mánudagur, mars 24, 2008

Góða kvöldið

Héðan úr Þýskalandi er fátt að frétta, páskar líða yfir og hjá, og - Jesú dó víst um helgina.

Sem minnir mig á það þegar ég var að setja upp Ríginn fyrir norðan á þessum tíma árs 2005. Ég tók þá stefnu að unnið yrði mikið og hart, að playstation kynslóðin sem ég var að vinna með tæki það með sér úr vinnunni að listin sé góður vettvangur til þess að ýta við grensum sínum, að leggja sig allan fram og maður uppskeri í samræmi við það.

Og við unnum myrkranna á millum í fegurð norðurlandsins, svo mikið að ég þegar kom að páskum þá var ákveðið að keyra bara í gegnum þá, dugnaðurinn var slagorð dagsins.

Við þess ákvörðun fóru mér að berast skringileg skilaboð frá foreldrum unglinganna sem voru margir hverjir ekki sáttir við þessa tilhögun. Það væri ekki sæmandi að vinna á dánardægri drottins.

Akureyri er skringilegt pleis!

Ég hef annars mókað þessa páska af mér. Gert lítið annað en hanga í símanum við manneskju sem mér þykir vænt um - en finnst stundum ekki nógu vænt um sjálfan sig. Þetta hafa meiraðsegja verið á köflum afar erfið símtöl. Sem er svo sem í lagi, því að það er við mótlætið sem maður er neyddur til þess að horfast í augu við eitthvað í fari sínu og gjörðum, sjá og skilja - jafnvel læra - sé vandlega hlustað.

En tíminn hefur í raun ekki verið raunverulegur einhvernveginn. Kannski er ég búinn að hafa of mikið af honum uppá síðkastið. Tíminn er nefnilega kynjaskepna, hann sem virðist svo afmarkaður og stjórnsamur en er í raun aðeins upplifun þess sem hann lifir. Og þegar maður tekur svona breik frá heiminum, eins og ég hef gert undanfarið, þá virðist hann einvörðungu vera til í sínum eigin heimi, mínum heimi. Samansafn upplifunnar sem ég þarf svo að vinna úr er ég set úrið í gang að nýju.

Og þessi útilega mín hefur gert mér margt ljóst, ekki síst að ég þarf að fara a skrifa að nýju.

Ég finn fyrir því í beinunum að ég þarf að fara að skrifa. Ég er orðinn leiður á því að krukka í annara manna verkum. Nú þurfa mín eigin verk að fá sinn farveg að nýju. Eilíf Hamingja hefur loksins yfirgefið mig. Ég get fengið hugmyndir sem ekki eru einskorðaðar við fjórar manneskjur og skrifstofu.

Og hvað gerir maður þegar maður vill fara aftur að skrifa?

Maður heimsækir fjöllin.

Ég stefni á það nú um miðjan Apríl að endurtaka leikinn frá því í fyrra, þegar ég fór einn í viku í alpana, og ganga fjöll í Sviss. Bara ég og fjöllinn og lappirnar á mér brennandi og úthaldssnauðar. Fjöllinn, sem ég sakna svo mjög hér á Berlínarsléttunni, tala nefnilega til manns. Þau hvísla að sálinni þar sem maður klífur þau, ögra manni þegar maður reynir að sigrast á þeim, hlægja að manni þegar maður er við það að gefast upp og kyssa mann svo vindsins kossi þegar maður stendur á toppnum.

En umfram allt getur maður ekki flúið sjálfan sig þegar maður tekst á við þau. Maður verður að vera hér og nú og hlusta. Það er það frábæra. Ekki analísa, heldur aðeins vera.

Og í umróti stórborgarinnar gleymir maður þessu oft. Að vera. Einfaldlega.


Bestu kv.

Þorleifur

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vá hvað þú ert djúpur
Gaman að heyra í þér, gangi þér vel að skrifa.. takk fyrir að minna mig á leikritið - best að fara aftur að skamma kallinn fyrir að hafa ekki farið með mig á það.. það stóð til leeengi að fara á það en komumst aldrei í það!!

kv. IBB

Thorleifur Örn Arnarsson sagði...

Svona er þetta, maður kemst ekki yfir allt.

En það koma verk eftir þetta verk.

Sérstaklega ef ég kem mér nú í það að skrifa.

Bið kærlega að heilsa

Þorleifur