miðvikudagur, desember 27, 2006

Góða kvöldið og gleðilegar hátíðir

Það er gaman að vera hér heima á jólum að nýju.

Stressið og lætin, partýin og djöfulgangurinn, þetta er æðislegt.

Það held ég að ekki finnist þjóð á byggðu bóli sem finnst skemmtilegra að hlaupa um og djöflast eins og sú sem þetta land byggir.

Ætli það sé ekki hluti af myrkrinu, að þurfa að hlaupa til þess að sanna það á eigin líkama að við séum til, að við séum raunveruleg, að svitinn sé lífsmerki.

Það er ein leið til þess að lifa geri ég ráð fyrir.

Var annars í Þjóðleikhúsinu í gær, á frumsýningu á Bakkynjunum. Mikil og stór sýning og tilturulega leiðinleg. Það er erfitt að eiga við Grikkina (hér bæði í skriflegum og uppsetningarlegum skilningi). Harmleikirnir hafa þann ókost að þeir eru ekki dramatískir. Það er að þetta eru frásagnarleikrit frekar en að um dramatískar situatíónir sé að ræða.

Þetta gerir vissulega nútíma áhorfenda erfitt fyrir, sem að post dramatíkinni undanskilinni, hefur vanist því að honum sé sagðar dramatískar sögur. Þessu á hann að venjast í kvikmyndum (sem nær einvörðungu keyra á því formi) sem og í þekktustu leikverkum. Þannig þegar hinn ódramatíski harmleikur er borinn á borð fyrir hann þá verða hlutirnir erfiðir.

Að mínu viti þá er það því áskorun sú sem hver leikstjóri stendur frammi fyrir, sem á Grikkjunum vill spreyta sig, að finna leið til þess að gefa frásagnarforminu leikrænt form.

Í uppsetningunni í gær var þetta ekki reynt (ef frá eru skilin tvær situatíónir). Þess í stað var sagað sögðu í gegnum myndir sem vissulega voru fallegar margar hverjar en mitt í þessum myndum stóðu leikarar og fóru með langa texta.

Myndir á sviði búa þeim ókosti yfir að þær lifa ekkert sérstaklega lengi, sérstaklega þegar þær hafa ekki þeim mun sterkari innihaldslega tengingu. Og þegar maður er búinn að "meðtaka" myndina þá fer manni fljótt að leiðast.

Mér fannst að í gær þá væru myndirnar að miklu leyti ótengdar framvindu verksins, þannig að þegar augun voru búin að venjast þeim þá var lítið eftir annað en að bíða eftir næstu mynd.

Þetta gerði einnig skilning á verkinu erfiðan, sérstaklega þar sem þetta er með flóknari harmleikjum. Ég skildi til dæmis aldrei að Bakkynjurnar sem á sviðinu dönsuðu fallega fram eftir verk, voru ekki hinar trylltu Bakkynjur sem voru við það að leggja Þebuborg í rúst heldur voru þær hinar Asísku Bakkynjur sem guðinum fylgdu. Þetta sögðu þær víst einhvertímann, skilst mér, en þar sem þær töluðu í kór, með grímur og sungu þá var ekki einhlýtt að áhorfandinn næði því án frekari útskýringa (allaveganna hafð ég ekki hugmynd um það og glímdi við það fram eftir verki að reyna að skilja hvað þær voru að gera á sviðinu).

Leikarar stóðu sig flestir með ágætum. Reyndar var raddbeitingu ábótavant sem að mínu viti er að verða stórvandamál í íslensku leikhúsi (þarf leiklistarskólinn að leggja meiri áherslu á þetta fag?). Það er gaman að sjá Stefán Hall sem ég trúi að eigi eftir að gera stóra hluti á sviðinu þegar fram líða stundir.

En mér fannst heldur einhæft verkefnið sem leikstjórinn lagði fyrir leikara sína. Það var samnefnari að leikarar væru að hrista einhvern skankann (yfirleitt hægri löppina), klóra sér eða annað svipað á meðan þeir fluttu texta sína. Þetta er útaffyrir sig ekki alvitlaust þegar um ódramatískt verk er að ræða, leikari sem stendur á sviðinu og þarf að flytja langa texta þarf verkefni til þess að takast á við situatíónleysið eins og hér var um að ræða. En það þarf að hafa innihaldslega merkingu, það er, áhorfandinn verður að geta tengt á einhverju leveli við það hvað í persónunni kallar á slíkar hreyfingar. Það er ekki nóg að þeir séu að hrista sig. Og við það bætist að þetta gerir fókus leikarans innhverfan (sem ég hef spurnir af að hafi verið tilgangur leikstjórans með þessu) sem er afar slæmt á stóru sviði.

Þegar áhorfandi þarf að hlusta á langa mónólóga sem segja frá framvindu þá þarf að beita tólum til þess að leikarinn haldi athygli hans þannig að erfiður textinn sé meðtekinn og meltur jafnóðum. Innhverfa hjálpar ekki til.

Þetta er kannski að verða óþarflega fræðilegt en ég tel að svona erfitt verk þurfi það, að maður skilgreini af hverju maður sat tilturulega ósnertur eftir þvílíkt sjónarspil.

Ekki má hjá líðast að segja frá því að inn á milli voru frábær móment þar sem maður var algerlega með því sem var að gerast á sviðinu, þar sem maður varð spenntur og örögin skiptu máli, en því miður voru þau of fá til þess að heildarupplifunin yrði sterk.

Myndirnir voru sem draumar en studdu ekki frásögnin sem fyrir vikið varð óskýr og þegar uppi stendur þá er ég ekki mikið nær um þær stóru spurningar sem leikstjórinn lofaði mér í leikskránni.

Þorleifur Örn Arnarsson