laugardagur, janúar 12, 2008

Góða kvöldið

Maður getur ekki annað en gapað yfir málflutningi Össurar Skarphéðinssonar varðandi ráðningarnar undanfarið. Framan af taldi ég að væri verið að reyna að dreifa athyglinni með því að fjalla um ráðningarnar sem hann stóð fyrir, enda virtist manni að hann hefði ráðið sérlega hæft fólk. Sérstaklega Guðna sem virðist hafa setið á dúxandi á skólabekk frá fæðingu, en eftir að hafa séð viðtalið í 24 stundum þá er vart annað hægt en að fyllast efasemdum um ráðningar hans líka.

Hann opinberar það að manneskjan sem ráðin var í ferðamálastjórann hafi fyllt út í umsóknarlýsinguna, en hver hannar hana? Ef búið er að ákveða fyrirfram hver verður ráðinn þá er lítið mál að hanna rétta auglýsingu, eða hvað?

-------------

Annars liggur maður sveittur á kaffihúsi í Berlín og reynir að koma honum Hamlet kallinum saman. En æfingar hefjast á þriðjudaginn.

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín

miðvikudagur, janúar 09, 2008

Góðan daginn

Já, það borgar sig að gráta í sjónvarpinu. Clinton sem hafði fengið ádrepur fyrir það að vera fjarlæg og köld svaraði allglæsilega fyrir sig er hún fékk tár í augun line on tv.

Og hefur nú unnið NH.

Þetta sýnir bara hversu háð bandarísk stjórnmál eru veðrum og vindum.

Fyrir 2 vikum var Clinton búin að vinna án vafa.
Fyrir 5 dögum var Clinton búin að tapa án vafa.
Fyrir 2 dögum grét Clinton í sjónvarpinu
Í gær vann Clinton.

Nú er bara spurning hvað Obama geri til þess að komast aftur framúr.

Þorleifur
Berlín

þriðjudagur, janúar 08, 2008

Góða kvöldið

Leikdómurinn er kominn inn hér

Ég var hvattur til þess í matarboði um daginn að bjóða mig fram til embættis forseta Íslands.

Eins og gefur að skilja þá tók ég vel undir, hver myndi ekki taka vel undir slíkt, en bendi viðkomandi hjónum á það að eins glaður og ég væri með þetta þá væri einn smá búrókratískur galli á, maður þarf að vera orðinn 35 ára til þess að gefa kost á sér.

Við skeggræddum þetta eitthvað fram eftir nóttu en komust svo að þeirri niðurstöðu að líklega væri stjórnarskrábreyting sú sem nauðsynleg væri til þess að þessi hugmynd fengi brautargengi full mikið á sig lagt fyrir táknræna mótstöðu við sitjandi forseta.

Að halda því fram að asnalegt sé að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta vegna þess að hann vinnur ber ekki bara á borð litla trú á lýðræðið heldur hitt að í stjórnmálum sé eitthvað til sem heitir að eyða tíma.

Steinunn eyddi tíma til þess að fjalla um ráðherra/frú málið. Hver tíma? ER Alþingi á kvóta? Þarf það að skila svo og svo mörgum lögum? Er það tilgangurinn með Alþingi?

Eða er hlutverk alþingis að spyrja spurninga, velta hlutum vel fyrir sér, koma fram með skynsamleg mál þjóðinni til heilla.

Nei, það er ekki út í hött að mótframboð við sitjandi forseta komi fram, það er lýðræðislegt og hollt.

Þorleifur
Berlín
Góðan daginn

Zirkúsinn heldur áfram á Íslandi.

Um Guðna orku er lítið hægt að rífast. Maðurinn er svo hæfur að það má furðu sæta - eiginlega óhæfa. Hann er með á fimmta doktorspróf, hefur alltaf verið valinn fremstur í allt sem hann hefur komið nálægt og hefur komist langt og hátt í mun stærri samfélögum en Íslandi. Það að vera aðstoðar orkumálaráherra þýðir ekki að þú eigir heimtingu á því að fá top jobbið.

Þar að auki dregur þetta mál um hann Guðna athyglina frá aðal málinu og hinum raunverulega skandal, það er ráðningunni á Þorsteini Davíðssyni í dómara fyrir N-A.

Mogginn hefur reynt að snúa þessu upp í það að þetta sé árás á DAvíð sjálfan. Því fer fjarri. Þetta er árás á pólitískar skipanir. Auðvitað á ekki að halda því gegn mönnum undan hverjum þeir koma, en ef þeir eru ekki hæfastir og ráðherrar verða að grafa djúpt í réttlætingasekkinn til þess að skipa þá eru árásir réttlættar. Mætti jafnvel telja árásir við þessar aðstæður þegnlega skyldu og nauðsyn.

Það er í raun hjákátlegt að lesa réttlætingar Árna M Mathisen fyrir þessari skipun. Allt í einu er það talið mönnum til framdráttar við dómsskipanir að þeir tali góða íslensku, betra ef íslenskukunátta þeirra hafi nýst við val á verðlaunum Jónasar Hallgrímssonar. Að því ógleymdu að Þorsteinn hefur sem aðstoðarmaður Dómsmálaráðherra víðtæka reynslu meðal annars í fjárreiðum ríkissjóðs!

Af hverju ekki bara að vera heiðarlegur ráða vini sína og syni þeirra opinskátt í stað þess að móðga okkur með því að láta eins og það sé hægt að rökstyðja þetta.

Þetta er til skammar og það eina góða sem úr þessu kemur er það að Árni M Mathiesen mun aldrei ná langt í pólitík.

Þorleifur
Berlín

mánudagur, janúar 07, 2008

Góða kvöldið

Berlín beið eftir manni köld og grá. Það er eitthvað skrítið á ferð þegar það er síendurtekin upplifun að Ísland sé Þýskalandi heitara. Heiljarðarverming er staðreynd, ég fann það á eyrunum á mér í gærkveldi.

Ég kíkti svo í gær á sýninguna Breaking News þar sem félagi minn Símon Birgisson er á sviðinu. Hann er ekki að leika sem slíkur, hann meira er að vera hann sjálfur í uppdiktuðu umhverfi. Og hann var flottur, þó svo ég hafi eitt og annað að athuga við sýninguna. (dómur kemur inn á morgun hér)

Í kjölfarið fórum við á hinn magnaða Berlínarklúbb White Trash fast food sem er að verða uppáhaldsstaðurinn minn í Berlín á Sunnudagskvöldum. Þarna sat maður í góðu yfirlæti og reykti eins og maður gat í sig látið mitt í nýsettu reykingarbanninu hér í Berlín og hlustaði á flott svart jazzband frá New York. Mikið betra gerist það ekki...

Bestu kv.

Þorleifur
Berlín