mánudagur, apríl 07, 2003

Þegar á allt er litið, á mannkynið séns?

Það virðist vera að fólk sé alveg endalaust tilbúið að ráðleggja manni, hafa áhyggjur og deila þeim með manni, sérstaklega ef áhyggjurnar stafa af þér sjálfum eða um þig. Á undanförnum árum hefur fólk verið einmitt meira en tilbúið að ræða við mig um áhyggjur sínar af mér og skoðunum mínum. Flestir setja fyrir sig að annaðhvort sé þetta gott fyrir mig eða fyrir það sjálft þegar málið er, þegar öllu er á botnin hvolt, að hvorugt er rétt. það sem raunverulega liggur að baki er það að skoðanir mínar koma einvernvegin við hagsmuni þeirra. Hvort sem er með beinum eða óbeinum hætti. Skoðanir annarra hafa nefnilega þann eiginleika að hafa áhrif á mann séu þær ekki sprottnar af sömu hugmyndafræði og manns sjálfs. Þær geta komið róti á þann fastmótaða viðhorfabanka sem búið er að koma sér upp og sé sá farvegur ekki lagður eftir hjartans reglum, heldur innblásinn einkahagsmunum, þá er hætta á að flæði yfir sé á það bent. Og mitt hlutverk (bæði sjálfskipað og af náttúrunnar hendi) hefur oftar en ekki verið það að benda á það. Þetta hefur í för með sér ýmsar hliðarverkanir, fólk telur oftar en ekki að ég sé þar með að setja mig á háan hest og horfi þaðan niður til litlu mannana þegar í raun vakir það eitt fyrir mér að vekja fólk, mig jafnt og aðra, til umhugsunar um sig og umhverfi sitt.

Það skal ég segja manna fyrstur að ég er engin engill. Margt í fortíð minni og nútíð er til þess fallið að ég eigi bara að halda trantinum á mér saman og ganga hljóður eftir götunni, en er það endilega þannig sem það á að vera? Hefur maður ekki rétt, sé sálin snúin í þá átt, til að benda á það sem manni finnst mislaga fara í samfélaginu í kringum sig? Má maður ekki benda á það að manni hugnist ekki fjöldamorð í Írak jafnvel þótt maður heillist endilega ekki af stjórnunarháttum Saddam Hussein? Auðvitað ætti það að vera þannig í upplýstu samfélagi manna að hver ætti að geta haft sína eigin skoðun. En því miður er það ekki svo.

Til dæmis er ég mótfallin ríkisstjórn Íslands (og það áður en hún lagði blessun sína yfir nýjasta kafla ný-heimsvaldastefnu Bandaríkjanna). Þetta kallar yfir mann viðræður og ábaunanir úr ýmsum áttum og manni er alltaf stillt upp miðað við andstöðu sína. Þegar ég er á mótil ríkisstjórninnni þá er ég umsvifalaust orðinn kommi og á móti hvers kyns framförum og lýðræði, sé ég á móti stríðinu í Írak þá er ég án tafar orðinn sérstakur bandamaður Saddam Hussein. Ef ég styddi rétt kvenna til fóstureyðingar væri ég þá orðinn ungbarnamorðingi?

Mér leiðast þessar nútíma útfærslur á rökræðunni. Ætli Sókrates myndi ekki snúa sér við í gröfinni gengi hann nú á meðal vor?

Uppspretta þessarrar útfærslu má finna í nútíma stjórnarháttum. Þar sem flokkshollusta og pólítísk rétthugsun er orðin svo leiðandi að sjálfstæð hugsun á sér engan málsvara annan en flokks línuna. Og hvað verður um manninn ef hann hættir að hugsa sjálfur og standa fyrir sínu? Erum við þá ekki að grafa undan því sem maðurinn hefur áorkað síðan á tímum grikkjanna, síðan Babílon var og hét (það man engin í vesturheimi að menningin á sér uppruna í Kína, það er staðreynd sem aðeins mun koma fram í dagsljósið þegar Kína fer að dæmi okkar og stofnar lýðræði og leyfir frjálsar kosningar. Gerir allt eins og við lijum að það sé og þá og þá fyrst munum við muna hverju við eigum þeim að þakka). Vissulega má að til sanns vegar færa að mannkynið hefur af og til tekið eitt skref aftur á bak og þá venjulega þar sem menningin telst vera hvað háþróuðust. Eki er ýkja langt síðan upp kom stjórnmálaflokkur í Evrópu sem sankaði að sér atkvæðum með því að hugsa fyrir fólkið, um fólkið. Þeir beittu rauðum fána með flottu merki, þeir höfðu public relations officer sem áttti varla sinn líkan og lofuðu fólkinu stöðuleika og velsæld. Svo fór allt til andskotans. Þar ríikti engin rökræða, þar var ekkert umræðuplan annaðen plan flokksins og því urðu hugmyndirnar afbakanir á hugsjónum og verkin eftir því. Ekki fyrr en heimurinn lá meira og minna í rúst komust menn að því að þetta væri ef til vill ekki svo sniðugt og reyndu að útrýma fólkinu sem þessa hugmyndafræði aðhylltist. Þetta er sannsögulegt og gerðist fyrir skömmu síðan! En samt skulum við ekki læra af reynslunni og leyfa fólki að tala, samt skulum við halda hugmyndum niðri og vona að þær finni sér farveg í vatni gleymskunnar, samt skulum við bara gleyma. Og hver verður niðurstaðan? Ekki veit ég það, en mér líst ekki á teiknin sem eru á lofti.....

En þetta er bara ég. Ég ætla halda í vonina að mankynið hafi þróast eitthvað og muni sjá að sér fyrr en seinna. Annars mun sú staða koma upp að einhvertímann í framtíðinni mun lítil mannvera sitja fyrir framan tölvuna sína (eða hvað hún nú heitir þegar þar að kemur) og skrifa: Ég vona að við lærum einhverntímann. En þangað til ætla ég að þora að tala!

Þorleifur
zorleif@hotmail.com

Engin ummæli: