föstudagur, júlí 18, 2003

Góða kvöldið

Þetta er búin að vera alveg frábær vika. Eftir frummarann hófst nýr leiðangur inn í næsta verkefni hins lifandi leikhúss, röð stuttra verka byggðum á fréttum líðandi stundar. Ekki er búið að taka endanlega ákvörðun um efnistök en þetta er allt í vinnslu.

Annars er útlit fyrir að verkefnið Aðfarir að lífi hennar hafi fallið í góðan jarðveg. Afar góð umfjöllun DV hefur síður en svo skaðað og mér sýnist sem að þetta gæti kannski bara gengið eitthvað áfram, og það án auglýsinga.

Þegar nýtt verkefni hefst má segja að innra með mér fari í gang örlítið stríð. GAmalkunnir vinir, væntingar og vonbrigði, kíkja í heimsókn og draga oftar en ekki fylgifiskana, hugmyndaótta og sköðunarþurrð með sér. En eftir að storminn er genginn yfir má lesa í táknin sem veðrið skyldi eftir og þar kennir oft margra grasa og hugmyndinirnar liggja sem hráviði. Á endanum verður þetta bara eins og lautarferð þar sem maður hefur með sér heim hluti, raðar þeim saman og úr verður fallegt verk.

Góða nótt

Þorleifur

miðvikudagur, júlí 16, 2003

Góða kvöldið

Jæja, þá er það komið og farið. Dagurinn sem ég þráði og kveið, kom í heimsókn, brosti vinalega, klappaði mér jafnvel á nakið, blikkaði liðið og kvaddi svo hljóðlega. En svo er víst daganna skipan.

Hvað mig varðar fer ég annars sáttur í rúmmið. Fyrsta frumsýning að baki og þó ég segi sjálfur frá vel heppnuð. Hvað þessir krakkar eru ekki búnir að leggja á sig til að skila verkinu og það gerðu þau svo sannarlega með glæsibrag. Erfitt er að vera eigin dómari, kviðdómandi, saksóknari og verjandi en ætli það sé ekki það sem þetta starf felur í sér. Leyfa þessum öflum að berjast innra með sér og þegar þokunni léttir leifa því sem situr eftir til að verða að list, að leiksýningu, að skilaboðum til þeirra sem á heyra.

En nú er ég aftur orðinn narsisískur.

flott afmæli og ég veit að tóma sætið á fremsta bekk brosti út að eyrum...

Þorleifur

þriðjudagur, júlí 15, 2003

Meri

You are, therefore I am!
Góða kvöldið

Stór dagur var að hefja sitt ferðalag í gegnum tímaskeiðið. Á næstu 24 stundum er bara pláss, í mínum huga, fyrir tvær manneskjur (þó vissulega komi fleiri við sögu). Önnur manneskjan er hún systir mín sem hefði fengið að fagna með mér afmælisdeginum. Hún var nefnilega að halda uppá afmælið sitt þegar strákómyndin bankaði uppá miðsumars '78.

Svo sit ég hér á 25 ára afmæli en hún fylgist aðeins með í ósnertanlegum fjarskanum. Stundum er þetta svo ósanngjarnt, svo óskiljanlegt, svo sárt. En hinum megin við sorgina bíður gleðin í laumi. Gleðin yfir að hafa fengið að kynnast henni, gleðin yfir voninni sem hún veitti, gleðin yfir beitta brosinu og óbilandi húmornum. Gleði og sorg, hinar órjúfanlegu systur, eggjarnar tvær. Svo í kvöld er frumsýning á verkinu sem ég er búinn að vera að basla undanfarna mánuði. Og einhvernveginn er það mikið gleðiefni en samt fæ ég ekki þeirri hugsun bægt frá mér að á fremst bekk er autt sæti, sæti sem ætti að vera upptekið og sem ég veit að myndi vera stolt.

Mikið fleira hef ég ekki að segja, nema kannski, munum það að fólkið sem er nálægt okkur er þar af ástæðu og því ættum við ekki að gleyma þegar brattinn eykst og okkur langar að setjast niður eða snúa við, því að hver veit nema að einhvertímann verði þau þreytt í sömu brekku og þurfi þig til að styðja þig.

Systir mín, þessi dagur er fyrir þig.

Þinn
Þorleifur

mánudagur, júlí 14, 2003

Góðan daginn

Kominn aftur úr stuttri útlegð í myndarplássinu Blöndós. Það er eitthvað heillandi við að koma út úr borginni, sjá sólina hverfa (álög sem ég verð að fara að sætta mig við) og fljóta undir hvalfjarðarhafið í átt til nýrra og spennandi menningarheima. Ekki það að borgin fylli mig ekki anda og gleði, það er frekar hitt að til þess að njóta hennar til fullnustu þá þarf maður að komast í burtu og anda nýju lofti, sprottnu (bókvarðan leiðreittir ef þetta er vitlaus beyging) af öðruvísi grasi í öðruvísi hugsunarhætti.

Sem minnir mig á að ég þarf að komast í þætti sem voru síndir á RÚV og nefndust "Þjóð í hlekkjum hugarfarsins". Þetta var heimildaþáttur um bændur, need I say more! Hljómar hiillaríus.

Á þessarri svaðilför tókst okkur að setja bílinn útaf veginum og það er ótrúlegt hvað slík atvik geta gert fyrir karlmennskuna. Maður þarf að tjakka, bera steina, spóla, þykjast hafa vit á vélum, pæla um grip og þunga, reynt að lyfta bílum... sumsé alveg endalaus uppspretta karlmennskusýnar og reðursrembu.
(Komumst aftur uppá veginn eftir tæpa tvo tíma og einn bónda á traktor)

Annars er ég bara að reyna að plögga þessa blessuðu leiksýningu. Það er meira mál en maður heldur. Það er ef maður er einnig að leikstýra og fleira á sama tíma. Þetta eru alveg endalaus símtöl og sérstaklega ef maður hefur ekki efni á auglýsingum, því þá þarf maður að reyna að fá alla sem maður þekkir til að mæta og vonast svo til að það bersit með vindinum til allra hinna sem mann langar að þekkja.

SVo eru alltaf skyn og skúrir. maður þarf bara að muna að stundum er gott að blotna smá...

Bið að heilsa og góða nótt

Þorleifur