laugardagur, janúar 15, 2005

Góða kvöldið

ÉG hef verið í vangaveltum um gagnrýni undanfarið.

Þessar hugleiðingar komu upp bæði í kjölfar umræðunnar um jólasýningu Þjóðleikhússins en einnig skaut þeim niður við það að hafa nú verið innan um íslenskt leikhúsfólk um nokkra hríð (Eða síðan ég kom heim).

Umræðunni ber því að skipta í þrennt, umræðunni innan leikhússins, umræðunni utan leikhússins (faglega) og svo þjóðfélagslega umræðan almennt. En byrjum á leikhúsinu.

Það sem einkennir og hefur einkennt íslenska leikhúsumræðu um allt of langt skeið eru afar misjafnir gagnrýnendur. Allt of mikið af því fólki sem skrifar í íslenska fjölmiðla um leikhúsið hafa afar takmarkað vit á leikhúsinu sem formi. Það er oft vel að sér í bókmenntum eða vel upplýst fólk, en það hefur alltof oft lítið vit á leikhúsi sem listformi.

Ég held að vandamálið við þetta liggi hjá miðlunum sjálfum frekar en fólkinu sem skrifar í þá. Og vandamálið á rætur sínar að rekja til krafanna sem gert er á gagnrýnendurna. Það liggur nefnilega ekki á hreinu með hvaða formerkjum þetta fólk er að skrifa í miðlana. Er það þar sem "einn af áhorfendunum"? Eða er það þar sem fagfólk sem lýsir faglegu áliti í dómum sínum?

Ég upplifi á því sem sagt hefur verið í þessari umræðu að margir af gagnrýnendum líti á sig ekki sem sérlegt fagfólk um leiklist heldur skrifi það frá sjónarhóli hins almenna áhorfenda. Og það er það sem ber að setja spurningamerki við. Ef gagnrýnendur eru bara einhver sem er að lýsa skoðun sinni á almannavettvangi þá ætti þessi dagskráliður ekki að heita gagn-rýni, heldur eitthvað allt annað. Og þau formerki ættu þá að vera skýr. Að viðkomandi penni sé ekki sérfróður um leikhús og sé því að lýsa því sem best hann getur því sem fyrir augun bar.

Kannski eru margir sem eru þessu ósammála, en mér finnst leikhúsfólk eiga það skilið að í starfi gagnrýnenda séu fólk sem hefur meira en almenna þekkingu á því listformi sem það er að skrifa um opinberlega. Ástæðan er sú að ekki verður hjá því litið að fólkið sem les þetta dregur þá ályktun, komi annað ekki fram, að þarna sé um fagfólk að ræða.

Það er alltof sjaldan að maður finni í dómum hérlendis að viðkomandi byggi gagnrýni sína á því sem var raunverulega að gerast í viðkomandi sýningu. Ekki er gengið út frá hugmyndunum sem fram koma í leikmyndinni, leikstílnum, heildarhugsun leikstjórnarinnar, uppbyggingu verksins og því er sýningin ekki dæmt út frá því sem hún var að reyna að segja, reyna að koma á framfæri, hvernig hugmyndunum var fylgt úr garði, hvort hugmyndirnar hafi yfir höfuð komið úr verkinu og hverig þær hafi svo komist til skila yfir til áhorfendans.

ég geri mér grein fyrir því að tíminn er naumur sem gagnrýnendur hafa til skrifanna og því neyðist þeir til þess að skrifa stóran hluta gagnrýninnar fyrirfram eða úr þeirri þekkingu sem viðkomandi bjó yfir um verkið áður en á sýninguna var komið. Og er það annað sem ekki er endilega hægt að kenna gagnrýnandanum um, heldur miðlinum sem birtir greinina.

Og ég býst við því að tímaskorturinn sé líka ástæða þess að greinarnar eru fullar af kommentum um vinnu leikaranna eins og "góður að vanda", "var fyndin/n" og uppáhaldið mitt, "hún samsvaraði sér vel við stúlkuna sem hún lék" (viðkomandi persóna var vangefin). Hvað segir þetta okkur? Hversu fróðari erum við um frammistöðu viðkomandi með kommentum eins og þessum? Að vera fyndinn í farsa segja ekkert um frammistöðu viðkomandi leikara. Hvernig hann fór með rulluna sjálfa og vann með það sem hlutverkið bauð uppá, það eru upplýsandi gagnrýni...

En auðvitað eru svona dæmi erfið án þess að taka ákveðin dæmi. Það ætla ég að spara mér í bili og kemur þar til sú staðreynd að vel gæti verið að viðkomandi manneskja komi á næstu sýningu hjá mér og beri með í farteskinu þung orð mín. Því eftir allt þá erum við nú mannleg...

En þarna kem ég að umræðunni inn í leikhúsunum.

Auðvitað hefur vald gagnrýnanda áhrif á umræðuna innan leikhússins. Eða væri jafnvel betra að tala um valdið almennt hafi mikil áhrif á umræðuna, jafnt í samfélaginu sem og í leikhúsinu.

Ísland er svo lítið að ekki er hægt að líta hjá því að taki maður upp á því að vera sérstaklega gagnrýninn þá hafi það áhrif á persónuleg samskipti manns innan leikhússheimsins. Gagnrýni maður leikstjóra fyrir vinnu sína þá er ekki ólíklegt að innan skamms standi maður frammi fyrir því að þurfa að vinna með viðkomandi eða hitt, sem er alvarlegra, fái ekki að vinna með viðkomandi vegna ummæla sinna. Smæðin er þarna alvarlegt vandamál.

Gott leikhús þrýfst ekki án málefnalegrar umræðu og gagnrýni en þegar um svo fáa einstaklinga er að ræða þá standa persónuleg sambönd í vegi fyrir því. Og virkar þetta í báðar áttir. Bæði til hróss og lasta listrænu starfi þeirra sem um ræðir.

Því er það svoldið stemmningin hér að hegða sér vel. Vera ekki að gagnrýna og nöldra stöðugt. Leikhúsið hér sé gott og það þurfi ekki alltaf að vera að nöldra yfir því. En aftur, ef enginn er að fetta fingur fram í íslenskt leikhús, ef sjálfumgleðinni er leyft að þrífast þá er ekki bjart yfir framtíð íslensks leikhúss.

Mér finnst það betri kostur, þó það geti kostað mann, að vera á tánum og segja skoðun mína á leikhúsinu. Að byggja upp innra með mér draumasýnina yfir því hvernig ég vilji sjá leikhúsið og vera þeirri sýn trúr. Það þýðir ekki að ég trúi því að ég sé allra manna best til þess fallinn, ég er það líklega ekki, en ég reyni mitt besta til þess að vera sjálfum mér samkvæmur, burtséð frá afleiðingunum fyrir mig og óttann sem þær geta grafði í huga minn.

Góðar stundir
Bar 22
Þorleifur Örn Arnarsson

Ps: Ég mun svo á betri tíma skrifa meira um gagnrýni og gagnrýnisleysið í íslensku samfélagið, þetta er orðið ágætt...

Engin ummæli: