laugardagur, nóvember 22, 2008

Frá Berlín

Var að horfa á Kastljós. Það var spyrpa þar sem farið var yfir mótmæli líðandi stundar.

Sitjandi í Þýskalandi þá brá mér heldur við að sjá Viðar Þorsteinsson kalla lýðræði, lýðræði, lýðræði með hægri hendi á loft.

Sá svo ekki betur en að bakvið hann stæði Hörður Torfason með klút um hægri upphandlegg, sem hófst svo á loft undir köllum Viðars.

Svona táknmyndir eru einfaldlega bannaðar hérna.

Vona samt að sem flestir mæti á morgun á Austurvöllog að þar haldist sá frábæri andi sem hefur ríkt hingað til.

Og að mótmælin haldist friðsöm og skynsöm.

Þ

föstudagur, nóvember 21, 2008

Frá Berlín

Ég velti því fyrir mér hvort að stjórnarslit séu best.

Ef af stjórnarslitum yrði er hætt við því að VG undir Steingrími myndi stökkva upp í með Sjálfstæðisflokknum og þá myndi stefna Davíðs verða ofaná. Afturhald og hafta-samfélagið yrðu kjörorð dagsins...

Og nú er komin fram þessi vantraust tillaga sem hlýtur að loka fyrir samstarf þeirra flokka við ríkisstjórnina.

Ég tel reyndar ekki að þetta fáist samþykkt enda er of mikið í húfi fyrir þá stjórnarþingmenn sem kjósa skulu. Kjósi þeir með falli stjórnar og mistakist þeim verða þeir gerðir útlægir úr ranni sinna flokka og slíkt er áhætta sem fáir taka.

En hins vegar gæti það orðið stökkpallur framávið ef rétt spilast. En það er of erfitt verkefni fyrir flesta til að reikna. Einu sem myndi treysta sér í þannig eru stjórnmálamenn á stærð við Davíð Oddson eða Ingibjörgu. Er slíkur leiðtogi í felum?

Þegar allt kemur til alls þá stýra eiginhagsmunir fólki almennt, ekki síst við svona aðstæður.

Og því mun þjóðin þurfa að búa áfram við þetta vonda leikhús sem finna má við austurvöll.

Er ennþá að vinna að pistlum um Absúrd leikhúsið sem ég mun birta hér.

Bk

Þorleifur

fimmtudagur, nóvember 20, 2008

Veruleikinn er horfinn, það er ekkert eftir nema skringilegt samansafn súrrealískra atburða.

Allir segjast bera fulla ábyrgð en það er greinilega einhver önnur ábyrgð en venjulegir borgarar bera þegar þeir klúðra sínum ábyrgðum. Í þeim tilfellum er gengið á mann með lögum eða vinnumissi. En þetta á greinilega ekki við um stjórnmálamenn og embættismenn.

Menn tala um að þeir hafi ekki vitað en gögn segja annað.

Menn segjast hafa varað við en gögn segja annað.

Menn segja hlutina vera einhverju öðru að kenna en gögn segja annað.

Menn segjast vera að segja allt sem má en gögn segja annað.

Menn segjast skilja mótmæli en aðgerðir þeirra (eða aðgerðaleysi) segja annað.

Menn segja eitt og eru annað.

Þetta er grunntvískinnungur samtímans. Svokallað paradox.

Og maður var orðinn þessu svo samdauna að maður kippti sér ekki upp við það. Ekki fyrr en maður upplifði að þetta fólk hefur áhrif á framtíð manns, standa milli manns og gjaldþrots. Þá hættir manni að vera á sama um paradox stjórnmálanna og vill bara sannleikann, ekki pólitíkina, eki lygarnar og blekkingarnar, ekki valdaleikina og allt hitt.

Bara sannleikann.

Mun a næstunni skrifa pistla um Súrrealista leikhús nútímans - veruleikann

Þ