fimmtudagur, mars 10, 2005

Góða kvöldið

þá er bardaginn hafinn í Samfó. Ég hélt reyndar að Össur myndi sjá að sér og fara ekki fram. HAnn hefði getað beygt sig undir það sem virðist vera óumflýjanlegt, það er, sigur Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og stigið til hliðar af reisn.

Hann hefði getað borið fyrir sig samheldni flokksins og að hann hafi skilað sínu og við nánari umhugsun ákveðið að nú væri komið að nýju fólki að stýra fleyinu. VIssulega hefði verið ákveðinn holhljómur í því en annað eins gerist nú í pólitík og hann hefði þá getað tekið að sér annað starf innan flokksins.

En hann ætlar sumsé fram og slagurinn því hafinn. En hversu mikill verður slagurinn?

Össur virðist ekki vera með kosningamiðstöð, innra starf hans fer svo lágt að engin virðist hafa heyrt af því og allar fylgiskannanir virðast vera honum andsnúnar.

Hvað ber að lesa í það? Er þetta bara þrjóska, er hann að búast við kraftaverki? ER hann með vonda ráðgjafa? Eða gat hann bara ekki bakkað? Kannski sambland af öllu þessu.

Á meðan er Ingibjörg komin í ham, R-listaham og fer um landið allt með eldbrand lýðræðisins á lofti.

Þegar uppi stendur þá á þetta ekki eftir að skaða flokkinn þar sem hann fær mikla umfjöllun um málefni framboðanna og fjölga mun í flokknum.

Ég kalla því eftir heiðarlegri og málefnalegri baráttu sem verður þessum lýðræðisflokki til framdráttar.

Þorleifur
Kaffi Karólína

miðvikudagur, mars 09, 2005

Góða kvöldið

Ég hefði ekki getað skrifað pistil gærkvöldsins á betri tíma enda sannaði hann orð mín. Vissulega búum við í samfélagi þar sem allir standa jafnir gagnvart stöðuveitingum, þá sérstaklega hjá hinu opinbera. En það virðist ekki skaða að vera með rétta "vini" á réttum stöðum. Þannig er Auðunn ekki í neinum flokki og auðvitað hafa þá tengsl hans við "vini" ekkert með pólitík að gera.

En ég veit gott betur, það borgar sig nefnilega að vera í flokki, og þetta er engin áróðurskenning, það þarf aðeins að skoða stöðuveitingar hins opinbera undanfarið. En jafnvel þó svo væri ekki þá borgar sig að vera "vinur" þeirra sem stöður veita. Ég á við, hver myndi ekki ráða vini sína, sem viðkomandi treystir og þekkir, frekar einhverjum þumba sem ekkert veit og engan þekkir. Það myndi ég allaveganna gera...

Því hef ég ákveðið að ganga í alla stjórnmálaflokka og starfa í laumi innan þeirra alla. Ég mun hér fara að birta ræður sem stjórnmálamenn meiga nýta sér að vild þó svo að ég krefjist þess að mín sé getið í ræðunni sem "óþekktur höfundur" eða "sérstakur vildarvinur" viðkomandi.

Svo óska ég Auðni góðum starfsframa og hlakka ti þess að sjá hann stýra stofnuninni langt langt langt inn í framtíðina. ÉG hlakka til þess að sjá hann skrifa, lesa, rannsaka, klippa, hella upp á kaffi, keyra bíla, stilla tæki og annað sem til fellur á fréttastofunni því að hafi fólk þarna einhverja sómakennd og láti ekki fjárhagsóttan stjórna för þá segir það upp. Og þá fyrst verður gaman.

Það er nefnilega kannski kominn tími til að leyfa þessarri stofnun, sem kannski var sú eina innan RÚV sem ennþá hafi búið yfir raunverulegu hlutleysi, að verða að áróðurstæki stjórnvalda. Enda er fréttablaðið orðið það öflugt að jafnvægis verður að gæta.

Með bestu kveðju

Þorleifur
Kaffi Karólína
Akureyri
Góða kvöldið

Þá er það pistill að norðan.

Ég er að hugsa um að snúa frá leikhúsinu og snúa mér að því að skrifa ræður handa stjórnmálamönnum. Það virðist ekki veita af miðað við hremmingarnar sem riðið hafa yfir kálgarð íslenskra stjórnmálamanna undanfarin ár.

Maður gæti náttúrulega spurt sig að því hvernig það færi með sálina en þá spyr ég á móti, það er erfitt að vera stöðugt að synda á móti straumnum og kannski er sá tími kominn í lífi mínu að hætta þessu brasi og þrasi og vera bara með. ÞAð virðist allaveganna koma ansi mörgum að góðu...

Og gangi vel hér þá opnar það allar dyr, hver veit, ég gæti kannski komist að hjá Bush?

ÉG á við, ef ég gæti til dæmis látið framsóknarmenn líta vel úr þá er fátt í heiminum sem væri mér ógjörlegt.

Og talandi um framsóknarmenn. Ég hef gagnrýnt þá mikið undanfarið, bæði persónulega sem og opinberlega. En mér er að snúast hugur. Þeir eru ekki svo slæmir greyin. Málið er að maður er að taka út reiði sína og pirring til handa sjálfstæðismönnum á greyjunum í framsókn. Þetta var náttúrulega snilldarleikur hjá Dabba að skipta við Dóra, jafnvel þó svo að hann hafi ekki vitað það þegar gjörðin var framin (nema hann sé þeim mun gleggri). Reyndar er ekki hægt að líta fram hjá því að krabbinn bjargaði honum undan holskeflu opinberra misþyrminga því að það vill enginn (og getur enginn) skamma veika menn opinberlega. Það er nefnilega ljótt, jafnvel þó svo að menn hafi komið okkur á drápslista í útlöndum. En sumsé, saved by the crabs, er yfirskrift ársins hjá DAbba og engin man að Dóri var líka sjúklingur fyrir skömmu, hann kunni bara ekki að tímasetja það jafn vel og Dabbi, eða þá að forlögin útdeildu honum verri krabbatíma en hinum.

Allaveganna, ég stefni nú á að synda með straumnum og uppskera þegar fram líða stundir það sem mér tilheyrir, því að ég er eftir allt einstaklingur og það þýðir að ég stend framar öllum í röðinni-frá mér séð!

Þorleifur
Kaffi Karólína

sunnudagur, mars 06, 2005

Góða kvöldið

Skýrsla úr norðri...

Stór-Aðal-Akureyri er fallegur bær, það hefur aldrei dulist nokkrum manni.

Svo mörg voru þau orð.

Þorleifur
Karólína