Alþjóðlegt fjármálakerfi
Mitt í storminum um Icesave samninginn gleymist að hér er ekki aðeins verið að ræða um einn samning heldur er Þessi samningur aðeins einn hluti af miklu stærra púsli.
Þær ákvarðanir sem teknar verða á næstu vikum og mánuðum munu leggja grunninn að því samfélagi sem hér mun verða til lengri tíma.
Eina leiðin til þess að á Íslandi verði almennileg, nútímaleg lífskilyrði er annars vegar að íslenska ríkið geti staðið undir grunnþjónustu, menntun og menningarlífi og hinsvegar að á Íslandi verði að finna blómlegt atvinnulíf.
Hvernig fara Íslendingar að því að leggja þennan grundvöll nú þegar svona er ástatt?
Augljóslega þurfum við að halda stöðu sem lýðræðislegu, opnu og ábyrgu landi í alþjóðlegu samhengi. Við þurfum að standa við skuldbindingar okkar (jafnvel þær sem okkur hugnast ekki eða okkur finnst ekki vera okkur að kenna) enda er það bæði forsenda þess að við verðum áfram hluti af alþjóðsamfélaginu.
En samtímis verðum við að passa okkur á því að einblýna ekki svo á vandamálin að við missum yfirsýnina yfir möguleikana sem eru í stöðunni og ekki síður, að velta fyrir okkur hvernig samfélag viljum/verðum að byggja til þess að á Íslandi verði lífvænlegt til framtíðar.
Hvernig förum við að því? Hvernig á Ísland að geta annars vegar greitt af alþjóðlegum lánum sínum og hins vegar geti boðið þegnum sínum upp á grundvöll til menntunar og starfa að menntun lokinni?
Eina lausnin er sú að á Íslandi verður til frambúðar alþjóðleg starfsemi í einhverju formi.
Og með því á ég ekki við grunnframleiðsla eins og ál og netþjónabú, slíkt verður að vera með en ekki aðalatriði, heldur hitt, að hér verður að verða til lifandi alþjóðleg starfsemi að nýju.
Á Íslandi eru nú þúsundir manna og kvenna sem eru því vön að starfa í alþjóðlegu fjármálaumhverfi. Flest þetta fólk sinnti vinnunni sinni samviskusamlega og af natni. Og ef ekki hefði verið fyrir eitrað sambland alþjóðlegrar kreppu, krosseignatenglsa, mögulegs glæpsamlegs athæfis og stjórnsýslulegrar vanþekkingar þá gæti staðan á landinu verið allt önnur en hún er.
Hrunið á Íslandi er nefnilega ekki vísbending um hversu skelfilegt alþjóðlegt fjármálakerfi er heldur hitt, hversu mikilvægt er að í slíku kerfi séu reglurnar skýrar, eftirlitið mikið og starfsferlar gegnsæjir.
Íslandi hafði komið sér í öfundsverða stöðu að mörgu leyti. Hámenntað samfélag með vel launuðu starfsfólki í góðu velferðarkerfi byggðu á sterku menntakerfi. Og hafði alþjóðlega starfsemi sem veitti því gjaldeyri og starfsmöguleika.
Þessu skulum við ekki gleymar við byggjum upp að nýju.
Fólkið sem starfaði í alþjóðlegu samhengi hættir ekki allt í einu að vera metnaðarfullt og alþjóðlegt og sættir sig við að vinna í störfum sem það hefur hvorki menntun né þekkingu til þess að sinna ss. í fiski eða matvælaframleiðslu.
Eini möguleikinn til þess að halda þessu fólki er að hér verði alþjóðleg starfsemi að ósköpunum loknum.
Og svo vill til að það er líka eini möguleikinn til þess að hér verði blómlegt samfélag þegar fram í sækir því að með ónýta mynt og veikan heimamarkað þá eru litlar líkur að Ísland geti staðið undir alþjóðlegum skuldbindingum sínum.
Það ætti því að vera algert forgangsatriði að þessi mál séu skoðuðu í heildarsamhenginu, með heildarhagsmuni þjóðarinnar til lengri tíma fyrir augum.
Ef unnið verður út frá þeirri heift, þjóðernishyggju, misskilinni réttlætiskennd og skammsýni sem einkennir mikið af umræðunni á Íslandi í dag þá er hætt við að eftir standi samfélag sem hrekur þá einstaklinga frá sem mikilvægastir eru fyrir framtíð landsins og uppbyggingu.
mánudagur, júní 22, 2009
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli