sunnudagur, maí 01, 2005

Góðan daginn

Og góður er hann, allaveganna hér í Berlín. Veðrið er stórkostlegt, 25 gráður og heiðskýrt, andvari og fjarlægar óeirðir.

25 manns voru fangelsaðir hér í gær, sem þykir nú bara ansi gott hér í Berlín á verkamannadaginn. Berlín hefur venjulega dregið til sín óþverralýð Evrópu til þess að skemma og eyðileggja ekki bara eignir BErlínarbúa heldur orðspor þessa merka dags.

En sem betur fer virðist þetta vera á undanhaldi hér og standa þá vonir mínar til þess að í stað þess standi menn hér í friðsamlegum en alvarlegum mótmælum gegn þeim aðgerðum sem Þýska stjórnin og Evrópusambandið standa hér í.

Það væri í raun efni í heilan pistill umfjöllun fjölmiðla Evrópu og Bandaríkjanna um þýskt efnahagslíf. Þessi bölsýniskór er það sem stendur í vegi fyrir efnahagslegri uppbyggingu hér, ekki slæmir inniviðir atvinnulífsins. Og það á sama tíma og Bandarískt efnahagslíf er á einhverjum versta stað í sögu Bandaríkjanna.

En þar sem við búum við efnahgaskerfi sem keyrir á vilja borgaranna til þess að eyða þá er það afar hættulegt að standa í sífelldri svartsýni se ekki er til neins fallinn nema að draga enn frekar úr efnahagsuppsveiflunni hér. Nema að þetta sé dulin aðferð til þess að tortýma velferðarkerfinu sem Þjóðverjar hafa byggt upp á undanförnum áratugum. Og kannski er það líklegast þegar uppi er staðið. Það má nefnilega ekki gleyma því að fjölmiðlar hafa lifibrauð sitt af því að efla stórfyrirtæki...

En að leikhúsinu. Sá í gær sýningu í Prater leikhúsinu í Prenzlauerberg. Sýningin TELEFAVELA eftir Rene Pollech var um margt merkileg, eins og reyndar er hans von og vísa. S'iðasta sýningin sem ég sá eftir hann, SEX, var á svipaðan máta merkileg. Hann er að leika sér með stereótýpuna, ofleikinn, einfalda leiðir að tilfinningum og halda því stíft að okkur að við séum í leikhúsi.

Verkið er, eins og nafnið gefur til kynna, sápuópera á sviði frá fátækrahverfum Brasilíu. Við fáum að kynnast barónessunni og þjóni hennar, sveltum eiginmanni og rússnesku hórunni. Það fer reyndar ekki mikið fyrir söguþræði því það sem hann er að tala um er efnahagsástand heimsins og hvernig kapítalisminn misskiptir tekjum. Persónurnar detta í og úr karakter þegar það þarf og þá venjulega til þess að mála upp fyrir okkur einhverskonar mynd af ástandi og svo hvernig tilfinningar það kallar fram hjá viðkomandi. Sýningin var á köflum mjög fyndin en þá venjulega bundið í texta þar sem snúið var út úr klisjum og venjum sem við á verstu-löndum höfum tamið okkur. Allir að nota og svíkja alla, reyna að ná sínu fram, stinga í bakið þegar það á við, ignora tilfinningalíf ef von er á gróða þar af og svo framvegis.

Leikhúsið sem opnaðist þarna er afar frábrugðið því sem við þekkjum að heiman. Þarna er ekkert baktjaldaleikhús í gangi heldur tók á móti okkur salur með samansafni af stólum sem viðð þekkjum af kaffihúsum, sumarbústöðum og eldhúsborðinu hjá ömmu. Þessu var svo dritað um salinn og sat hver þar sem stólinn lá, eða færði á stað þar sem betur sást til sviðsins. Leikararnir lék aldrei til okkar nema þá ef það var verið að segja okkur eitthvað beint, og þá oftar en ekki í míkrafón, eða þá þegar stoppað var í miðri átakasenu til að kommenta á framvinduna. Á sviðinu var að finna samansafn að húsgögnum sem best ættu heima í Guiding Light og á veggjum var búið að negla upp veggfóður með myndum af mis ríkmannlega búnum herbergjum. Sumsé, allt feik!

Og svo leikurinn: Hann var frá bær. Leikstjóranum tekst á ótrúlegann hátt að draga okkur inn í atburðarás þessara yfirborðskenndu persóna án þess að manni leiðist eða þetta verði einhvernveginn banal. uppgjörsenur klipptar út úr lélegri sápu urðu spennandi og textinn bar þetta allt áfram af ótrúlegri greind.

Allt öðru vísi leikhús og helst til þess fallið að gefa manni eins og mér inspírasjón fyrir eigin verk. Síðast þegar ég sá hann þá fór ég heim og setti upp "Aðfarir að lífi hennar" þar sem ég vann mikið út frá hugfrifum mínum af verki hans SEX, ég geri ráð fyrir að svo verði líka um þessa.

Svo er bara reynt að slappa eins mikið af og hægt er áður en törnin hefst sunnudaginn næsta.

Bið að heilsa heima rómi blíðum.

Þorleifur
Berlín