miðvikudagur, september 03, 2003

Góða kvöldið

Það er svo margt sem fer fram hjá manni þegar maður er upptekin við að vera annars staðar. Það er nefnilega einhvernveginn eilífur sannleikur að maður getur bara verið á einum stað í einu. Og ólíkt því sem margir halda er sá staður hér og nú. Ekki í framtíð draumanna eða fortíð vonbrigðanna. (eða öfugt ef maður er einn þeirra sem lýgur stöðugt að sér ). Málið, galdurinn er sá að geta verið hér þegar maður er hér.

Oftar en ekki þá neyðir lífið mann til að vera hér en einu tækin sem náttúran kann til að kalla þetta fram átómatískt eru fullnæging og sársauki. Annað jákvætt og hitt miskilið. Fullnægingin er manni algerlega nauðsynleg þar sem hún kallar fram í manni grunninn. Eðlið, dýrið, ótemjuna (og maður verður djúpraddaðaðri á eftir). Það er eins og maður snerti einhverjar rætur með henni. hinsvegar er mjög erfitt að vera mjög meðvitaður meðan þetta á sér stað. Maður er nefnilega upptekinn.

En þá er það hitt sársauki. Ég skil ekki af hverju þessum hluta lífs okkar er svona illa tekið. Hann er til svo margs nytsamlegur. Til dæmis að stoppa okkur af þegar við stingum hendinni ofaní pott fullan af bullsjóðandi vatni eða þegar við erum búin að brjóta slíkt á umhverfi okkar að samviskan getur ekki meira og kallar á heilann að gera eitthvað. Dregur okkur hingað til þess að takast á við hlutina.

En hvað á svo að gera þegar hingað er komið? VERA HÉR ÁFRAM! ÞAð er svo einfalt. Losa sig undan oki framtíðar fortíðar og framtíðar og vera sáttur hér og nú. Það þýðir ekki að við eigum ekki að plana eða laga það sem mislaga hefur farið heldur að reyna að losa okkur undan því að stjórnast af tímum sem ekki eru til!

Þegar uppi stendur snýst þetta um frelsi. Frelsi til að vera maður sjálfur og vera ánægður að vera sá eða sú. Að losa sig undan væntingum og vonbrigðum og njóta sigranna þegar þeir verða eða takast á við töpin án múrsteinahleðslu fortíðar.

Því það er misskilnigur að frelsi sé frjálshyggjuhugtak. Það er andlegt ástand. Því er ekki hægt að troða því uppá fólk með vopnavaldi eða rökræðum, það er upplifunartengt og fylgir því einu að upplifa núið og sjá fegurðina í því.

Góðar stundir

Þorleifur

þriðjudagur, september 02, 2003

Góða kvöldið

Ég er orðinn pistlahöfundur á Politík.is og verð með pistil þar hálfs mánaðarlega. Þar sem ég elska ykkur mun ég birta pistlana hér fyrst svona sov þið fáið sneak preview á það sem stjórna mun umræðunni næstu daga þar á eftir og gera ykkur mun stöndugri á svellinu.

Gjöriði svo vel:

Stríðið, Guð og Bush

Hinn Vestræni heimur stendur í stríði. Stríði hinna réttlátu ef trúa skal forseta bandaríkjanna. Hann var þeirrar skoðunnar að fyrst samtökin, sem stofnuð voru til þess að þjóðir heims hættu að taka einhliða ákvarðanir, sérstaklega þegar kæmi að stríðsreksri, væru ekki sammála honum þá bæri hann skildu til þess að fara einn í stríð. “Fyrst Sameinuðu Þjóðirnar hafa ekki staðið undir væntingum þá gerum við það” sagði hann áður en hann setti upp kúrekahattinn, skipaði Saddam og sonum hans að koma sér úr bænum, dró upp marghleypuna og reið á hestinum inn í sólsetrið. Og stríðið varð, ég veit það fyrir víst, horfði á það í beinni útsendingu. Svo var stríðið allt í einu búið. Ég nýbúinn að kaupa mér nýtt sjónvarp með heimabíó til að horfa á það í almennilegum gæðum og allt-bú. “Stríðið er búið, við unnum, frakkar eru vitleysingar og nú geta allir hætt að rífast og farið að byggja legó saman í Írak. Guð blessi mig og Ameríku.” Sagði foringinn knái. Ég trúði varla eigin eyrum. Gat þetta verið, ég sem núbúinn var að gera samning við Glitningu sem bindur mig fjárhagslega í 36 mánuði og stríði klárast, bara sísvona! Ég átti erfitt að halda aftur af tárunum en þá gerðist svoldið skrítið. Ég hafði greinilega ekki keypt sjónvarpið fyrir ekki neitt því núna, löngu eftir að Bush lýsti því yfir að stríðinu væri lokið, er ennþá stríð í gangi.

Frelsi, sama hvað!

Írak, vagga siðmenningarinnar, er hersetin af hinum vestræna heimi í nafni frelsunar og réttlætis. Okkur fannst nefnilega að þeir væru ekki færir um að ákveða það sjálfir hvort frelsunar og réttlætis væri þörf og því tókum við þá ákvörðun fyrir þá. Frelsuðum þá með valdi. Mættum á svæðið, skárum, stungum, myrtum, sprengdum, og nú, samkvæmt öllum kokkabókum eru þeir frjálsir. Þeir hafa reyndar ekki frið, ekki vatn, ekki rafmagn, ekki lagalegt öryggi, ekki friðhelgi á heimili sínu, ekki menntakerfi, ekki peninga, ekki málfrelsi, ekki ríkistjórn, ekki vald yfir auðlyndum sínum en hvað með það, þeir eru frjálsir og það er fyrir öllu. Frelsi á kostnað fólkisins sem frelsið átti að fá. Okkar frelsi SKAL vera þeirra frelsi.

Höfum við ekkert lært?

Í yfirgefnum rústum í Tyrklandi er lexíu að finna. Rústirnar eru af Trjójuborg. Hér börðust herir Evrópu og Asíu í heiftúðugu stríði fyrir 3200 árum. Að vísu voru enga orrustuþotur, engar klastra sprengjur, engar stórvirkar stríðsvélar (að tréhesti nokkrum undanskildum). En þrátt fyrir það er hér lexíu að finna, því þótt vígvélarnar hafi breyst hefur það sama ekki hent mannfólkið.

Goðsagnir segja okkur að stríðið sem hér var háð hafi ekki aðeins verið stríð mikilla hetja heldur einnig stríð skelfilegra mistaka, lélegrar herstjórnunar og þess sem grikkir kalla até, yfirþyrmandi stolts og hroka sem á það til að byrgja hinum sterku sýn. Sagan af Tróju býður okkur uppá þrjár megin lexíur.

Sú fyrsta er að jafnvel þó maður hafi réttmætan ástæðu þá sé stríð ekki alltaf besta leiðin. Grikkirnir voru í upphafi ósammála um hvort ráðast ætti á Tróju. Jafnvel kappar eins og Agamemnon og Ódiseifur voru hikandi. En að lokum urðu grísku “haukarnir” ofaná með þeim rökum að ef Grikkirnir myndu leyfa Trójumönnum að komast upp með ránið á Helenu þá væru þeir að bjóða hættunni heim. Trójumenn myndu bara ræna fleiri konum í framtíðinni; að ef ekki væri barist við þá núna þyrfti að berjast við þá seinna, þegar þeir væru orðnir sterkari. En þegar uppi stóð höfðu “dúfurnar” rétt fyrir sér. Svo margir féllu í þessum vitfyrrtu átökum að jafnvel Akkiles viðurkenndi að baráttan hefði ekki verið þess virði, “berjast við aðra stríðsmenn til þess eins að eigna okkur fleiri konur” sagði hann þegar hörmungar stríðsins blöstu við.

Á sléttunum þar sem Grikkirnir reistu tjöld sín bíður okkar næsti ódauðlegi sannleikur hverra stríðsátaka: Menn verða að vinna með bandamönnum sínum. Grikkirnir voru tíu sinnum fleiri en Trójumennirnir, samt töpuðu þeir næstum átökunum og voru aðeins hársbreidd frá því að skip þeirra væru brennd aðeins vegna innbirgðis átaka í “bandalagi hinna viljugu”. Agamemnon var Rumsfeld þeirra daga og reiddi að ástæðulausu bandamenn sína til reiði þegar hann rændi Briseis, frillu Akillesar. Hann reyndi seinna að breiða yfir sárið með því segjast aldrei hafa sofið hjá henni og bauð í staðinn sjö meyjar, en Akkiles dró her sinn til baka og hótaði að fara heim með orðunum, "ça ne marche pas."

Þriðji vísdómurinn tengist falli Trójuborgar og má þar greina haukfráa lexíu. Að vísu voru það vopnuð átök sem unnu styrjöldina við Tróju en samt greinir sagan skilmerkilega frá því að fall Trójuborgar var ekki herfræðilegs eðlis. Trója hefði ekki bjargast með hærri veggjum né betri spjótum. Trója féll vegna þess að engin hlustaði á þá sem vöruðu við tréhestinum.

Þrðija lexian stríðsins við Tróju er því sú að það er umfram allt nauðsynlegt að hlusta á efasemdaraddirnar. Ef Trójumenn hefðu aðeins gefið sér viku til að hugsa sig um, sem hefði gefið Grikkjunum sem sátu inni í hestinu færi á því að deyja úr þorsta eða flýja af hólmi, þá hefði Trójustríðið getað farið á annan veg. En Trójumenn ákváðu að láta varnaðarorð sem vind um eyru þjóta og þar með voru örlög þeirra innsigluð

Við Vestulandabúar ættum að læra af þessarri gömlu dæmisögu í stað þess að vaða áfram í villu okkar eigin réttlætiskenndar og hroka. Læra það að við getum ekki troðið því sem okkur lærðist á hundruðum ára uppá fólk á nokkrum vikum. Að við höfum e.t.v. ekki Guðlegan rétt til þess að segja restinni af heiminum hvernig þeir eigi að haga hlutunum í þeirra eigin bakgarði.

Vitur maður sagði forðum að það væri ærið verkefni að ætla sér að teppaleggja heiminn gjörvallan til þess að manni yrði ekki kalt á fótunum. Mun sniðugra væri að tölta sér út í næstu búð og kaupa sér inniskó. Er ekki tími er til kominn að við leggjum dúkhnífinn á hilluna og kíktum í heimsókn til skósmiðsins?

Helstu heimildir.
Newsweek
NY Times
Ilions kviða

Bestu kv
Þorleifur Örn Arnarsson