laugardagur, janúar 15, 2005

Góða kvöldið

ÉG hef verið í vangaveltum um gagnrýni undanfarið.

Þessar hugleiðingar komu upp bæði í kjölfar umræðunnar um jólasýningu Þjóðleikhússins en einnig skaut þeim niður við það að hafa nú verið innan um íslenskt leikhúsfólk um nokkra hríð (Eða síðan ég kom heim).

Umræðunni ber því að skipta í þrennt, umræðunni innan leikhússins, umræðunni utan leikhússins (faglega) og svo þjóðfélagslega umræðan almennt. En byrjum á leikhúsinu.

Það sem einkennir og hefur einkennt íslenska leikhúsumræðu um allt of langt skeið eru afar misjafnir gagnrýnendur. Allt of mikið af því fólki sem skrifar í íslenska fjölmiðla um leikhúsið hafa afar takmarkað vit á leikhúsinu sem formi. Það er oft vel að sér í bókmenntum eða vel upplýst fólk, en það hefur alltof oft lítið vit á leikhúsi sem listformi.

Ég held að vandamálið við þetta liggi hjá miðlunum sjálfum frekar en fólkinu sem skrifar í þá. Og vandamálið á rætur sínar að rekja til krafanna sem gert er á gagnrýnendurna. Það liggur nefnilega ekki á hreinu með hvaða formerkjum þetta fólk er að skrifa í miðlana. Er það þar sem "einn af áhorfendunum"? Eða er það þar sem fagfólk sem lýsir faglegu áliti í dómum sínum?

Ég upplifi á því sem sagt hefur verið í þessari umræðu að margir af gagnrýnendum líti á sig ekki sem sérlegt fagfólk um leiklist heldur skrifi það frá sjónarhóli hins almenna áhorfenda. Og það er það sem ber að setja spurningamerki við. Ef gagnrýnendur eru bara einhver sem er að lýsa skoðun sinni á almannavettvangi þá ætti þessi dagskráliður ekki að heita gagn-rýni, heldur eitthvað allt annað. Og þau formerki ættu þá að vera skýr. Að viðkomandi penni sé ekki sérfróður um leikhús og sé því að lýsa því sem best hann getur því sem fyrir augun bar.

Kannski eru margir sem eru þessu ósammála, en mér finnst leikhúsfólk eiga það skilið að í starfi gagnrýnenda séu fólk sem hefur meira en almenna þekkingu á því listformi sem það er að skrifa um opinberlega. Ástæðan er sú að ekki verður hjá því litið að fólkið sem les þetta dregur þá ályktun, komi annað ekki fram, að þarna sé um fagfólk að ræða.

Það er alltof sjaldan að maður finni í dómum hérlendis að viðkomandi byggi gagnrýni sína á því sem var raunverulega að gerast í viðkomandi sýningu. Ekki er gengið út frá hugmyndunum sem fram koma í leikmyndinni, leikstílnum, heildarhugsun leikstjórnarinnar, uppbyggingu verksins og því er sýningin ekki dæmt út frá því sem hún var að reyna að segja, reyna að koma á framfæri, hvernig hugmyndunum var fylgt úr garði, hvort hugmyndirnar hafi yfir höfuð komið úr verkinu og hverig þær hafi svo komist til skila yfir til áhorfendans.

ég geri mér grein fyrir því að tíminn er naumur sem gagnrýnendur hafa til skrifanna og því neyðist þeir til þess að skrifa stóran hluta gagnrýninnar fyrirfram eða úr þeirri þekkingu sem viðkomandi bjó yfir um verkið áður en á sýninguna var komið. Og er það annað sem ekki er endilega hægt að kenna gagnrýnandanum um, heldur miðlinum sem birtir greinina.

Og ég býst við því að tímaskorturinn sé líka ástæða þess að greinarnar eru fullar af kommentum um vinnu leikaranna eins og "góður að vanda", "var fyndin/n" og uppáhaldið mitt, "hún samsvaraði sér vel við stúlkuna sem hún lék" (viðkomandi persóna var vangefin). Hvað segir þetta okkur? Hversu fróðari erum við um frammistöðu viðkomandi með kommentum eins og þessum? Að vera fyndinn í farsa segja ekkert um frammistöðu viðkomandi leikara. Hvernig hann fór með rulluna sjálfa og vann með það sem hlutverkið bauð uppá, það eru upplýsandi gagnrýni...

En auðvitað eru svona dæmi erfið án þess að taka ákveðin dæmi. Það ætla ég að spara mér í bili og kemur þar til sú staðreynd að vel gæti verið að viðkomandi manneskja komi á næstu sýningu hjá mér og beri með í farteskinu þung orð mín. Því eftir allt þá erum við nú mannleg...

En þarna kem ég að umræðunni inn í leikhúsunum.

Auðvitað hefur vald gagnrýnanda áhrif á umræðuna innan leikhússins. Eða væri jafnvel betra að tala um valdið almennt hafi mikil áhrif á umræðuna, jafnt í samfélaginu sem og í leikhúsinu.

Ísland er svo lítið að ekki er hægt að líta hjá því að taki maður upp á því að vera sérstaklega gagnrýninn þá hafi það áhrif á persónuleg samskipti manns innan leikhússheimsins. Gagnrýni maður leikstjóra fyrir vinnu sína þá er ekki ólíklegt að innan skamms standi maður frammi fyrir því að þurfa að vinna með viðkomandi eða hitt, sem er alvarlegra, fái ekki að vinna með viðkomandi vegna ummæla sinna. Smæðin er þarna alvarlegt vandamál.

Gott leikhús þrýfst ekki án málefnalegrar umræðu og gagnrýni en þegar um svo fáa einstaklinga er að ræða þá standa persónuleg sambönd í vegi fyrir því. Og virkar þetta í báðar áttir. Bæði til hróss og lasta listrænu starfi þeirra sem um ræðir.

Því er það svoldið stemmningin hér að hegða sér vel. Vera ekki að gagnrýna og nöldra stöðugt. Leikhúsið hér sé gott og það þurfi ekki alltaf að vera að nöldra yfir því. En aftur, ef enginn er að fetta fingur fram í íslenskt leikhús, ef sjálfumgleðinni er leyft að þrífast þá er ekki bjart yfir framtíð íslensks leikhúss.

Mér finnst það betri kostur, þó það geti kostað mann, að vera á tánum og segja skoðun mína á leikhúsinu. Að byggja upp innra með mér draumasýnina yfir því hvernig ég vilji sjá leikhúsið og vera þeirri sýn trúr. Það þýðir ekki að ég trúi því að ég sé allra manna best til þess fallinn, ég er það líklega ekki, en ég reyni mitt besta til þess að vera sjálfum mér samkvæmur, burtséð frá afleiðingunum fyrir mig og óttann sem þær geta grafði í huga minn.

Góðar stundir
Bar 22
Þorleifur Örn Arnarsson

Ps: Ég mun svo á betri tíma skrifa meira um gagnrýni og gagnrýnisleysið í íslensku samfélagið, þetta er orðið ágætt...
Góða kvöldið

Stutt viðbót síðla kvölds...

Ég get ekki annað eftir að hafa hlýtt á orð Hildar Sigurðardóttur í Íslandi í dag en að hrósa henni fyrir hugrekkið. Það er aldrei auðvelt að koma fram og tala opinberlega um mál sem þetta.

Heimilsofbeldi er sérstaklega erfitt mál þar sem því fylgir því mikil skömm. Upplifun þolenda er oftar en ekki að ofbeldið sé sér að kenna og því er það afar erfitt að koma fram. Sérstaklega þegar framkoma hins opinbera er allt of oft fyrirlitning, nðurlæging, vantrú eða hreint og beint ásakanir um ýkjur og lygar.

Bravó Hildur, ég er með þér!

Megi fordæmi þitt verða öðrum þolendum fordæmi að komast undan vítahringi ofbeldis og niðurlægingar. Og megi samfélagið læra af sögu þinni.

Og reka helvítis dómarann á reykjanesi!!!

Þorleifur

föstudagur, janúar 14, 2005

Góða kvöldið

Þessa dagana er ég að lesa bókina "After the Empire". Bókin, eins og titillinn gefur til kynna, þá er umfjöllunarefni bókarinnar yfirvofandi fall BAndaríkjanna af stalli sínum.

Bókin er skrifuð af frösnkum sagn- og talnafræðingi sem spáði fyrir um fall Sovétríkjanna 1975. Vissulega var hlegið að honum á þeim tíma þangað til kom í ljós að hann hafði rétt fyrir sér en þá var honum hampað sem einum fremsta fræðimanni frakka.

Bók hans byrjar á því að setja út á kenningar Huntingtons úr bók hans, "Clash of civilatations" sem í stuttu máli fjalla um það að í stað trúarstríða fyrri tíma búum við nú á tímum bardaga milli meningarheima. Eins og þeir sem lesið hafa þetta blogg þá er það kenning sem ég er afar hrifinn af og finnst hafa einkennt undanfarin átök, þá sérstaklega í mið-austurlöndum. Höfundurinn franski (sem ég mun edita nafni hér inn þegar ég fer heim) heldur því aftur á móti fram að þetta hafi ekkert með þessa afmörkuðu menningarheima að gera. Málið snúist um framþróun mannkyns.

Hann heldur því fram að með auknum menntamátti þjóða og þá sérstaklega lestarkunnáttu kvenna þá lækki fæðingartíðni. Það leiði svo aftur af sér auknum lífsgæðum sem aftur leiða til þess að þrýstingur fari að myndast á stjórnvöld til þess að taka upp lýðræðislegri stjórnhætti. Þetta er í samræmi við aðrar kenningar (sem bandaríkjamenn virða að vettugi) sem setja fram þá kenningu að lýðræðissamfélag myndist bara við menntun stórs hluta samfélagsins sem í kjölfarið efnast og geta menntað börn sín ennþá frekar. Það leiðir svo af sér sterka millistétt sem getur í krafti stærðar og efna "neytt" stjórnvöld til þess að deila völdum sínum.

Af þessu leiðir að ekki sé hægt að troða lýðræði upp á þjóðir sem ekki eru tilbúnar samfélagslega til þess að byggja upp nauðsynlegar undirstöður lýðræðis. Þekking til þess að byggja upp stofnanir samfélagsins eru ekki fyrir hendi hvað þá almenn vitund um réttindi.

Fukuyama heldur því fram að tvær lýðræðisþjóðir geti ekki átt í stríði, stofnanir innan ríkisins komi í veg fyrir það og því ætti það að leiða af sjálfu sér heimsfrið aukist menntun á alheimsvísu og ef aðrar þjóðir eru ekki í sífellu að stoppa eðlilega framþróun.

Þessi "eðlilega framþróun" sé meðal annars stríð milli hugmynda sem fram koma í samfélagi. Að samfélög sem eru að fara í gegnum "breytingarskeiðið" þurfi oft á því að halda að útkljá deilumál sín með vopnuðum átökum. Má rekja þau viðbrögð til ótta við ný öfl og þegar gamlar valdastofnanir eru að reyna að halda í valdataumana.

Þetta er það sem hann heldur fram að sé að gerast í mið-austurlöndum þar sem lestrarkunnátta hefur stóraukist og fæðingartíðni snarlækkað. Og það sé það sama og gerðist í Sovét á sínum tíma.

En að Bandaríkjunum. Fall þeirra felst í því að þau eru annars vegar að beita völdum sínum ekki eins og stórveldi heldur eins og veldi sem er við það að missa völd sín. Helsta birtingarmynd þess séu hvar þau velja að fara í vopnuð átök. Þau velji lönd til þess að berjast við sem eru hernaðarlegir dvergar (samb Írak og Panama) en láti sterkari lönd vera. Hins vegar séu margar hagfræðilegar tölur sem benda til þess að Bandaríkin séu að fara halloka. Ekki er nóg með að halli á fjárlögum þeirra sé gríðarlegur heldur eru örlög dollarans beinlýnis í höndum þjóðanna í austri (sérstaklega kína, Japan, Taiwan, Singapour). heldur eru 70% af hagkerfi þeirra rekið áfram af einkaneyslu (nýjustu tölur úr Economist segja til um 70%) á sama tíma og sparnaður sé í lágmarki og skuldir í hámarki. ÞEgar halla fer undan fæti þá geti þau ekki snúið sér í neina átt til þess að vernda hagkerfið falli. Þegar fallið hefst þá munu fjárfestar halda að sér höndum sem svo leiðir til enn meira falls. Inn í þetta kemur svo menntaflótta frá BAndaríkjunum vegna nýrra innflytjendalaga (meira en 50% af doktorsnemum þeirra eru útlendingar), afar lágur dollari (sem virðist ætla að lækka um 30% í viðbót að lámarki á árinu), óvinsældir þeirra meðal almennings í heiminum og viðmót (hroki) þeirra gagnvart alþjóðlegum stofnunum.

Taki maður þetta allt saman þá er ekki út úr kotinu að halda því fram að þeir séu (rétt eins og Sovét og Rómarveldi) á hægri en öruggri niðurleið.

Mér finnst þetta spennandi stúdía og ætla að halda mér upplýstum um framgang mála.

Ekki væri verra að fá á þetta viðbætur og komment til þess að auka víðsýni og halda uppi umræðum um málefni sem án vafa snertir líf okkar og afkomenda okkar á einn eða annan hátt.

Góðar stundir

Þorleifur Örn Arnarsson

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Góða kvöldið

Svo margt, svo margt...

Ég veit varla hvar ég á að byrja.

Ætli ég hefji ekki förina hjá Davíð okkar eilífðarráðherra. Þessi skipreki íslenskrar valdmisnotkunar og umræðuvillandi séntilmanni. Hvernig getur hann sagt svona út úr sér? Að umræðan um stuðning við Íraksstríðið sé landbundin við Ísland? Hvernig getur maður starfað sem utanríkisráðherra ef hann fylgist ekki betur með fréttum en þetta? Opnar hann aldrei (eða lætur opna fyrir sig) Bresk, Ítölsk, Spænsk, Þýsk, Frönsk, Hollensk, Belgísk svo ég tali nú ekki um alþjóðleg blöð og tímarit? Þetta er búið að vera eitt aðalumræðuefni fjölmiðla í heiminum síðustu tvö árin. Þetta var aðalumræðuefni í Ástralíu á undangengnum vetri. Þetta var eitt aðal umfjöllunarefnið á landsþingi breska verkamannaflokksins. Blöð í Bretlandi hafa safnað milljónum undirskrifta gegn stríðinu. Og svo mætti lengi halda áfram. Og í reynd þá dæma þessi ummæli sig sjálf, lýðskrumarinn sofnaði út frá kennslubókum Göbbels og ákvað að leggja sitt á vogarskálarnar til þess að sjá til þess að sagan skrifist honum í hag. En ég vona að minni þjóðarinnar gefi sig ekki í þessu málefni eins og svo mörgum öðrum. Og það er hlutverk okkar sem mótmæla, við meigum aldrei þagna!!!

Nú, Impregilo er náttúrulega sorglegt apparat. Þeirra stragedía er að ganga eins langt og þeir komast gegn stjórnvöldum. Ætli þeir hafi ekki fylgst af áhuga með hugleysi íslenskra stjórnvalda gagnvart bandaríkjamönnum og ákveðið að láta slag standa. Þessi stjórnvöld myndu aldrei þora í þá sem eiga svoldið af peningum (nema náttúrulega að þeir hafi tekið þá af þeim sjálfum).

Og að lokum er það dæmisaga frá 18 öld. 1865 þá gerðu þrælar uppreisn á Jamaica gegn bresku þrælahöldurunum. Bretar ákváðu í kjölfarið að leggja þrælahald niður. Þeir stóðu stuttu seinna frammi fyrir alvarlegu vandamáli. Þrælarnir frjálsu höfðu ekki áhuga á því að starfa áfram á plantekrum þeirra. Þeir vildu bara rækta landið sitt í friði. Vandamál þetta var rætt á breska þinginu í kjölfarið. Taka ber fram að þetta var fyrir tíma áróðursmeistara af hinum kapítalíska skóla. umræðurnar snérust um það hvernig hægt væri að fá nú fyrrum þrælana aftur til starfa. Þeir virtust hafa það fínt og sáu enga ástæðu til þess að starfa fyrir bretana, og bretarnir gátu ekkert boðið því þrælarnir höfðu ekkert við launin að gera. Því varð þeim tíðrætt um að skapa "vöntun" fyrir þrælana þannig að jarðgæðin dygðu þeim ekki og því þyrftu þeir að snúa til vinnu. Þetta þótti hin besta hugmynd og í kjölfarið hófu þeir aktívt markaðssamfélag á jamaica þar sem "vöntunin" leiddi hina frjálsu þræla aftur til vinnu til þess að mæta hinni tilbúnu "vöntun". Og við hvað búum við í dag...

Þetta var hugleiðing dagsins.

Þorleifur Örn Arnarsson

sunnudagur, janúar 09, 2005

Góða kvöldið

Ég fæ ekki orða bundist.

Eins og fram kom í gær þá var ég afar hrifinn af sýningu BOrgarleikhússins á Hýbílum Vindanna. Sýningin var gerð í slíkri heildarhugsun og af slíkri fagmennsku á alla bóga að ég hef sjaldan séð annað eins.

Hvernig stendur þá á því að í dómi Morgunblaðsins í gær er farið mörgum orðum um sýninguna, listrænir stjórnendur allir taldir upp og hrósað í hástert að leikstjóri sýningarinnar, Þórhildur Þorleifsdóttir, var hvergi nefnd á nafn. Varla var minnst á leikstjórnina í stærstu sýningar ársins!!!

Ég hef velt fyrir mér hverni getur staðið á þessu. Hvernig er hægt að skrifa dóm, heilsíðu dóm, um afskaplega stóra sýningu án þess að minnast á leikstjórann? Er það af því að hún er miðalra kona? hún er ekki ung og hip og kúl og með tippi? Ég er viss um að ef þarna hefði verið á ferð sýning eftir ungan karlkyns leikstjóra að umfjöllunin hafði að mestu verið um hann.

Þetta er endurvarp tíðarandans sem snýst um að eldri konur séu ekki til. Að konur, sem í umræðunni skipta nú miklu minna máli en karlar í umræðunni, séu viljandi útskúfaðar. Þetta er þjóðfélagsleg kúgun í sínu versta formi!

Aftur, ég veit ekki hvað liggur að baki þessari gjörð gagnrýnanda Morgunblaðsins en lesi maður dóminn er ekki hægt að draga aðra niðurstöðu að annað hvort sé hún (já, hún er miðaldra kona) föst í hlekkjum hugarfarsins eða þá að hún hafi viljandi ákveðið að sleppa nafni Þórhildar og hlut leikstjóra út úr dómi sínum. þetta er líkt og að útgefenda, viðfangsefni, ljósmyndara, bókbrotamannsins og bókkápuhönnuðar væri sérstaklega minnst í dómi um ævisögu en þeim er söguna ritað væri sleppt!

Stórfurðulegt og þá sérstaklega þegar skoðað er hversu stóran þátt Þórhildur á í þessari stórfallegu sýningu!

Þorleifur Arnarsson

PS: Það ber að taka það fram að ég er ekki hlutlaus, Þórhildur er móðir mín.