Góðan daginn
Ég sat úti á kaffihúsi áðan. Já, úti á kaffihúsi.
Þetta er eitt uppáhalds morgunverðarkaffihúsið mitt hér í Berlín. Þetta er brasílískt (eða svo stendur minnsta kosti á matseðlinum) en það er nú fátt sem bendir til þess. Starfsfólk allt þýskt, brauðið sem þau nota ítalskt, kaffið einnig, innréttingarnar úr plastik katalóg og teppin á útistólunum frá 66 gráður norður.
En þetta er ferlega kósí því að útiseta á þessu kaffihúsi boðar komu vorsins.
Og er ég vaknaði í morgun og leit út um gluggan þá trúði ég því í fyrsta skipti á þessu ári að vorið væri að koma.
Það var glampandi sól, svona eins og vetrarveðrið gerist fallegast heima á Íslandi. Þökin í kring glitruðu í sólinni er geislarnir léku við þau áður en þeir tóku stefnuna inn um gluggan hjá mér og kitluðu mér í augunum.
Svona er gott að vakna. Vakna undan vetri. Vakna og hugsa að vetur konungur hafi andvarpað sínu síðasta þetta árið og fari nú í útlegð þar til næsta haust.
Kannski er þetta draumsýn, en stundum rætast draumarnir þó.
Og ég sat áðan á þessu útikaffihúsi, á grænum plasstól með púða og át panino með chorizo og drakk appelsínu, epla, gulrótar, engifer, rauðbiðusafann og las góða bók. Allt að því heitur vindur lék um og við mig. Stúlkurnar búnar að setja upp sólgleraugu og komnar úr HM vetrarstökkunum og skipta þeim út fyrir marglitar peysur. Við kallarnir allir eins í Levis og bol.
Það mátti jafnvel heyra suð í flugum, en bara ef virkilega var lagt við hlustir. Engar Moskító þó, þau óargadýr koma fyrst seinna.
Mér leið svoldið eins og Heimdalli, fannst ég heyra brumið spretta og blómin kíkja út og bíða eftir staðfestingu vorsins á komu sinni.
Ég heyri á svona dögum vonina kveikna, áhyggjur dimmunar láta undan og framtíðin verður eftirsóknarverð. Hugmyndir fá vængi og framkvæmdarhug, ímyndun eflist og þorið eykst, líkaminn brosir innra með sér og fjarlæg lönd verða nálæg í huganum.
Já, vorið er það fallegasta sem ég veit.
Og ég vona að það sé komið.
Vorkveðjur frá Berlín
mánudagur, mars 24, 2008
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
það væri lýgi ef ég segðist ekki öfunda þig smá. Hér snjóar akkúrat núna, soldið mikill raki og frekar svona napurt. Ekki það búnir að vera gullfallegir dagar inná milli, ég fékk bara ekkert að njóta þess þar sem ég lá með hita og flensu uppí rúmi með samviskubit yfir að ná ekki að vera að læra fyrir prófin. En nú þarf ég bara að koma lestrarefni heillar annar fyrir á 7 dögum... spurning um að fara að drekka kaffi!! ástarkveðjur lilla lestrarmús
Veikindi koma og fara, aðallega fara, það er líklega það fallega við þau.
Njóttu kaffisins litla sys og njóttu þín.
Skrifa ummæli