sunnudagur, júní 12, 2005

Góðan daginn

Ég hef verið að koma mér fyrir í nýju vinnunni minni. Þetta er stærsta verkefnið sem ég hef hingað til tekið mér á hendur í starfi mínu hjá Saga Film, en ég mun sjá um að hanna framleiðslu á nýjum sjónvarpsþætti.

Ég er ekki viss um hversu mikið ég get sagt um það á svo opinberum vettvangi sem þessum þar sem ég er bundinn trúnaði um framleiðsluna. Það sem má koma fram er að þetta er ný raunveruleika sjónvarpssería fyrir Skjá 1.

Þetta er afar spennandi verkefni þar sem ég þarf að halda utan um stærri pakka á þessu sviði en ég hef gert hingað til.

En nóg um það.

Leikhúsið er farið í frí að undanskildum sumaruppákomunum sem tröllríða samfélagi okkar þegar sól tekur að rísa á himni. Ég átti reyndar upphaflega að vera að vinna við uppsetningu á söngleik þetta sumarið en þar sem tíminn þótti of stuttur þá varð það úr að bíða með það fram á næsta sumar (og þá er náttúrulega ekki víst að ég geti starfað við það þar sem skólavist mín verður þá í forgangi, en það er önnur saga).

Svo er ég ennþá að bíða eftir því að fá bréf frá skólanum þar sem útlínur vetrarins eru lagðar niður svo ennþá óvissan hérna megin.

Var á Akureyri fyrr í dag þar sem ég hitti krakkana mína aftur eftir ævintýri vorsins þar norðan heiða. Það var alveg frábært að hitta þau aftur og þakkaði fyrir mig með því að skrifa ratleik fyrir þau eins og faðir minn gerði fyrir okkur systkynin þegar við vorum minni (og gerir reyndar stundum enn). Leikurinn byggir á því að skrifa í raun orðaleiki sem leiðir fólk áfram, skiljirðu orðleikinn þá finnur þú út hvar þú átt að leita næstu vísbendingu og svo videre. Leikurinn fór fram í Dimmuborgum við Mývatn og var í meira lagi skemmtilegur enda veðrið frábært, náttúrfegurðin ægileg og félagsskapurinn frábær.

Þar var magnað að hlusta á þau lýsa reynslu sinni að vinnunni við Ríginn. Það var sú tilfinning ríkjandi að þetta hefði verið meiriháttar upplifun og það að sýna aga, vinnusemi og fylgni í uppsetningunni hefði skilað sér, ekki bara í sýningunni heldur líka í afstöðu þeirra.

Leikhúsið getur nefnilega verið afar öflugur staður til þess að læra inn á lífið því það sama þar til þess að skara fram úr þar sem annars staðar.

Glaður maður kveður í bili...

Þorleifur