gekk þetta meira og minna í 4 tíma. Reyndar komu inn á milli stuttar senur en þær gerðu lítið til þess að bæta í söguna eða útskýra það sem fram fór á sviðinu.

Vissulega verður að taka fram að þetta er mögnuð tilraun og það voru andartök inn á milli þar sem maður fór með inn í fantaíuna, þar sem maður skildi hvað var átt við þegar hann er kallaður síðasti súrealistinn en allt of oft beið maður bara eftir því að eitthvað óvænt gerðist eða kannski bara að eitthvað yfir höfuð gerðist.

Þjóðernistaugarnar spenntust af og til því Björk og Sigur Rós komu oft fyrir og í flest skipti þá vaknaði áhugi minn á því sem var að gerast á sviðinu en ég veit ekki hvort það tengist þeim hugarmyndum sem þessi tónlist kallar fram í huga minn eða hvort að þessi tónlist hafi líka innspererað Zholdek.

Og þá að þriðju og kannski merkilegustu sýningu Zholdeks.

3. Rómeó og Júlía - Fragments.

Best að taka það fram starx í upphafi að þessi sýning hafði um það bil ekkert að gera með Rómeó og Júlíu. Einnig verður að segja forsögu sýningarinnar áður en maður fjallaar um sýninguna sjálfa.

Forsagan er sú að Zholdek var leikhússtjóri Shevchenko-Theater in Charkiw í Úkraínu. Þegar spurðist út hvað hann var að gera með Rómeó og júlíu komu þangað valdhafans menn til þess að sjá hvað væri á ferðinni. EFtir að hafa kynnt sér málið þá var Zholdak gert það ljóst að ef þessi sýning yrði frumsýnd þá yrði hann ekki aðeins rekin heldur yrði séð til þess að hann gæti ekki starfað í Úkraínu.

Það sama kvöld pakkaði Zholdak niður í ferðatöskurnar og fór úr landi, og lýsti því yfir að hann myndi aldrei snúa aftur.

Volksbühne í Berlín tók hann upp á sína arma og þar frumsýndi hann Rómeó og Júlía - Fragments. Undirritaður var viðstaddur frumsýninuna og mun svo lengi sem hann lifir ekki sjá eftir því.

Sýningin hefst mikið til eins og Mánuður á landsbyggðinni, myndir sem birtast og hverfa. En allt í einu fara að birtast sjónvörp sem sýna myndir úr Appelsínugulu byltingunni (sem er brot á höfundarrétti því að núverandi forseti Úkraínu hefur látið einkaleyfisstofu úkraínu úthluta sér einkaleyfum á þeim appelsínugula "varningi" sem einkenndi byltinguna. Fjölskylda hans lifir nú í velllystingum og olli það mikilli reiði í Úkraínu nýverið þegar sonur hans sást keyra um á 160.000 evra BMW, en það er önnur saga). Hægt og rólega fara myndir af Bush að birtast og man fer að gruna að hér sé verið að fara illa með stórskáldið breska.

Inn marsera menn og þramma í einum taktföstum hóp um sviðið í 20 - 30 mínútur. Í kjölfarið koma konur og gera slíkt hið sama. Loks er rúllað inn tveimur klóstettum og við það brotna hóparnir upp og taka til við það að gera stykki sín. Óskapleg gleði ríkir og kúka allir og pissa af mesta móð. Þegar klósettin eru full er léttara yfir öllum og víkur þá sögunni til heimabæjar hans. Við blasir fyllirí og eymd. ungar stúlkur, í hálf kynferðislegum klæðnaði, ganga vergangi um sviðið. Loks flýja þær fyllibytturnar fram á sviðið og taka upp jónu. Þær fara að reykja, ljósin skipta um lit (út fara hvítir litir, inn koma í fyrsta skipti í sýningunni blár, rauður). Því meira sem þær reykja því meiri verður litadýrðin þangað til þær sjá eitthvað í fjarska. Vonin er yfirgnæfandi, þær sjá, þær sjá, þær sjá...Ameríku. Með dópinu sjá þær vonina vakna í Ameríku.

Inn koma allir sem áður höfðu marserað og gert stykki sín. Í för með þeim eru 2 forlát fiskabúr full af brúnni drullu. Maður sér ekki betur en þar sé kominn úrgangurinn sem sleppt var í kátínu í senunni á undan. Fólkið teygir sig ofan í byrjar að borða eigin saur í voninni og fegurðinni í henni Ameríkunni. Það maka sig öll upp úr drullunni og því meira sem þau borða og maka því hamingjusamari eru þau. Loks stilla þau sér, brún að lit, upp við vegg og mynda kristna freskjumynd, hlé!

Og hananú!!!

Eins og ég skildi þetta:

Sósíalisminn gerði alla að einum, frjáls einstaklingsvilji var ekki til umræðu. Allir marsera í hóp, einn tveir, einn tveir, einn tveir! En léttir er handan við hornið og þegar færi gefst losa allir um alla drulluna sem búið var að troða í það allan þennan tíma. Loks eru þau frjáls. En ömurlegur veruleikinn er ennþá til staðar, spilling og fyllirí. En vonin er handan við hornið, maður þarf bara að vera örlítið skakkur til þess að sjá það. Og loks er vonin komin, og allir fá að vera með. Og með gleði borðar fólkið aftur sömu djöfuls drulluna, en nú bara í nýjum búningi. Frjáls vilji kemur til baka en er tekinn á brott, og það besta er, maðurinn sjálfur tekur ekki eftir því!

Ég sat sem rotaður eftir þessa sýningu, þvílíkt og annað eins.

4. Boðorðin 10 í leikstjórn Christof Marthaler

sá sem ekki hefur séð sýningu eftir Marthaler er þeim mun fátækari. Leikhúsið hans eru engu öðru líkt og galdurinn sem hann nær að kalla fram dregur mann inn og maður flýtur með honum hvert svo sem hann er að fara í það og það skiptið.

Frægasta sýning hans (og líklega í Þýskalandi síðan Brecht var og hét) er Murx der Europear. Murx ihn, Murx ihn, Murx ihn. Ein nationalistisches Abend im Volksbühne. Fyrir þá sem geta ómögulega rifjað upp menntaskóla þýskuna þá þíðir þetta í afar lauslegri þýðingu. Evrópubúinn Murx. Murxum'ann, Murxu'ann, Murxum'ann. Þjóðerniskennt kvöld á fólkssviðinu.

sú sýning var hans úttekt á þjóðarandanum í kjölfar endursameiningu Þýskalands 1990. Þessi sýning, boðorðin 10 er tilraun til þess að gera slíkt hið sama aðeins tíu árum síðar. En svo virðist sem einhver hafi gleymt að segja Marthaler það, því hann ákvað að láta þetta gerast í kirkju. Jú, vissulega talar hann þarna (eða syngur öllu heldur) um hitt og þetta, frjálsan vilja, trú manna á eitthvað æðra, vonbrigðin þegar trúin bregst (væntanlega í víðtækari skilningi) og hversu illa fólki tekst svona almennt að vera saman. En þar sem sögusviðið er Napólí og öll tónlistin er ítölsk þá verð ég að segja eins og er að ég átti í oggulitlum örðuleikum með að sjá tenginuna við þýskaland samtímans, umfram það að á sviðinu stóðu mannverur og fjallað var um mannleg samskipti (sem í sumu norðurevrópuríkujum telst oft vera nógur grunnur í leiksýningu, mannleg samskipti, en svo er ekki hér í Þýskalandi. Hér verður maður að vita af hverju maður er að gera það sem maður er að gera og geta svo sýnt það á sviðinu).

Tónlistin var ferleg skemmtilega flutt eins og er hans von og vísa, frábærir leikarar inn á milli og mikið af frábærum hugmyndum. En það vantaði heildarmyndina, það vantaði andan sem ég hef yfirleitt alltaf fundið hjá Marthaler (það er þegar hann er ekki að reyna að setja upp leikverk, þá hefur maður alltaf á tilfinnigunni að hann vilji bara fá að gera sitt og þessi déskotans atriði og þessi texti sé bara fyrir honum.)

Fremstur í flokki leikaranna var einn besti leikari Þýskalands, Martin Wudke. Það er með ólíkindum hvað þessi maður er stórkostlegur. Hann er hrein nærvera, ögrandi, húmorískur, spennandi. Maður veit aldrei hvað kemur næst frá honum, maður veit varla hvernig maður á að lýsa honum, slík eru flinkheitin. Eftirminnilegasta atriði sýningarinnar var þegar hann dróst fram á sviðið (annar fóturinn dó hjá honum og því dró hann sig einhvernveginn fram á sviðskörina). Þegar hann er þangað kominn áttar hann sig á því að hann hefur gleymt hljóðfærinu og horfir örvæntingarfullur í kringum sig. Loks brýst fram umhyggjan hjá einhverjum mótleikaranum og færir honum sellóboga. Wudke stendur þarna með sellóbogann í hönd og er augljóslega í vandræðum. Það er þangað til hann glennir upp ginið og spilar á tennurnar á sér! Algerlega stórkostlegt!

En eins og ég sagið þá hef ég séð mun betra frá Marthaler og hlakka bara til þess að sjá næst.

Að lokum má geta þess að konan mín, Meri, hún lýsti því yfir eftir sýninguna að þetta væri besta sýning sem hún hafði séð og vildi helst fara strax aftur. Ætli ég sé að verða of kröfuharður???

Ég ætlaði að skrifa umfjöllun um allar 7 sýningarnar en eins og sést á þessum pistli hingað til þá á ég bæði erfitt með að hemja mig og svo er bara frá svo mörgu að segja.

Þess vegna ætla ég að skipta þessu upp í tvö holl og ég býst við að seinni skammturinn komi 22 des næstkomandi þegar ég er kominn í skjól hjá tengdó í finnska skóginum.

Enda býst ég við því að þú eigir að vera að vinna eða gera eitthvað ganglegt ;-)

Bið að heilsa og vonandi fer jólageðveikin ekki með ykkur. Muni að kapítalisminn þarf á ykkur og jólunum að halda.

Bestu kv.

Þorleifur

þriðjudagur, desember 13, 2005

Góða kvöldið

Þagnir þagnir þagnir þagnir.

Alltaf þegar ég kemst á flug hérna þá er því fylgt eftir með langri og markvissri þögn. Þetta tengist því náttúrulega að konan mín kemur og þá er annað að gera á síðkvöldum, og svo er hitt að skólinn sem ég stunda hérna er ekkert grín. Ég get svarið það að ég er alltaf í skólanum.

Maður hélt að maður væri vaxinn upp úr þessu, að skólaganga sem tekur allan daginn væri að baki en think again, þessi er frá morgni til miðnættis.

En síðan ég skrifaði síðast er ég líklega búinn að sjá 2 bestu sýningar sem ég hef séð. Shopping and Fucking í uppfærslu Ostermeier og svo frægustu uppsetningu Kastorfs í Volksbühne, Endstation amerika.

Ég mun skrifa um bæði verkin sem og annað sem á daga mína hefur drifið innan skamms, þegar ég er kominn í rólegheitin í Finnlandi. Það er uppúr næsta mánudag eða svo.

Þangað til biðað ég að heilsa úr veðurblíðunni hér í Berlín.

Þorleifur