laugardagur, desember 08, 2007

Góða kvöldið

Ég hef verið mikið í leikhús undanfarið, enda á leið heim og vildi byrgja mig upp af Þýskunni áður en haldið er á heimahagana. Á leikhússíðunni er að finna leikdóma um það sem fyrir augu bar.

Sjá hér

-------------

Á torginu við heimili mitt í Berlín (Rosenthaler platz) standa nú yfir massív mótmæli. Það eru líklega þúsundir mótmælanda sem standa andspænis hundruðum lögreglumanna við alvæpni.
Ég fór og spurðist fyrir um þessi mótmæli og var þá réttur miði til útskýringar. Á honum kemur fram að mótmælin eru fyrir, og haldið ykkur nú fast: "fyrir aukinni sjálfsstjórnun afmarkaðra svæða, auknu beinu lýðræði hverfa og svona til þess að vera örugg - gegn valdi og kapítalsima". Svona er vart hægt að taka alvarlega

Ég verð þó að viðurkenna það að ég er pínku rifinn yfir þessu. Ég hef tekið þátt í mótmælum sem brutust út í óeirðir, og slóst í kjölfarið við lögregluna sem beitti óþarfa ofbeldi. Og er ég horfi á löggurnar leita á fólki sem vill taka þátt í mótmælunum og inn á milli eru lögreglumenn sem taka allt upp á videókamerur, þá finnst mér ég horfa upp á myrka daga.

Valdbeiting er skiljanleg til þess að vernda borgarana en mér finnst sem við séum löngu komin yfir grensuna, maður strippar á flugvöllum í nafni hryðjuverka, maður kemst ekki heim til sín án þess að leitað sé á manni vegna þess að það er mótmæli, það er skráð niður í databeisa hvað maður er að kaupa á Amazon, og svo mætti lengi telja. Og allt gert í nafni öryggis. En hvað með rétt borgaranna?

Það er eins og gleymt sé að í vestur Evrópu eru rétt rúmlega 20 ár síðan síðasta einræðisríkið lagðist af, og innan við 20 síðan það síðasta lagði upp laupana í austrinu (nema í Hvít-Rússlandi og kannski nú síðast í Rússlandi). Við lýðræðislega stjórnarhætti er hættan af skorti á borgaralegum réttindum minni en eins og veraldarsagan hefur margoft sýnt þá er oft stutt stórra högga á milli, og skyldi það gerast er búið að koma upp fulkomnasta eftirlitskerfi í mannkynssögunni.

En kannski fer þetta svo bara allt vel og ríkið og fyrirtæki misnota aldrei upplýsingarnar um okkur. Videóin er bara til þess að hjálpa hinnu góða við að halda hinu vonda frá okkur, öllum til heilla.

------------

að allt öðru og óskyldu...

Spiegel í Þýskalandi heldur því fram að Vilhjálmur keisari hafi fjármagnað Oktoberbyltinguna. Hvað er næst, að Hannes hafi hætt hjá FL til þess að gerast fjármálameistari Vinstri Grænna?
Ég mun kaupa Spiegel (sem kemur út á morgun og lesa í flugvélinni á leiðinni heim, skrifa svo um það hér.

-------------

Þorleifur Örn Arnarsson
Berlín

fimmtudagur, desember 06, 2007

Góðan dag

Það hlýtur að vekja furðu manns að heyra málflutning Egils Helgasonar um Silfur Egils og konurnar.

Hann ver þetta stöðugt með því að segja að það sé færri konur í þeim stöðum sem hann sækir í að fá í þáttinn. Auðvitað er það hárrétt en það er í rauninni það sem er að, og með því að viðhalda þeim hlutföllum, og verja þær ákvarðanir með því að segja að þetta sé ekki honum að kenna heldur fáum valmöguleikum er hann að ýta undir status quo, ekki að ögra því.

Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um ábyrgð fjölmiðla.

Ef það er í raun þeirra ekki á þeirra ábyrgð að fara fyrir með fordæmi heldur einvörðugnu að spegla veruleikann, hversu óréttlátur sem hann er, þá hefur Egill vissulega ekkert rangt gert.

En ef það er á hinn bóginn þeirra hlutverk að halda uppi merkjum þeirra sem misrétti eru beittir þá hlýtur Egill hér að teljast sekur.

Þannig spurningin er í raun aðeins sú, hvernig íslenskir fjölmiðlar sjái sig og hlutverk sitt.

------------------------

Vil í jafnréttisumræðunni benda á frábæra grein Katrínar Helgu Hallgrímsdóttur á Deiglunni. Það er gaman að sjá konu sem merkir sig "hægra megin" í pólitík taka þess afstöðu. sjá hér

------------------------

Talandi um reglur og kvóta. Í Þýskalandi vill SPD (sósíal demókratar) skoða möguleikann á því að setja lög gegn ofurlaunum forstjóra. Þetta er í takt við umræðuna hér í Þýsklandi. Varaformaður sama flokks kallaði "Hedge Funds" lókost (engisprettufarald) og sagði þá skilja eftir sig sviðna jörð á fjármálamörkuðum. Hvað myndi fyrrum forstjóri stærsta íslenska "Hedge Funds" Íslendinga, Hannes Smárason, nú segja um þetta.

------------------------

Er á leið í djúp-austrið á morgun til þess að heimsækja leikhúsið í Schwerin þar sem ég mun leikstýra með haustinu. Þessi bær er frægastur fyrir þar að í þingi Mecklenburg, sem er með þing sitt í Schwerin, sitja nýnasistar, enda fengu þeir um 7% í síðustu kosningum.