Þetta er dómurinn um 1984 sem ég leikstýrði með Stúdentablaðinu nú um daginn. Ekki slæmt, sérstaklega lokasetningin.
Hún meikar jafnvel sens þessi kona, svona inn á milli, þó svo að ég hafi átt í mesta basli með að þýða textan fyrir konuna mína vegna almennrar tyrfingar hans.
Allaveganna.
LEIKLIST - Stúdentaleikhúsið
Skelfileg sýn
1984, ÁSTARSAGA
Leikgerð eftir skáldsögu George Orwells: Þorleifur Örn Arnarsson og Arndís Þórarinsdóttir; leikstjóri: Þorleifur Örn Arnarsson; leikmyndarhönnun: Hlynur Páll Pálsson; ljósahönnun: Declan O'Driscoll; tónlistarstjóri: Jóhannes Ævar Grímsson, kórstjóri Gunnar Ben. Frumsýning í Tjarnarbíói, 24. október, 2003.
ÞAÐ liggur í loftinu, nú á tímum yfirgengilegrar velferðarneyslu og fjölmiðlavædds eftirlitssamfélags, að breyta til í leikhúsinu. Eftir nokkurra ára ofuráherslu á söngleiki, ævintýraleiki, gleði, rokk og ról velja æ fleiri leikhópar dramatísk raunsæisverk með boðskap. Á þetta sérstaklega við um yngri kynslóð þeirra sem iðka leiklist.
Stúdentaleikhúsið flytur okkur nú boðskap og skelfilega sýn George Orwells, í skáldsögunni 1984. Leikstjórinn Þorleifur og meðhöfundur hans Arndís velja ástarsöguna í sögu Orwells sem rauðan þráð leiksins og heppnast það ágætlega.
Í leikgerðinni kemur skýrt fram sú myrka sýn að ást og tilfinningar eigi ekki heima í pólitísku alræði þar sem ,,stóri bróðir kemst að öllu með hjálp tækninnar. Með því að velja ástarsöguna er ennfremur aðveldara að tengja skáldverkið nútímanum vegna þess að ástin lætur alltaf í minni pokann gagnvart valdagrimmd og - græðgi. Boðskap þessum er komið ágætlega til skila. Sýningin var sterk og áhrifamikil í heild sinni með undirtóni lífsþorsta en hann birtist einkum í firna sterkum og glæsilegum hópsenum á í stílhreinni leikmyndinni á hinu litla sviði Tjarnarbíós.
Þorleifur hefur greinilega mjög gott auga fyrir sviðslausnum og augljóst að hér er listamaður með köllun á ferð. Hins vegar má alltaf spyrja hvort rétt sé að leikstjóri stýri eigin leikgerð eða hvort ekki sé rétt að aðstoðarleikstjóri komi inn með ferska sýn en hér var meðhöfundurinn Arndís einnig aðstoðarleikstjóri. Sýningar mega alveg vera langar en mig grunar að nokkur atriði, eins og ástarsenur, pyntingar og yfirheyrslur, hefðu orðið markvissari og áhrifaríkari ef þriðja augað hefði komið að mótuninni.
Góð leikstjórnin kom einkum fram í hópsenunum þar sem heilaþvegnir flokksmeðlimir hrópuðu slagorð til heiðurs flokknum og ,,stóra bróður. Þarna kom líka í ljós kraftur leikaranna og auðvelt að hrífast með geislandi baráttuanda æskunnar á sviðinu þó svo að málstaðurinn sé miður geðslegur. Einstakir leikarar voru misjafnir eins og eðlilegt er í tuttugu og tveggja manna hópi þar sem leikreynslan er lítil. Hinrik Þór Svavarsson lék aðalpersónuna Winston Smith, sem rís gegn flokknum, fullur af fallegum réttlætisanda.
Hinrik lék vel og ekki við hann að sakast þótt persónan væri einsleit að því leyti að sjálfsvorkunn og píslarvætti einkenndi hana. Stúlkuna Júlíu, kærustu Smiths, lék annaðhvort Melkorka Óskarsdóttir eða Lára Jónsdóttir en þær eru báðar skrifaðar fyrir hlutverkinu í leikskrá. Það var synd að fá ekki upplýsingar um hvor þeirra lék á frumsýningu þar sem leikkonan hvíldi áberandi best í hlutverki sínu. Mér segir svo hugur að hún geti leikið hvaða hlutverk sem er af jafnmiklu öryggi og stillingu.
Öll umgjörð verksins var vel unnin; lýsing, leikmynd og búningar ásamt söngvunum sem færðu áhorfendur óhugnanlega nálægt íslenskum nútíma. Upplýsingar og fróðleikur í leikskrá eru til fyrirmyndar.
Í leikverkinu 1984 er mikið af þeim kraftmikla anda sem hefur fylgt Stúdentaleikhúsinu en upp úr stendur gott byrjendaverk leikstjóra framtíðarinnar, Þorleifs Arnar Arnarssonar.
Hrund Ólafsdóttir
sunnudagur, nóvember 09, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli