Hæ
Þetta er dómurinn úr DV (skilaboð að handan)
Og ég ákvað að skella honum hingað ðinn svona til þess að hægt sé að bera saman.
SEM TILBIÐUR FLOKK SINN OG DEYR
Sagan um manninn sem gat ekki hætt að hugsa
Það þarf hugrekki til að setja skáldsöguna 1984 eftir George Orwell – eitt þekktasta verk vestrænna bókmennta – á svið, og það með áhugamönnum. Hugrekki gæti satt að segja verið yfirskrift sýningar Stúdentaleikhússins í Tjarnarbíói á 1984 – ástarsögu, sem frumsýnd var á föstudagskvöldið. Hugrekki í vali á atriðum, hugrekki sem felst í því að treysta ófaglærðu fólki til að framkvæma flóknar samhæfðar hreyfingar á sviðinu og syngja jafnvel um leið, og síðast en ekki síst hugrekki leikaranna sem víla ekki fyrir sér að ganga fram á ystu nöf í túlkun, hvort sem um er að ræða ástarleiki fremst á sviðsbrún, fáeina sentímetra frá áhorfendum á fremsta bekk, eða grimmilegar pyntingar sem halda áfram og áfram þannig að áhorfanda finnst að lokum sem verið sé að pynta hann.
Sýningin er órækur vottur um að þátttakendur hafa treyst leikstjóra sínum fullkomlega, þótt ungur og lítt reyndur sé. En Þorleifur Örn Arnarsson hefur gert furðumargt vel þótt ekki sé nema tæplega hálft ár síðan hann útskrifaðist úr Listaháskólanum, leiklistardeild.
Allir hafa einhverja hugmynd um efni 1984 því að fá verk er eins vinsælt að vitna í. Sagan kom út 1949, árið áður en Orwell dó úr berklum. Hann hafði verið mjög róttækur en varð æ tortryggnari á kommúnismann og eflaust er Stalín ekki síður en Hitler fyrirmyndin að „stóra bróður“ í 1984 (sem er svo flott upp settur á stóran skjá í sviðsgerðinni og fær andlit Arnars Jónssonar lánað).
Aðalpersóna verksins er Winston Smith, fótgönguliði í Flokknum (Hinrik Þór Svavarsson), ósköp venjulegur gaur og ekkert afburðasnjall eða djarfur en sem á við þá fötlun að stríða að vilja endilega halda áfram að hugsa, í stað þess að láta stóra bróður og fína liðið í Innri flokki um það. Winston kynnist Júlíu (Lára Jónsdóttir), léttlyndri stelpu sem ekki lætur bann við kynlífi trufla langanir sínar, og það óvænta gerist: Þau verða innilega ástfangin. Það er í sjálfu sér tortryggilegt, ef ekki bannað, og þegar við bætist að þau efast um rétt stóra bróður til að ráða yfir lífi þeirra og huga verður refsingin ekki umflúin.
Saga Orwells um alræðisríkið var hugsuð sem víti til varnaðar fremur en spásögn en hefur auðvitað iðulega reynst hastarlega sannspá. Þó hefur „mannsandinn“ sem Winston trúir á oft risið upp eftir langvarandi kúgun eins og sjá má ef hugsað er til þróunar í löndum eins og Sovétríkjunum og Chile. En seint verður hægt að útiloka að upp rísi nýir harðstjórar, og 1984 skírskotar óþægilega til ýmissa teikna í samfélögum okkar nú til dags, ekki síst í Bandaríkjunum.
Verk Orwells er magnað og sýning Stúdentaleikhússins er afar áhrifamikil. Sviðið ömurlegt að sjá en svínvirkar með fínni ljósabeitingu, búningar markvissir, hópsenur agaðar og leikur einstaklinga góður. Lára Jónsdóttir var Júlía á frumsýningu og fór djarflega með þessa spennandi persónu. Melkorka Óskarsdóttir, sem leikur Júlíu á móti henni, lét sér nægja að vera senuþjófur í hópsenum á frumsýningu. Friðgeir Einarsson var óhugnanlegur sem O’Brien pyntingameistari, eins og blíður en strangur faðir í heimi þar sem engin takmörk eru fyrir því sem hann má gera. Fremstur meðal jafningja var svo Hinrik Þór í aðalhlutverkinu. Maður hreinlega skilur ekki það vald sem hann hefur yfir hreyfingum, líkamsburði, látbragði og rödd, og þegar kemur að endinum – eftir þriggja tíma stím – átti hann enn eftir hápunkt þess sem leikstjórinn leggur á hann og fór eiginlega fram úr sjálfum sér.
Þetta er hápólitísk sýning sem reynir verulega á huga og augu áhorfenda. Gerðu þér ekki þann grikk að missa af henni.
Silja Aðalsteinsdóttir
sunnudagur, nóvember 09, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli