miðvikudagur, september 03, 2003

Góða kvöldið

Það er svo margt sem fer fram hjá manni þegar maður er upptekin við að vera annars staðar. Það er nefnilega einhvernveginn eilífur sannleikur að maður getur bara verið á einum stað í einu. Og ólíkt því sem margir halda er sá staður hér og nú. Ekki í framtíð draumanna eða fortíð vonbrigðanna. (eða öfugt ef maður er einn þeirra sem lýgur stöðugt að sér ). Málið, galdurinn er sá að geta verið hér þegar maður er hér.

Oftar en ekki þá neyðir lífið mann til að vera hér en einu tækin sem náttúran kann til að kalla þetta fram átómatískt eru fullnæging og sársauki. Annað jákvætt og hitt miskilið. Fullnægingin er manni algerlega nauðsynleg þar sem hún kallar fram í manni grunninn. Eðlið, dýrið, ótemjuna (og maður verður djúpraddaðaðri á eftir). Það er eins og maður snerti einhverjar rætur með henni. hinsvegar er mjög erfitt að vera mjög meðvitaður meðan þetta á sér stað. Maður er nefnilega upptekinn.

En þá er það hitt sársauki. Ég skil ekki af hverju þessum hluta lífs okkar er svona illa tekið. Hann er til svo margs nytsamlegur. Til dæmis að stoppa okkur af þegar við stingum hendinni ofaní pott fullan af bullsjóðandi vatni eða þegar við erum búin að brjóta slíkt á umhverfi okkar að samviskan getur ekki meira og kallar á heilann að gera eitthvað. Dregur okkur hingað til þess að takast á við hlutina.

En hvað á svo að gera þegar hingað er komið? VERA HÉR ÁFRAM! ÞAð er svo einfalt. Losa sig undan oki framtíðar fortíðar og framtíðar og vera sáttur hér og nú. Það þýðir ekki að við eigum ekki að plana eða laga það sem mislaga hefur farið heldur að reyna að losa okkur undan því að stjórnast af tímum sem ekki eru til!

Þegar uppi stendur snýst þetta um frelsi. Frelsi til að vera maður sjálfur og vera ánægður að vera sá eða sú. Að losa sig undan væntingum og vonbrigðum og njóta sigranna þegar þeir verða eða takast á við töpin án múrsteinahleðslu fortíðar.

Því það er misskilnigur að frelsi sé frjálshyggjuhugtak. Það er andlegt ástand. Því er ekki hægt að troða því uppá fólk með vopnavaldi eða rökræðum, það er upplifunartengt og fylgir því einu að upplifa núið og sjá fegurðina í því.

Góðar stundir

Þorleifur

Engin ummæli: