mánudagur, júní 22, 2009

Alþjóðlegt fjármálakerfi

Mitt í storminum um Icesave samninginn gleymist að hér er ekki aðeins verið að ræða um einn samning heldur er Þessi samningur aðeins einn hluti af miklu stærra púsli.

Þær ákvarðanir sem teknar verða á næstu vikum og mánuðum munu leggja grunninn að því samfélagi sem hér mun verða til lengri tíma.

Eina leiðin til þess að á Íslandi verði almennileg, nútímaleg lífskilyrði er annars vegar að íslenska ríkið geti staðið undir grunnþjónustu, menntun og menningarlífi og hinsvegar að á Íslandi verði að finna blómlegt atvinnulíf.

Hvernig fara Íslendingar að því að leggja þennan grundvöll nú þegar svona er ástatt?

Augljóslega þurfum við að halda stöðu sem lýðræðislegu, opnu og ábyrgu landi í alþjóðlegu samhengi. Við þurfum að standa við skuldbindingar okkar (jafnvel þær sem okkur hugnast ekki eða okkur finnst ekki vera okkur að kenna) enda er það bæði forsenda þess að við verðum áfram hluti af alþjóðsamfélaginu.

En samtímis verðum við að passa okkur á því að einblýna ekki svo á vandamálin að við missum yfirsýnina yfir möguleikana sem eru í stöðunni og ekki síður, að velta fyrir okkur hvernig samfélag viljum/verðum að byggja til þess að á Íslandi verði lífvænlegt til framtíðar.

Hvernig förum við að því? Hvernig á Ísland að geta annars vegar greitt af alþjóðlegum lánum sínum og hins vegar geti boðið þegnum sínum upp á grundvöll til menntunar og starfa að menntun lokinni?

Eina lausnin er sú að á Íslandi verður til frambúðar alþjóðleg starfsemi í einhverju formi.

Og með því á ég ekki við grunnframleiðsla eins og ál og netþjónabú, slíkt verður að vera með en ekki aðalatriði, heldur hitt, að hér verður að verða til lifandi alþjóðleg starfsemi að nýju.

Á Íslandi eru nú þúsundir manna og kvenna sem eru því vön að starfa í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Flest þetta fólk sinnti vinnunni sinni samviskusamlega og af natni. Og ef ekki hefði verið fyrir eitrað sambland alþjóðlegrar kreppu, krosseignatenglsa, mögulegs glæpsamlegs athæfis og stjórnsýslulegrar vanþekkingar þá gæti staðan á landinu verið allt önnur en hún er.

Hrunið á Íslandi er nefnilega ekki vísbending um hversu skelfilegt alþjóðlegt fjármálakerfi er heldur hitt, hversu mikilvægt er að í slíku kerfi séu reglurnar skýrar, eftirlitið mikið og starfsferlar gegnsæjir.

Íslandi hafði komið sér í öfundsverða stöðu að mörgu leyti. Hámenntað samfélag með vel launuðu starfsfólki í góðu velferðarkerfi byggðu á sterku menntakerfi. Og hafði alþjóðlega starfsemi sem veitti því gjaldeyri og starfsmöguleika.

Þessu skulum við ekki gleymar við byggjum upp að nýju.

Fólkið sem starfaði í alþjóðlegu samhengi hættir ekki allt í einu að vera metnaðarfullt og alþjóðlegt og sættir sig við að vinna í störfum sem það hefur hvorki menntun né þekkingu til þess að sinna ss. í fiski eða matvælaframleiðslu.

Eini möguleikinn til þess að halda þessu fólki er að hér verði alþjóðleg starfsemi að ósköpunum loknum.

Og svo vill til að það er líka eini möguleikinn til þess að hér verði blómlegt samfélag þegar fram í sækir því að með ónýta mynt og veikan heimamarkað þá eru litlar líkur að Ísland geti staðið undir alþjóðlegum skuldbindingum sínum.

Það ætti því að vera algert forgangsatriði að þessi mál séu skoðuðu í heildarsamhenginu, með heildarhagsmuni þjóðarinnar til lengri tíma fyrir augum.

Ef unnið verður út frá þeirri heift, þjóðernishyggju, misskilinni réttlætiskennd og skammsýni sem einkennir mikið af umræðunni á Íslandi í dag þá er hætt við að eftir standi samfélag sem hrekur þá einstaklinga frá sem mikilvægastir eru fyrir framtíð landsins og uppbyggingu.

sunnudagur, júní 21, 2009

Ég verð að segja það að ég skil ekkert í umræðunni á Íslandi hvað varðar Ice-save málið.

Hafandi búið í Þýskalandi undanfarin ár og þekkjandi þá sögu sem þar liggur hryllir mér meiraðsegja á köflum málflutningurinn.

InDefence hópurinn samanstendur af fólki heldur betur tengdu inn í pólitík. Einn af forsprökkunum er formaður framsóknarflokksins, annar er í framvarðarsveit Sjálfstæðisflokksins og svo mætti lengi telja, þannig hin ópólitíska míta á sér ekki stoð í raunveruleikanum.

Framsetning hópsins á skilaboðum sínum (ég er ekki terroristi) var líka forkastanleg. Myndir af hvítu fólki með skilaboðunum "ég er ekki terroristi" kallar algerlega og réttlætanlega fram ímyndir um kynþáttahyggju. Ég tók undir með hópnum til þess að byrja með en um leið og ég sá þessar myndir og fylgdi málflutningi hópsins eftir þá hryllti mér við. Illa farið með að mörgu leyti góðan málstað.

En að Ice-save málinu.

Það er engin spurning að þarna er mikið réttlætismál. Illa ígrundaðar viðskiptahugmyndir og hrikaleg framganga forsvarsmanna Landsbankans í þessu máli kalla vissulega á ítarlega skoðun. En hinsvegar er ekki hægt að líta framhjá því að það er á könnu ríkisins, ekki fyrirtækjanna sjálfra, að fara með eftirlit með þeim.

Það hefði átt að vera eftirlitsstofnunum klárt að þarna væru um hættulegt athæfi að ræða og átt að koma fyrr og skýrar í veg fyrir það. En þeirri skildu var ekki sinnt og því fór sem fór.

Auðvitað er ekki sanngjarnt að byrgðar þessarar hrikalegu yfirsjónar lendi á landsmönnum, börnum þeirra og barnabörnum en það er því miður óumflýjanleg staðreynd að svo verði að vera. Og það er ekki vegna þess að útlendingarnir séu svo vondir, heldur vegna þess að íslenskir viðskiptamenn hegðuðu sér eins og ræningjar í skjóli íslenskra stjórnvalda og því falla byrgðarnar á íslenks stjórnvöld - sem leiðir svo af sér að þær falla á íslenskan almenning.

Að semja ekki mun sýna umheiminum að við ætlum að viðhalda ábyrgðarlausum stjórnháttum, ætlum ekki að taka á byrgð á mistökum okkar og gefum skít í umheiminn.

Með öðrum orðum, við munum einangrast og það á tíma þegar við þurfum meira en nokkru sinni fyrr á umheiminum að halda.

Skiljanlega koma nú fram mótrök og benda á ömurlega framkomu breskra stjórnvalda í okkar garð og telja að þeirra hegðun réttlæti svipaða hegðun frá Íslendingum í þeirra garð.

Þessi röksemd er algerlega á viligötum. Annarsvegar tekur hún ekki raun-pólitík með í reikninginn (sem ósanngjarnt eins og það er leyfir svokallaðan double moral milli sterkra ríkja annars vegar og veikra hinsvegar) og hinsvegar lítur hún framhjá þeirri staðreynd að við berum hluta sektarinnar sjálf.

Bresk stjórnvöld sem stóðu veikum fótum og fengu allt í einu upp í hendurnar fréttir um að lítil eyja í atlandshafinu sem hefði grobbað sig af því árum saman að vera betri viðskiptamenn og verið að kaupa upp breska smásölu með skuldsettum yfirtökum væri nú annars vegar að lofa að verja fjármagnseigendur á heimamarkaði og hinsvegarfengu þeir staðfestar fréttir af stórfelldum fjármmagnsflutningum frá landinu.

Þegar haft er í huga að á bakvið þessar innistæður standa þúsundir einstaklinga með ævisparnaðinn sinn, sveitarfélög og líknarfélög margskonar þá er kannski ekki skrítið að bresk stjórnvöld hafi tekið ákvörðun sem í baksýnisspeglinum var ekki rétt en miðað við forsendurnar á þeim tíma voru það, sérstaklega vegna þess að þau vissu það að í skjóli stærðar sinnar þá kæmust þeir upp með það.

Ég efast ekki um að íslendingar myndu rísa upp til handa og fóta ef spilinu yrði snúið við. Ef þetta væri spurning um ævisparnað þinn og minn og peninga krabbameinsfélagsins. Þá myndum við líka kalla á aðgerðir og vilja fá peningana til baka.

Þegar allt kemur til alls þá er lífið þannig að maður verður að bera ábyrgð á gjörðum sínum. Og í þessu tilfelli bera íslensk stjórnvöld ábyrgð á vanrækslu sinni. Þau geta svo leitað réttar síns gegn þeim einstaklingum og félögum sem þeim mistókst að hafa eftirlit með.

Og þetta er líka hluti af stærri mynd. Við viljum vera hluti af alþjóðasamfélaginu. Og til þess að vera það þá verður maður að vera trúverðugur. Þegar maður hegðar sér eins og ribbaldi þá verður komið fram við mann eins og ribbalda.

Það eina sem þjóðir eiga í alþjóðasamskiptum, svo ég tali nú ekki um örríki eins og Ísland, er orðspor þeirra. Og það verðum við að verja, sérstaklega þegar það er líka hið rétt og ábyrga í stöðunni.

Auðvitað getur sú staða komið upp að við hreinlega getum ekki borgað þessar skuldbindingar. Að staða íslenska ríkissins, með uppsöfnuðum skuldum vegna hrunsins, verði þannig að ríkið geti ekki staðið við skuldbindingar sínar (og þetta er raunverulegur möguleiki) þá verðum við að endursemja við skuldunauta okkar. Ef að trúverðuleiki okkar er í lagi, ef við höfum sýnt ábyrga hegðun og orðsporið sem af okkur fer sé að við höfum staðfestlega staðið við okkar í lengstu lög, þá munum við eiga raunverulega möguleika að semja og halda stöðu okkar í alþjóðasamfélaginu - sem hluti af því en ekki útlagi.

Hvað varðar mögulega málsókn sem við höfum gefið frá okkur þá eru svona mál ekki eins og í einkamálum þar sem einn aðilinn kærir hinn og dómari úrskurðar. Báðir aðilar þurfa að vera sammála um málsóknina til þess að niðurstaðan sé bindandi. Annars væri þetta bara álit sem rétturinn myndi skila og slíkt myndi bara skilja deiluna eftir í lausu lofti. En á sama tíma hefðum við ekki aðgang að fjármagni, íslensk fyrirtæki byggju við minni tiltrú, krónan væri hluti af ótraustverðu hagkerfi og nágrannaþjóðir okkar væru ólíklegri en ella til þess að lána okkur ef á sama tíma við værum í málsókn gegn þeim.

Þegar allt er tekið saman þá hlýtur það að liggja í augum uppi að við verðum að semja um þetta mál en ekki hegða okkur eins þjóð sem neitar að bera ábyrgð á gjörðum sínum - og skapar sér þannig óvild vinaþjóða sinna og leggur grunninn að því að við endurtökum leikinn - því þannig er mannskepnan, þegar hún þarf ekki að bera ábyrgð á gjörðum sínum þá endurtekur hún leikinn.

Þorleifur Örn