fimmtudagur, febrúar 21, 2008

Góða kvöldið

Það er að birta yfir danmörku...

Sjáum hvort að prinsinn nái ekki að kíkja fram úr skýjunum :)

Bestu kv.

Þorleifur

þriðjudagur, febrúar 19, 2008

Góða kvöldið

Lítið að gerast í höfuðborg öxulveldisins í kvöld.

Stutt æfing í dag, ég er um það bil að missa perspektív á þennan Hamlet. Get eiginlega ekki beðið eftir því að koma þessu af kortinu og geta farið að einbeita mér að einhverju öðru.

Að vinna 5 tíma sýningu niður í einn klukkutíma, þar sem nemar, niðurbrotnir og sálfreðnir eftir 3 ára leiklistarnám þurfa að leika upp fyrir sig og það allt án budget og á 4 vikum hefur tekið hverja einustu orkufrumu sem ég megna að grafa upp í líkama mínum. Enda er hann við það að gefa sig.

En svo verður í kjölfarið tekið gott break, það er, ég byrja að undirbúa mig fyrir næsta verkefni sem er Gegen Die Wand sem ég set upp í Schwerin í kjölfarið.

Fréttablaðið birti grein um þetta í gær þar sem áherslan var lögð á nýnasista aspekt Schwerin. Vissulega er það stór hluti af samfélagslegum veruleika í A Þýskalandi, að ungir menn snúast til nasisma vegna skorts á öðrum úrræðum, en það verður ekki auðvelt að koma þeirri themu að í verkinu án þess að bendifingurinn fari á loft.

Eftir laugardaginn hef ég tíma til þess að hugleiða hvort og þá hvernig ég fer að því.

En þangað til þá er bara að þreyja þorrann, reyna að berjast hugrekki í leikarana og keyra í gegn á þeirri litlu orku sem eftir er í líkamaræksninu.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín

mánudagur, febrúar 18, 2008

Góða kvöldið

Hamlet rúllar áfram, hægt og bítandi. Það er skrýtið að sitja allt í einu uppi með auka viku, finnst maður allt í einu hafa allan tímann í heimunum. Er því undarlega rólegur, en veit að það á ekki eftir að haldast þannig lengi.

En verð að viðurkenna að síðan úthlutun Leiklistarráðs kom þá hef ég verið verulega hugsi yfir leikhúsinu og framtíð minni þar.

Á maður yfir höfuð að nenna þessu?

Ef maður setur á svið sýningar ár eftir ár fyrir litla sem enga styrki, vinnur af einurð og alvöru og setur svo loks upp verk (fyrir styrk þá lítill væri) sem virtist ná til fólks, bæði hvað varðar aðsókn, umfjöllun og sérstaklega viðtökur þá hafði maður að vissu leyti búist við því að horft væri til slíks.

Nú ef það er ekki polísía að byggja upp heldur vinna bara svona útfrá því sem nefndarmönnum "finnst" á hverjum tíma þá verður maður vissulega að setjast niður og hugleiða hvort maður vilji vera undir slíkt settur. Ef fyrri verk eru ekki metin þá er engin tilgangur í því að vera að þræla þetta.

Auðvitað gæti maður bara snúið sér að því að setja upp söngleiki eða annað leiklistartengt sem byggt er á gróðaforsendu , en það var ekki þess vegna sem ég fór út í þetta.

Vissulega hef ég aðra möguleika hér úti í Þýsklandi, get unnið hér og látið Ísland vera, en það er alltaf einhver taug sem kallar mann heim, að tala um - og við sitt eigið samfélag.

Veit það ekki...

En leikhúsið er ekki það eina í heiminum sem skiptir máli, það er svo margt spennandi, skapandi, áhugavert og fræðandi hægt að gera. Kannski maður eigi bara að víkka sjóndeildarhringinn.

-----------

Hildarleikurinn í Reykvískum stjórnmálum að baki í bili og menn geta þá snúið sér að öðru, enda hefur það tíðkast á Íslandi að gleyma svonalöguðu. Við erum ekki fólk sem nennir að hanga í fortíðinni, nennum ekki að röfla til lengdar heldur öskra á fólk þegar það á við og snúa sér svo að öðru.

Get ekki sagt að ég sé alltaf sáttur við þetta en kannski er þetta ekki verri leið en einhver önnur.

Svo er auðvitað spurning hvort að þetta hafi einhver áhrif þegar að næstu kosningum kemur, eiginlega vonar maður að svo sé. Ef ekki frá þeim flokkum sem að málinu komu, þá frá fólkinu í borginni og landinu.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín