Góðan daginn
Jæja, síðasti dagurinn í bili á Íslandi.
Ég get ekki sagt að ég muni sakna landsins mikið. Mér leiðist í stórum dráttum umræðan hér sem einkennist af yfirborðsmennsku, fáfræði og tækifærismennsku. Og það er í þessu andrúmslofti sem orðræðan sem hér þrífst getur gert svo.
Hvergi í Evrópu er í gangi alvöru umræða um frjálshyggju...nema hér
Hvergi í Evrópu er í gangi alvöru umræða um að ríkið sé vont... nema hér
Hvergi í Evrópu líta menn upp til Bandaríkjanna...nema hér
Hvergi í Evrópu líta menn til hægri afla Bandaríkjanna með lotningu... nema hér
Hvergi í Evrópu er talið í lagi að selja grunnþjónustu til einkaaðila...nema hér
Og svo mætti lengi telja. Reyndar er það sem ég er að tala um hér að ofan ekki alveg rétt, auðvitað eru litlir hópar öfgamanna sem berja sér á bumbur um alla Evrópu en þeir eiga ekki greiðan aðgang að hinni opinberu umræðu. Svo mætti auðvitað telja gegn rökum mínum með því að benda á að frjálshyggja (sem reyndar er hógværari hægrimennska) þrífst í Austur Evrópu og það er alveg rétt. En á sama tíma má ekki gleyma því að það eru ríki sem nýlega eru búin að brjóta af sér hlekki nýlenduherrana í austri og eru rétt í þessu að byggja upp samfélög sín. Í þeim löndum sem það hefur gengið hvað best þá hafa menn verið fljótir að losa sig við öfgamenn peningahyggjunnar og kjósa sér valdhafa sem bera í raun umhyggju fyrir almenningi landa sinna.
Kannski væri reyndar best að tala um okkur í sömu andrá eins og austurtjaldslöndin þar sem þau hafa enn ekki fundið sinn eigin tón, sinn eigin stíl, sína eigin menningu, finna jafnvægi að nýju. En þau munu gera það. Og það sama á við hér, við eigum eftir að finna okkar eigin rödd. Hættan er bara sú að allt gildismat verði komið út um gluggan áður en það verður.
Að áður en við vöknum upp úr lífsgæðafylleríinu þá verðum við búin að eyðileggja það sem setur okkur á stall með hinum norðurlöndunum sem fyrirmyndarþjóðir meðal þjóða.
Kannski mætti telja þetta allt svartsýnistal hjá mér, kannski er ég bara öfgafullur svartsýnisseggur sem ekki getur trúað því að markaðurinn leysi öll okkar vandamál og allt verði í lagi ef ríkið bara hættir að skipta sér að peningafólkinu. Og það væri alveg rétt, ég trúi því ekki að markaðurinn muni leysa öll okkar vandamál, ég trúi því ekki að fjármagnið vakni upp einn daginn og setji mannlegt samfélag framar eigin hagsmunum, ég trúi því ekki að peningar og gróði skipti meira máli en manneskjur, ég trúi því ekki að hagvöxtur sé mælistika á framfarir, ég trúi því ekki að með því að einstaklingsgera allar manneskjur þá myndist betra samfélag. Það sem við stöndum eftir með þá eru fullt af einmana og hræddum einstaklingum sem gera hvað þeir geta til þess að uppfylla hlutverk sitt í samkeppninni.
Hef ég rök fyrir máli mínu?
Lítið á það sem er að gerast í New Orleans. Þar flugu hinir ríku burt í þyrlum og einkabátum en hinir fátæku urðu eftir. Hinu ríku var bjargað fyrst en hinir fátæku sultu á húsþökum veifandi hvítum fánum. Hvítir fánar hafa í sögunni verið tákn um vopnahlé, og það er aðeins hægt að tala um vopnahlé ef fólk upplifir að það sé í stríði. Og fólkið á húsþökunum er í stríði, það er í stríði fyrir eftirtekt í samfélagi hinna betur stæðu.
Vopnuð gengi vafra um göturnar í leit að mat og hlutdeild í ríkidóminum sem alltaf hafði verið þeim utan seilingar. Það eru ekki næturklúbbaeigendurinir sem skjóta og nauðga, nei, það er fólkið sem ekki á til hnífs og skeiðar sem upplifir að þau hafi verið skilin eftir til að deyja, af samfélaginu.
Er það samfélag? Eða kannski einstaklingsfélag?
Hvað viljum við?
Við næsta snjóflóð þá verði útvegsmanninum og sjálfstæðisfrömuðnum á staðnum bjargað fyrst, að þeir sem efni hafa á því að borga fyrir björgunina fá hana, hinir verði bara að bíða?
Eða er kannski betra að allir sem vettlingi geta valdið komi saman og vinni saman til þess að hjálpast að, er það ekki það sem kalla mætti samfélag?
Það sem hugmyndafræðilega er í gangi hér á landi er í raun afturför. Það er verið að reyna að snúa til baka þúsunda ára þróun fyrir nánari samskiptum manna á millum. Það veiddist betur ef veiðimennirnir í þorpinu unnu saman, það byggist betur ef allir leggja sitt af mörkum, það líður öllum betur ef þeir eru hluta af, ekki utan við. Og það er kjarni málsins. Við erum samfélag og við eigum að haga okkur eins og samfélag.
Það er öllum til hagsbóta.
Þorleifur
sunnudagur, september 04, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli