miðvikudagur, september 07, 2005

HANN ER FARINN!!!!

Það var mikið.

Nú byrjar maskína Sjálfstæðismanna að milja um mikilfengleika hans og að fylla himinloftin áru hans og ljósi (þó svo að hann hafi gert nóg af því sjálfur meðan hann sat!).

Kannski væri ráð að fara að hugmynd Andra Snæs og útbúa skrín fyrir kallinn undir Keili...

Þorleifur
Góðan daginn

Þetta er greinin sem birt var eftir mig í Fréttablaðinu á mánudaginn. SVo hef ég verið að skoða heimssíðurnar og það virðist vera sem svipaðan lestur megi finna á síðum ekki ómerkari blaða en NYtimes og WP.

hér er greinin:

Samfélag á hamfaratímum

Það eru skelfilegar fréttir sem berast okkur frá Bandaríkjunum þessa dagana. New Orleans er á kafi, lík fljóta um í vatninu, þúsundir manna húka á húsþökum í veikri von um björgun áður en hungrið og þorstinn ber þau ofurliði, hætta er á farsóttum og uppbyggingarstarfið er talið geta tekið mánuði.

En það sem kannski slær mann mest er að fylgjast með því hvernig samfélagið virðist hafa hrunið til grunna.

Gengi vafra um göturnar myrðandi og nauðgandi, rænandi og ruplandi. Skotvopnabúðir hafa verið tæmdar og vopnin notuð til þess að ýta undir óöldina sem nú ríkir.

Fréttir berast okkur úr tímabundnum flóttamannabúðum sem settar voru upp í Superdome, íþróttaleikvangi í borginni, og í ráðstefnumiðstöð borgarinnar af kerfisbundnum nauðgunum og eignapptöku, misþyrmingum og hungursneiðum.

Hvað gerðist? Hvernig getur það verið að samfélagið hafi svo fljótt leysts upp og óöld skapast. Úr hverju eru innviðir samfélagsins ofnir fyrst þeir rifna svo fljótt við mótlæti?

Nú hafa margar borgir Evrópu orðið fyrir gífurlegum flóðum, skemmst er að minnast flóðanna í Prag sem flæddu miðborgina algerlega. Engar fréttir bárust okkur þaðan að gripdeildum og almennu niðurbroti samfélagsins. Hitabylgjan í fyrra (skammarlega) dró þúsundir manna og kvenna til dauða í Evrópu í fyrra án þess að allt færi á annan endann.

Í hverju liggur munurinn?

Gæti hann legið í því að í Evrópu er samfélagið byggt upp á grunni velferðarkerfis þar sem þeir sem ekki standa í efstu stigum samfélagsins hafa engu að síður til hnífs og skeiðar, að hinir minna velmegandi búa við öryggi sem gerir það að verkum að þeir hafa ekki misstu trúnna á það að þeir séu hluti af samfélagi manna.

Í Bandaríkjunum er stór hluti samfélagsins skilinn eftir án heilsutrygginga, framfærsluöryggis, lýfeyristryggina og kannski það sem mestu máli skiptir...mannlegrar virðingu.

Af hverju ætti það fólk að finnast það vera hluti af samfélaginu? Hvaða þegnlegu skildu finnur fólkið sem sveltur á húsþökum New Orleans. Af hverju ætti það ekki bara að taka það sem því hefur aldrei verið boðið uppá.

Hamfarir draga fram í dagsljósið hið sanna ástand. Við þannig aðstæður er ekki hægt að fela sig handa skyggða rúða fjármálastofnana og tölum um hagfræði, það sem telur er hvernig samfélagið bregst við, og á þeim mælikvarða þá fær Bandaríska samfélagið falleinkunn.

Þetta ættu ungir frjálshyggjufrömuðir kannski að hugsa til áður en þeir opna munninn næst um að leggja beri niður hið Evrópska velferðarkerfi

Þorleifur Örn Arnarsson

mánudagur, september 05, 2005

Góðan daginn

Stutt og laggott.

Þá er ævintýrið að hefjast, ég er kominn til Köpen þar sem ég bíð eftir flugvél til Berlínar.

Þetta er ákveðin óvissuferð þar sem ég veit ekki hvað tekur við, en hvenær gerir maður það???

Það birtist grein eftir mig í miðjuopnu mánudagsblaðs Fréttablaðsins þar sem ég er að fjalla um ástandið í New Orleans þar sem samfélagið virðist hafa hrunið til grunna og tel ég það vísbendingu um hvernig misskiptingin í BNA fer með samfélagið.

Annars er ég á því að flugvöllurinn eigi að fara úr vatnsmýrinni og flytja hann til keflavíkur.

Ég vona að veðrið verði gott við ykkur og hér getið þið fylgst með því sem fyrir augu ber í berlín.

Þorleifur

sunnudagur, september 04, 2005

Góðan daginn

Jæja, síðasti dagurinn í bili á Íslandi.

Ég get ekki sagt að ég muni sakna landsins mikið. Mér leiðist í stórum dráttum umræðan hér sem einkennist af yfirborðsmennsku, fáfræði og tækifærismennsku. Og það er í þessu andrúmslofti sem orðræðan sem hér þrífst getur gert svo.

Hvergi í Evrópu er í gangi alvöru umræða um frjálshyggju...nema hér
Hvergi í Evrópu er í gangi alvöru umræða um að ríkið sé vont... nema hér
Hvergi í Evrópu líta menn upp til Bandaríkjanna...nema hér
Hvergi í Evrópu líta menn til hægri afla Bandaríkjanna með lotningu... nema hér
Hvergi í Evrópu er talið í lagi að selja grunnþjónustu til einkaaðila...nema hér

Og svo mætti lengi telja. Reyndar er það sem ég er að tala um hér að ofan ekki alveg rétt, auðvitað eru litlir hópar öfgamanna sem berja sér á bumbur um alla Evrópu en þeir eiga ekki greiðan aðgang að hinni opinberu umræðu. Svo mætti auðvitað telja gegn rökum mínum með því að benda á að frjálshyggja (sem reyndar er hógværari hægrimennska) þrífst í Austur Evrópu og það er alveg rétt. En á sama tíma má ekki gleyma því að það eru ríki sem nýlega eru búin að brjóta af sér hlekki nýlenduherrana í austri og eru rétt í þessu að byggja upp samfélög sín. Í þeim löndum sem það hefur gengið hvað best þá hafa menn verið fljótir að losa sig við öfgamenn peningahyggjunnar og kjósa sér valdhafa sem bera í raun umhyggju fyrir almenningi landa sinna.

Kannski væri reyndar best að tala um okkur í sömu andrá eins og austurtjaldslöndin þar sem þau hafa enn ekki fundið sinn eigin tón, sinn eigin stíl, sína eigin menningu, finna jafnvægi að nýju. En þau munu gera það. Og það sama á við hér, við eigum eftir að finna okkar eigin rödd. Hættan er bara sú að allt gildismat verði komið út um gluggan áður en það verður.

Að áður en við vöknum upp úr lífsgæðafylleríinu þá verðum við búin að eyðileggja það sem setur okkur á stall með hinum norðurlöndunum sem fyrirmyndarþjóðir meðal þjóða.

Kannski mætti telja þetta allt svartsýnistal hjá mér, kannski er ég bara öfgafullur svartsýnisseggur sem ekki getur trúað því að markaðurinn leysi öll okkar vandamál og allt verði í lagi ef ríkið bara hættir að skipta sér að peningafólkinu. Og það væri alveg rétt, ég trúi því ekki að markaðurinn muni leysa öll okkar vandamál, ég trúi því ekki að fjármagnið vakni upp einn daginn og setji mannlegt samfélag framar eigin hagsmunum, ég trúi því ekki að peningar og gróði skipti meira máli en manneskjur, ég trúi því ekki að hagvöxtur sé mælistika á framfarir, ég trúi því ekki að með því að einstaklingsgera allar manneskjur þá myndist betra samfélag. Það sem við stöndum eftir með þá eru fullt af einmana og hræddum einstaklingum sem gera hvað þeir geta til þess að uppfylla hlutverk sitt í samkeppninni.

Hef ég rök fyrir máli mínu?

Lítið á það sem er að gerast í New Orleans. Þar flugu hinir ríku burt í þyrlum og einkabátum en hinir fátæku urðu eftir. Hinu ríku var bjargað fyrst en hinir fátæku sultu á húsþökum veifandi hvítum fánum. Hvítir fánar hafa í sögunni verið tákn um vopnahlé, og það er aðeins hægt að tala um vopnahlé ef fólk upplifir að það sé í stríði. Og fólkið á húsþökunum er í stríði, það er í stríði fyrir eftirtekt í samfélagi hinna betur stæðu.

Vopnuð gengi vafra um göturnar í leit að mat og hlutdeild í ríkidóminum sem alltaf hafði verið þeim utan seilingar. Það eru ekki næturklúbbaeigendurinir sem skjóta og nauðga, nei, það er fólkið sem ekki á til hnífs og skeiðar sem upplifir að þau hafi verið skilin eftir til að deyja, af samfélaginu.

Er það samfélag? Eða kannski einstaklingsfélag?

Hvað viljum við?

Við næsta snjóflóð þá verði útvegsmanninum og sjálfstæðisfrömuðnum á staðnum bjargað fyrst, að þeir sem efni hafa á því að borga fyrir björgunina fá hana, hinir verði bara að bíða?

Eða er kannski betra að allir sem vettlingi geta valdið komi saman og vinni saman til þess að hjálpast að, er það ekki það sem kalla mætti samfélag?

Það sem hugmyndafræðilega er í gangi hér á landi er í raun afturför. Það er verið að reyna að snúa til baka þúsunda ára þróun fyrir nánari samskiptum manna á millum. Það veiddist betur ef veiðimennirnir í þorpinu unnu saman, það byggist betur ef allir leggja sitt af mörkum, það líður öllum betur ef þeir eru hluta af, ekki utan við. Og það er kjarni málsins. Við erum samfélag og við eigum að haga okkur eins og samfélag.
Það er öllum til hagsbóta.

Þorleifur