þriðjudagur, júlí 15, 2003

Góða kvöldið

Stór dagur var að hefja sitt ferðalag í gegnum tímaskeiðið. Á næstu 24 stundum er bara pláss, í mínum huga, fyrir tvær manneskjur (þó vissulega komi fleiri við sögu). Önnur manneskjan er hún systir mín sem hefði fengið að fagna með mér afmælisdeginum. Hún var nefnilega að halda uppá afmælið sitt þegar strákómyndin bankaði uppá miðsumars '78.

Svo sit ég hér á 25 ára afmæli en hún fylgist aðeins með í ósnertanlegum fjarskanum. Stundum er þetta svo ósanngjarnt, svo óskiljanlegt, svo sárt. En hinum megin við sorgina bíður gleðin í laumi. Gleðin yfir að hafa fengið að kynnast henni, gleðin yfir voninni sem hún veitti, gleðin yfir beitta brosinu og óbilandi húmornum. Gleði og sorg, hinar órjúfanlegu systur, eggjarnar tvær. Svo í kvöld er frumsýning á verkinu sem ég er búinn að vera að basla undanfarna mánuði. Og einhvernveginn er það mikið gleðiefni en samt fæ ég ekki þeirri hugsun bægt frá mér að á fremst bekk er autt sæti, sæti sem ætti að vera upptekið og sem ég veit að myndi vera stolt.

Mikið fleira hef ég ekki að segja, nema kannski, munum það að fólkið sem er nálægt okkur er þar af ástæðu og því ættum við ekki að gleyma þegar brattinn eykst og okkur langar að setjast niður eða snúa við, því að hver veit nema að einhvertímann verði þau þreytt í sömu brekku og þurfi þig til að styðja þig.

Systir mín, þessi dagur er fyrir þig.

Þinn
Þorleifur

Engin ummæli: