fimmtudagur, mars 27, 2008

Góða kvöldið

Ég heyrði því fleygt í kvöld að salan í Elko undanfarnar 2 vikur hafi verið meiri en næstu tvo mánuði þar á undan. Og flest sé keypt á raðgreiðslum.

Þetta minnir mig á það sem maður heyrir úr meðferðarbransanum, búið að panta meðferðarpláss og því um að gera að detta vel í það yfir helgina til þess að mæta sem ónýtastur. Maður sé hvort sem er að hætta og því um að gera að fara út með stæl, upplifa síðasta fylliríið, fá síðasta sopann, eina stund með hjartaró brennivínsins áður en blákaldur og beiskur veruleikin tekur við.

Hvaða fylling er þetta sem fólk er að kaupa sér? Er það það að nútímamanneskjan er metin, og metur sig aðeins á ytri aðstæðum, en ekki innri líðan?

Erum við búin að kalla yfir okkur kerfi þar sem neysla er svo samdauna lífinu að líf á neyslu er varla nokkurt líf. Eða er þetta kannski bara fallegt kæruleysi, þetta reddast bara stemmarinn sem sendi íslensk fyrirtæki í víking og okkur hin á yfirdráttinn?

Það verður gaman að fylgjast með þegar fólk hættir að geta borgað til baka. Mun fara fyrir okkur eins og sub prime í Bandaríkjunum. Að fyrirtæki verði uppiskroppa með fé, ekki aðeins á alþjóðamörkuðum heldur vegna þess að endurgreiðslur eru ekki að berast og bankarnir standa þá uppi með veð sem fallið hafa í verði?

Því að í neyslusamfélaginu þá er allt samtengt. Hlutunum hefur verið komið svo snilldarlega fyrir að allir eru samdauna, samsekir, reyndar sérstaklega þegar illa fer.

Ég var sjálfur tilturulega hlynntur þessari stefnu í BNA, að gefa fólki sem aldrei áður átti möguleika á því að koma sér upp eignum tækifæri til þess að gera það. Og taldi að hver og einn einstaklingur bæri ábyrgð á því sem hann gerði, því sem hann tæki að láni. En afleiðingarnar af þessum viðskiptum í bandaríkjunum koma nú við veskið á öllum, líka mér (og reyndar gera veski eigenda ELKO feitara - but where there's a loser, there's a winner).

Til varnar þessum einstaklingum verður þí að segjast eins og er að upplýsingagjöf var sérlega ábótavant (svona eins og hjá KBBanka sem var ekkert að halda því að fólki að það væri endurskoðunarákvæði í 4.15% lánasamningunum) og komu því hærri greiðslur mörgum á óvart.

En oftar en ekki var þetta bjartsýni, óhófleg á köflum, en bjartsýni þó og það er fallegra mennskepnunni en svartsýnin.

En Bjartsýnin gerði nú samt út um hann Bjart, og sumarhús voru innkölluð af BYR þess tíma.

Hversu margir verða komnir á BYR-inn nú? Með eldhús fullt af mixurum...

Bestu kv.

Þorleifur

Engin ummæli: