Góða kvöldið
Þessa dagana er ég að lesa bókina "After the Empire". Bókin, eins og titillinn gefur til kynna, þá er umfjöllunarefni bókarinnar yfirvofandi fall BAndaríkjanna af stalli sínum.
Bókin er skrifuð af frösnkum sagn- og talnafræðingi sem spáði fyrir um fall Sovétríkjanna 1975. Vissulega var hlegið að honum á þeim tíma þangað til kom í ljós að hann hafði rétt fyrir sér en þá var honum hampað sem einum fremsta fræðimanni frakka.
Bók hans byrjar á því að setja út á kenningar Huntingtons úr bók hans, "Clash of civilatations" sem í stuttu máli fjalla um það að í stað trúarstríða fyrri tíma búum við nú á tímum bardaga milli meningarheima. Eins og þeir sem lesið hafa þetta blogg þá er það kenning sem ég er afar hrifinn af og finnst hafa einkennt undanfarin átök, þá sérstaklega í mið-austurlöndum. Höfundurinn franski (sem ég mun edita nafni hér inn þegar ég fer heim) heldur því aftur á móti fram að þetta hafi ekkert með þessa afmörkuðu menningarheima að gera. Málið snúist um framþróun mannkyns.
Hann heldur því fram að með auknum menntamátti þjóða og þá sérstaklega lestarkunnáttu kvenna þá lækki fæðingartíðni. Það leiði svo aftur af sér auknum lífsgæðum sem aftur leiða til þess að þrýstingur fari að myndast á stjórnvöld til þess að taka upp lýðræðislegri stjórnhætti. Þetta er í samræmi við aðrar kenningar (sem bandaríkjamenn virða að vettugi) sem setja fram þá kenningu að lýðræðissamfélag myndist bara við menntun stórs hluta samfélagsins sem í kjölfarið efnast og geta menntað börn sín ennþá frekar. Það leiðir svo af sér sterka millistétt sem getur í krafti stærðar og efna "neytt" stjórnvöld til þess að deila völdum sínum.
Af þessu leiðir að ekki sé hægt að troða lýðræði upp á þjóðir sem ekki eru tilbúnar samfélagslega til þess að byggja upp nauðsynlegar undirstöður lýðræðis. Þekking til þess að byggja upp stofnanir samfélagsins eru ekki fyrir hendi hvað þá almenn vitund um réttindi.
Fukuyama heldur því fram að tvær lýðræðisþjóðir geti ekki átt í stríði, stofnanir innan ríkisins komi í veg fyrir það og því ætti það að leiða af sjálfu sér heimsfrið aukist menntun á alheimsvísu og ef aðrar þjóðir eru ekki í sífellu að stoppa eðlilega framþróun.
Þessi "eðlilega framþróun" sé meðal annars stríð milli hugmynda sem fram koma í samfélagi. Að samfélög sem eru að fara í gegnum "breytingarskeiðið" þurfi oft á því að halda að útkljá deilumál sín með vopnuðum átökum. Má rekja þau viðbrögð til ótta við ný öfl og þegar gamlar valdastofnanir eru að reyna að halda í valdataumana.
Þetta er það sem hann heldur fram að sé að gerast í mið-austurlöndum þar sem lestrarkunnátta hefur stóraukist og fæðingartíðni snarlækkað. Og það sé það sama og gerðist í Sovét á sínum tíma.
En að Bandaríkjunum. Fall þeirra felst í því að þau eru annars vegar að beita völdum sínum ekki eins og stórveldi heldur eins og veldi sem er við það að missa völd sín. Helsta birtingarmynd þess séu hvar þau velja að fara í vopnuð átök. Þau velji lönd til þess að berjast við sem eru hernaðarlegir dvergar (samb Írak og Panama) en láti sterkari lönd vera. Hins vegar séu margar hagfræðilegar tölur sem benda til þess að Bandaríkin séu að fara halloka. Ekki er nóg með að halli á fjárlögum þeirra sé gríðarlegur heldur eru örlög dollarans beinlýnis í höndum þjóðanna í austri (sérstaklega kína, Japan, Taiwan, Singapour). heldur eru 70% af hagkerfi þeirra rekið áfram af einkaneyslu (nýjustu tölur úr Economist segja til um 70%) á sama tíma og sparnaður sé í lágmarki og skuldir í hámarki. ÞEgar halla fer undan fæti þá geti þau ekki snúið sér í neina átt til þess að vernda hagkerfið falli. Þegar fallið hefst þá munu fjárfestar halda að sér höndum sem svo leiðir til enn meira falls. Inn í þetta kemur svo menntaflótta frá BAndaríkjunum vegna nýrra innflytjendalaga (meira en 50% af doktorsnemum þeirra eru útlendingar), afar lágur dollari (sem virðist ætla að lækka um 30% í viðbót að lámarki á árinu), óvinsældir þeirra meðal almennings í heiminum og viðmót (hroki) þeirra gagnvart alþjóðlegum stofnunum.
Taki maður þetta allt saman þá er ekki út úr kotinu að halda því fram að þeir séu (rétt eins og Sovét og Rómarveldi) á hægri en öruggri niðurleið.
Mér finnst þetta spennandi stúdía og ætla að halda mér upplýstum um framgang mála.
Ekki væri verra að fá á þetta viðbætur og komment til þess að auka víðsýni og halda uppi umræðum um málefni sem án vafa snertir líf okkar og afkomenda okkar á einn eða annan hátt.
Góðar stundir
Þorleifur Örn Arnarsson
föstudagur, janúar 14, 2005
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli