sunnudagur, nóvember 19, 2006

Góðan daginn.

Hvað er raunveruleiki? Er raunveruleiki upplifun eða byggir hann á einhverjum ákveðnum sannleika sem er óumbreytanlegur?

Ef ég héldi því fram hér að ég væri 3 barna faðir á Siglufirði og þú, sem lesandi, tryðir því, er það þá raunveruleiki? Líklega ekki. En það breytir því ekki að fyrir þér er það sannleiki og þar með raunveruleiki, fyrir þér.

Nú þá sitjum við allt í einu uppi með tvenna sannleika, annan sannan fyrir mér (sem er ekki þriggja barna faðir á Siglufirði) og hinsvegar þinn sannleika sem er sá að ég sé þessi maður.

Jú, auðvitað gætir þú grennslast fyrir og þá líklega komist að því að ég sé ekki þriggja barna faðir en þá stendur engu að síður eftir sú spurning um upplifun þína af raunveruleikanum áður en þú komst að því hvað "sannleikurinn" var. Og ógildir sannleikurinn upplifun þess tíma?

Sem ætti þá að þýða að raunveruleiki er bundin tíma. Að raunveruleikinn er raunverulegur miðað við tíman sem hann er raunverulegur á. Þó svo að það breytist þá þýðir það ekki að ekki hafi verið um raunveruleika að ræða þar á undan.

Ef ég trúi því að ég sé heiminum mikilvægur, að það sem ég sé að gera sé mikilvægt er það þá raunveruleiki? Er það nóg að trúa því sjálfur eða þarf til utanaðkomandi staðfestingu? Þarna fer lífsupplifun (já, eða líflygi að spila rullu).

Er það ekki til dæmis manninum sem vann í Auswitsch það nauðsynlegt að trúa því að morðin sem þar voru framin hafi verið nauðsynleg á þeim tíma. Getur hann lifað við það að hann hafi tekið þátt í þessu af skemmtun, valdafíkn eða öðrum hvötum? Þó svo að honum sé það ljóst í dag að ekki var um að ræða nauðsyn þarf hann þá ekki að halda í það sem honum var "sannleikur" á þeim tíma? Og gerir það upplifun hans lítilsverðari að í ljós komi að svo var ekki?

Tökum aðeins léttvægara dæmi. Ég er að vinna frá 9 - 5 í einhverju fyrirtæki. Þarf ég ekki að trúa því að það sem ég er að gera þar hafi einhvern tilgang? Ef ég trúi því ekki er ég þá hæfur til starfans? Og þó svo ég væri sá eini sem teldi það mikilvægt að ég væri að gera það sem ég væri að gera réttlætir það ekki tilganginn, þó svo að ég sé sá eini sem trúir því.

Og samkvæmt því þá er raunveruleikinn í raun ekki aðeins bundin ákveðinum tíma heldur er hann einnig bundin upplifun. Minni eigin upplifun.

Ef svo er, hafa þá aðrir rétt til þess að svipta mig þessari upplifun?

Vissulega er hægt að gera það með illum tilgangi en einnig er hægt að gera það með "æðri tilgang í huga". Til dæmis:

ÉG myndi reyna að sannfæra orkumálastjóra um það að vinna hans væri ekki aðeins tilgangslaus heldur væri hún beinlýnis skemmandi. Nú, hann er ekki sérlega líklegur til þess að taka vel í það, enda byggist mynd hans af sjálfum sér og heiminum á því að vinna hans sé af hinu góða. Ég er á annari skoðun en er sú skoðun mikilvægari hans eigin skoðun?

En ég vil bjarga náttúrunni og hann vill eyðileggja hana. Á móti upplifir hann að ég vilji ekki hagvöxt, ég vilji ekkii vinnu handa fólkinu í landinu, að ég sé á móti uppbyggingu.

Hvaða mælikvarði er réttur til þess að úrskurða um það hver hafi rétt fyrir sér?

Hefur fólk að vissu leyti ekki rétt til þess að búa við ákveðna lífslygi? Og gætu afleiðingar þess að koma upp um hana ekki svipt þessa manneskju réttinum til eigin lífsafstöðu?

Hver á að ákveða hvaða lygi er réttlætanleg og hver ekki?

svo mörg voru þau orð...

Þorleifur

Engin ummæli: