laugardagur, september 20, 2003

Góða kvöldið

Hið eilífa skúmaskotna sálartetur. Það er í raun alveg ótrúlegt hvað sálin er víðfem. Ég hef verið að velta þessu fyrir mér, það er ekki nokkur leið að sálin verði til við getnað. Að eitthvað geti þroskast og dafnað á svo stuttum tíma, getað náð þeim víðfema skala og mynda svo sérstaka og margbrotna persónuleika allt vegna hundraðasta hluta úr prósenti á geni er bara ekki nokkur leið. En hvaðan kemur það þá? Hvað er það sem gerir manneskju að manneskju?

Þetta er vangavelt næstu daga, vikna, mánaða og (vonandi) ára.

Bestu kv.

Þorleifur

föstudagur, september 19, 2003

Góðan daginn

Það eru hræðileg örlög að vera ekki til staðar fyrir börnin sín. Að hafa verið svo upptekin að vinna og stunda líifð að það sem stendur manni næst hefur einhvern veginn fallið milli stafs og hurðar. Að sitja upp þegar líða tekur á ævidaginn og hugsa með sér "ég hefði átt og af hverju" í stað þess að gleðjast og finna lífsfyllingu í því að eiga eitthvað raunverulegt, ekki í bankanum heldur í hjartanu.

Það er svo auðvelt að villast af braut og halda að það sem maður leitar sé fundið í amstrinu í stað þess að "fjárfesta" í því sem vexti.

AÐ standa upp þegar langt er liðið og reyna að gera upp við sig hvað það er sem maður raunverulega gerði við lífið. Jafnvel reyna að réttlæta það afvega hefur farið með því að skálda upp "sannleik" inn í lífið.

Segja þeim sem á vegi manns verða sögur af fjölskyldu og lífi sem aldrei átti sér raunverulega stað. Fela bjargleysi sitt fyrir öllum í kringum sig en bera við karldóminn þegar sálin fer að ílengja eftir svörum við áleitnum spurningum.

En kannski er betra að lifa í blekkingu en að deyja í sannleika því það sem orðið er hefur hætt að vera raunveruleiki og er nú óumbreytanleg þátíð. Það sem var og gerir þig það sem þú ert í dag. Hefi manni mistekist að gera eitthvað við það er það þá synd að brynja sig með sýndarveruleika?

Og svo er bara að halda áfram!

Bestu kv.

Þorleifur Örn Arnarsson

þriðjudagur, september 16, 2003

Góðan daginn

Ég segi það og skrifa ég ætla að byrja aftur á skáldsögunni minni. Hún var komin á full sving hérna í vor einhvertímann en að ráðleggingu vinkonu minnar lagið ég hana á hilluna þegar hvað mest var að gera í leiklitarskólanum. Ég bjóst við því (og sagði það þeim sem næst mér standa) að það yrði álagatími og svo mundi róast en sá tími virðist aldrei koma. Það hefur bara aukist ef eitthvað er. En svo í dag, allt í einu, opnaðist tími. Ég hafði bara tíma til að sitja heima hjá mér, lesa og skrifa og hafa það kósí! Og það á degi sem ég hélt að allt yrði geðveikt að gera á.

Sumsé, þetta er upphitun. og sem slík þarf hún ekki að vera gæðum þrungin, það þarf bara að vera rythmi. Skáldsögur, og reyndar sögur almennt, sem verða fyrir því óláni að lenda ofan í skúffu virðast búa yfir þeim eiginleika að grafast, algerlega að sjálfstáðum, neðar og neðar þar til grafa þarf djúft til að finna þær að nýju. Og satt best að segja er ég dauðskelkaður hvað finnst þegar eg loks gref hana úr moldinni. Er þetta það sem ég vona að það sé eða bara eitthvert rusl sem best væri að sæi aldrei dagsins ljós og ætti kviksetninguna skilda.

éG lofa að greina frá niðurstöðunum hér þegar fram líða stundir.

Annars var ég að klára handritið að 1984 í samvinnu með minni öðlings vinkonu Dúnju. Og ég er ekki frá því að saman hafi okkur tekist að grafa fram úr vitundinni eitthvað bara svoldið skemmtilegt, ef ekki bara hreint út sagt fagurt. En það kemur í ljós á fyrsta samlestri í kvöld. Allaveganna kemur í ljós hvort um er að ræða eitthvað sem hægt er að nota eða klósettpappír. Ef fyrri kosturin verður ofaná þá er gaman í Þorleifslandi annars bíða mín langar stundir í hyldýpinu...

Og svo bið ég að heilsa heitur og fínn.

Bestu kveðjur

Þorleifur Örn Arnarsson
zorleif@hotmail.com

mánudagur, september 15, 2003

Góða kvöldið

Eftirfarandi grein mun birtast á Pólitík.is í fyrramálið.

Af páfagaukum og mönnum

Páfagaukar er vægast sagt ekki sérstaklega greind dýr. Þeim virðist vera fyrirmunað að framfylgja einföldustu náttúrulögmálum. Eitt þessara lögmála er til dæmis það að vont er til lengdar að fljúga, með gogginn á undan, á glugga. Ekki það, maður getur svo sem skilið hvað kallar á þá. Hinum megin gluggans er frelsið, náttúran og full af öðrum fuglum en engu að síður er gluggi á milli sem hindrar för. En sama hvað maður reynir að útskýra þetta fyrir páfuglinum þá reynir hann, við fyrsta tækifæri, að fljúga aftur á gluggan. Þetta hegðunarmynstur er vissulega fyndið til að byrja með en reynist svo leiðigjarnt og að lokum sársaukafullt. Þetta er eins og hin versta þráhyggja sem ekki er nokkur leið að koma í veg fyrir.
Ástæða fyrir því að ég er að rifja þetta upp hér er sú að ég var nýlega í heimsókn úti í bæ og varð vitni að þessari hegðun. Ég starði í forundran á vitleysuna og hristi höfuðið þangað til að ég áttaði mig á því að ég hef séð svona hegðun áður. Að það sé einhver önnur dýrategund sem hegði sér afar svipað, það rann upp fyrir mér að tvífætlingarnir gera alveg eins.
Mannskepnan, sem maður hefði haldið að bæri höfuð og herðar yfir frændur sína páfuglana, virðist ekki hafa jafn mikið þróunarlegt forskot og Darwin hélt fram.

Ókleifir múrar

Uppúr 1960 fannst kommúnistunum í Austur Þýskalandi að ekki væri lengur hægt að bjóða fólki uppá sorann vestanmegin. Þeir afráðu því að reisa vegg til verndar þjóðinni og hófust handa umsvifalaust. Þeir byggðu og byggðu þar til að allar samgöngur borgarhlutanna í millum var orðin ómögulegur. Þeim fannst sem nú væru þeir loks lausir undan oki vestursins, nú væru þeir búnir að hefta afgang illu aflanna, nú væru þeir með sanni frjálsir. En er tíminn rann sitt skeið og að lokum þyrmdi sannleikurinn yfir þá, í stað þess að veggurinn verndaði þjóðina og lokaði hið illa úti þá varð raunin sú að þeir lokuðu sjálfa sig inni.
Maður hefði haldið að mannkynið hefðu lært af þessari reynslu en svo er ekki að sjá. Þjóðin sem var rekin frá Þýskalandi með harðri hendi, pyntuð og misþyrmt og næsta útrýmt hefur afráðið að feta í fótspor þeirra sem áður ofsóttu þá og hafa byrjað á byggingu nýss múrs. Múrs sem á að vernda hana frá hinum illu nágrönnum. 650 kílómetrar (samkvæmt nýjustu tölum frá Ísraelska varnarráðuneytinu) af sementi sem á að loka þá úti sem ógna þjóðinni.
Veggurinn er rökstuddur með því að þetta sé eina mögulega úrræðið til þess að halda hryðjuverkamönnunum frá strætisvögnum og kaffihúsum Ísrael. Að á meðan Palestínumenn ganga frjálsir þá verði Ísrael hætta búin og með því einu að hefta för þeirra geti þeir stemmt stigu við ógninni sem að landi þeirra steðjar. Og það er satt, það eru margir sem vilja Ísraelum illt en það sem gleymist er að veggir leysa ekki vandamál, réttlæti gerir það. Hættan er sú að þó svo að þegar þú múrar þig frá vandamálinu þá fái það að magnast í friði og einn daginn áttirðu þú þig á því að þú lokaðir ekki vandamálið úti heldur læstir þig inni. Þangað til að þessi sannleikur rennur upp fyrir ráðmönnum í Ísrael þá munu þeir halda áfram að fljúga á gluggann eins og páfuglinn með frelsisþrána.

Höfundur mun í næstu tveimur greinum fjalla ítarlega um byggingu múrsins í Palestínu.

Bestu kveðjur

Þorleifur Örn Arnarsson