SVo ég gleymi því ekki þá er hér dómurinn sem Eiríkur birti á www.nyhil.com og markaði upphaf ritdeilunnar:
Leikritið er byggt á einhverri alræmdustu skáldsögu 20. aldarinnar, 1984, eftir George Orwell. Bókin er skrifuð 1948, gefin út 1949, og er ádeila á Stalín-tímabil Sovétríkjanna, og alræðisstjórn almennt. Einhverslags alræðis-sósíalísk fantasía, sem tekur sér ýmsar fyrirmyndir úr samtíð höfundar, kallast sterkt á við skort seinni heimstyrjaldarinnar t.d., og gyðingahatur - er skrifuð á módernískum tímum, af sósíal-realískum höfundi, sem sést vel í einni af lykilsetningum bókarinnar, þegar Winston skrifar í dagbókina sína "Frelsi er frelsi til að segja að 2 plús 2 séu 4, allt annað kemur af sjálfu sér" (ef ég man tilvitnunina rétt, efnislega allavega, er hún rétt). Þetta er auðvitað argasta vitleysa, og vitleysa sem einungis módernískur hugsuður gæti leyft sér, einhverslags crómagnon maður af síðustu öld, og eina ástæðan fyrir að honum leyfist það er nákvæmlega vegna þess að hann tilheyrir þessari kynslóð crómagnon módernicus, og vissi ekki betur. Frelsi er frelsi til að segja að 2 plús 2 sé hvað það sem maður vill segja að það sé. 3, 5, gíraffi eða hvað sem er. Að þessu leyti voru yfirvöld í 1984 nær Sannleikanum en Winston.
En allavega, að leikritinu. Ég heyrði í leikstjóranum í Víðsjá fyrir mörgum mánuðum síðan, þegar hann var að leikstýra Lifandi Leikhúsi, og einmitt að kalla á lifandi leikhús. Leikhús sem væri pólitískt í samtíma sínum, lifði og tifaði með nýskeðum stundum, lagði áherslu á að leikhúsið þyrfti að vera ferskt, höfundarnir með á nótunum, og leikararnir alltaf að gerast. Ég stóð á öndinni, eftir að hafa gefist upp á íslensku leikhúsi á einhverju tilgerðarlegasta ógeði sem ég hef séð skríða á fjalirnar (með harmkvælum og ekkasogum, trúið mér) Kirsuberjagarðinum eftir Tsjékov (ég hef ekkert á móti stykkinu, það var uppsetningin sem var viðbjóður), hugsaði ég með mér að nú gæti ég loksins aftur farið að stunda leikhús, jibbí skibbí!!!
Nú í sumar, á menningarnótt, sá ég Þorleif setja upp nokkur verk í Iðnó, fimm stutt verk eftir fimm höfunda, þrjár rammpólitískar satírur og tvö væmin dramastykki (sem höfðuðu því miður lítið til mín, en áttu kannski betur við hjá öðrum). Ég stóð á öndinni, þetta var hreinlega betra en ég hafði átt von á. Uppsetningin var öll stórsniðug, öll sviðsvinna var með skemmtilegasta móti, og þrjú af fimm verkum voru relevant í samtíma sínum, voru að segja eitthvað við mig og fólkið í kringum mig, þar sem við stóðum í þessum sporum þá (reyndar mætti sýna þessi stykki aftur, ekkert hefur leystst í þessum vandamálum síðan í sumar). Og ég fór skælbrosandi út.
Ég var því allur á nálum að komast á sýningu, þegar ég frétti að Þorleifur væri að leikstýra stúdentaleikhúsinu í eigin leikgerð á 1984. Bæði þykir mér mjög vænt um skáldsöguna, og hafði og hef mikla trú á Þorleifi sem leikstjóra. Auk þess hafði ég heyrt hann tala um hversu 1984-fantasía Orwells stæði nærri okkar nútíma, hversu margt í bókinni kallaði til okkar í dag, eða eins og hann segir í Ávarpi leikstjóra í sýningarskrá "Það getur vel verið að Orwell hafi ekki skrifað 1984 sem dimma framtíðarspá. Hinsvegar er svo komið, hvort sem um er að kenna honum [???] eða framvindu mannkynssögunnar, að heimurinn er sterklega farinn að kallast á við hugarheim skáldsins. [...] Það er því ekki að ástæðulausu sem Stúdentaleikhúsið afréð að sviðsetja bókina. Verkið er ádeila á ríkjandi stjórnvöld, innlend sem erlend, og viðvörun um það hvernig valdið fer með manninn, og maðurinn með völdin."
Það er ekki laust við að maður fái fiðring í magann.
Þá byrjar sýningin. Brjálæðislegt byrjunaratriði sem virðist vera einhvers konar martröð Winstons, náði rosalegu mómentum, og ég taldi mig algerlega kolfallinn, hristi höfuðið og hugsaði "þessi Þorleifur, hann er nú alveg ótrúlegur..." Það er ofsalegur hávaði í þessari senu, og Winston er sparkað til og frá af meðlimum Innri Flokks, og í a.m.k. eitt skipti reyna meðlimir Ytri Flokks að rífa hann í sig. Og maður skelfur í sætinu.
En svo missir sýningin dampinn, án þess að ná honum nokkurntímann alveg aftur. Eins og í Iðnó í sumar var öll sviðsvinna mjög flott. Senur þar sem tíminn frýs, og Winston deilir hugsunum sínum með áhorfendum, voru mjög vel útfærðar. Sömuleiðis mætti nefna skólaborðin sem leikarar snúa um sviðið fram og aftur til að breyta vinnustað í matsal og aftur í vinnusal. Stór og mikill rammi, sem var utan um eftirlitsskjá sem enginn vissi af, fellur yfir elskendurna Júlíu og Winston þegar hugsanalögreglan nær þeim í leynilega ástarhreiðrinu þeirra, og ramminn verður svo að fangelsi Winstons. Og svona atriði voru ótal mörg, sniðug og vel útfærð. Smekkleg meira að segja.
Leikurinn var fínn, Melkorka Óskarsdóttir, Hinrik Þór Svavarson og Friðgeir Einarsson stóðu sig með mikilli prýði, sem og aðrir leikendur. Tónlistin var fín. Lýsingin fór í pirrurnar á mér, en náði vel að lýsa þessum sósíalíska yfirheyrsluanda. Leikstjórn Þorleifs var meira að segja mjög góð. Það er hinsvegar þetta blessaða handrit sem eyðileggur leikritið, og er skömm gagnvart vinnu þeirra sem lögðu greinilega mikið á sig til að setja upp gott leikrit.
Ástarsagan, sem lagt er upp með sem áhersluatriði (og þess vegna fær verkið undirtitilinn -ástarsaga), kemst mjög takmarkað til skila. Júlía er lauslát stelpa sem ríður karlmönnum til að ná sér niðri á flokknum, og svo ríður hún Winston, og alltíeinu, eins og upp úr þurru, fellur hún fyrir þessu vælandi rekaldi sem Winston er. Winston virkar ekki sem sterkur einstaklingur í leikritinu, eins og hann gerir í bókinni, og þar af leiðandi skilur maður engan veginn að hinn feikisterka Júlía, þessi kona sem berst gegn ofurveldinu með því vopni sem flokknum þykir ógeðslegast, þ.e. léttúðinni, skuli falla fyrir þessum sígrenjandi smákrakka sem Winston gefur sig út fyrir að vera í leikritinu.
En það versta við þetta alltsaman er hversu tengingin við samtímann hrynur. Skáldsagan 1984 var pólitískt relevant árið 1949, hún talaði til síns samtíma. Að setja upp leikrit úr bókinni árið 2003, með þeim formerkjum að verkið eigi mikið og brýnt erindi við samtíma sinn, lýsi jafnvel heiminum sem við lifum í akkúrat núna með einhverju forspárgildi - og gera það svo án breytinga á söguheimi, er banalt. Mér leiðist að þurfa að benda Þorleifi á hið augljósa, en Stalín er dauður og Sovétríkin eru fallin. Og þetta stykki sem ég sá á sunnudaginn var gagnrýni á Stalín og Sovétríkin, sá þungi leiðtogi sem starði af skjánum var ekki landsfaðir nútímans, það var leiðtogi samkvæmt sósíalískri fagurfræði. Þetta voru þungu augun, hinn sterki, agabeitandi leiðtogi sem leysir vandamál skortsins. Ekki Davíð eða Bush (sem leysa vandamál gnægðarinnar og offramleiðslunnar) sem þó eru þeir Stóru Bræður sem við stöndum frammi fyrir í dag.
Sósíalísku áherslurnar halda sér allstaðar. Meðlimir ytri flokks eru í verksmiðjubúningum, meðlimir innri flokks í jakkafötum (sovét). Maístjarnan kemur nokkrum sinnum fyrir sem einhverslags byltingarsöngur númer eitt. Hlýðni borgaranna (sem ævinlega eru nefndir "félagar") kemur fyrir sakir aga. Þeir eru barðir til hlýðni, og svo hlýða þeir af því það hefur verið barið í þá að Stóri Bróðir viti mest og best, að málstaðurinn sé alltaf réttur. Í samtíma mínum hlýðir fólk vegna þess að það er tælt til þess að hlýða. Eða tælt til þess að skipta sér ekki af því sem "því kemur ekki við" (eins og t.d. stríðinu í Írak). Þjóðsöngurinn Ó guð vors lands, verður að Flokkslaginu (og Flokkurinn, er og hefur alltaf verið með sósíalíska vísun, meira að segja þegar við uppnefnum Sjálfstæðisflokkinn sem Flokkinn).
Lifandi leikhús, leikhús sem kærir sig um að vera pólitískt, hefði brugðist við þessu. Til að vera pólitískur er ekki nóg að setja upp leikrit eftir bók sem var pólitísk þegar hún var skrifuð, það verður að tengja hana við nútímann. Lýsistrata er til dæmis ágætis leikrit, en stendur sem sterkara verk ef það er tengt við stríð nútímans, eða femínisma nútímans. (Reyndar myndi það ekki bjarga 1984 - ástarsögu, að vera tengt við samtímann, þó það sé vissulega einn óhjákvæmilegur plastþráður björgunarhringsins). Í næstum því hverri einustu senu mátti sjá eitthvað sem var tekið upp úr bókinni, sem hefði mjög auðveldlega mátt snúa yfir á samtímann. Leikfimikennarinn í sjónvarpinu var til dæmis einhvers konar fasísk kvengribba sem gelti á Winston að teygja sig betur (auk þess sem hann var að gera einhverskonar Charles Atlas æfingar, sem aftur eiga bara tengingu við fimmta áratug síðustu aldar), þegar hún hefði svo auðveldlega getað verið hressi eróbikk-kennarinn, Ágústa Johnson heimsveldisins. Stóri Bróðir hefði getað verið þessi brosmildi en ákveðni landsfaðir sem þekkist í öllum löndum hins vestræna heims, í stað þess að vera bara þungbúin umvöndunarsöm augun í Arnari Jónssyni. Verksmiðjubúningarnir hefðu mín vegna mátt vera tískuklæðnaður frá því árið 1984 (grifflur og neon-litir). Vöruskorturinn hefði mátt verða að kaupæði. Í stað tilkynninga sem lesnar voru upp um lækkun og hækkun súkkulaðiskammts, hefði mátt lesa upp tilkynningar um skuldir heimilana, eða önnur falsafrek ríkisstjórnarinnar. Umfram allt HEFÐI verkið GETAÐ verið relevant, en sleppti því á hverju horni.
Nú má vísa öllum þessum aðfinnslum mínum á bug og segja að 1984 -ástarsaga, hafi alls ekki átt að vera pólitískt verk, heldur einmitt ástarsaga. Fyrir utan áðurnefnt klúður í uppsetningu ástarsögunnar, þá er það bara staðreynd að 1984 er pólitískt verk. 1984 er verk sem fjallar um pólitík. Það myndi engum detta í hug að setja upp Rómeó og Júlíu, og reyna að sneiða hjá ástarsögunni. Ástarsagan þarf að halda sér, og það þarf að gera hana relevant í hvert skipti sem verkið er sett upp. Alveg eins þarf pólitíkin í 1984 að standast, hún þarf að skera mann til blóðs. Vilji maður setja upp ástarsögu, þá setur maður bara fjandakornið upp Rómeó og Júlíu.
Þá má aftur vísa aðfinnslum mínum á bug og segja: hvað um sögulega gildi þess að gagnrýna Stalín-tímabilið? Og ég segi, það á fyllilega rétt á sér, og það er til úti á bókasafni. Leikhús er alltof lifandi hlutur til að vera að dvelja við það sem búið er að segja. Bækur eldast, og eldast misvel (1984 reyndar mjög vel - en maður les hana líka vitandi að hún var skrifuð 1948). En leikrit upp úr 1984, spánný leikgerð árið 2003, sem gerir ekki minnstu tilraun til að tengjast samtíma sínum (sem er reyndar lygi, það gerir tvennt, annars vegar er mynd af Hallgrímskirkju, sem sögð er hafa verið í meira lagi sprengd, og svo endar sýningin á því að fyrst stendur 1984 á skjánum, og svo stendur 2003), og tekur þess upp löngu kulnaðan kyndil and-stalínismans, er hreinlega bara banal. Það er tilgangslaust. Það ráfar um án þess að segja nokkuð við mann.
Það er þeim mun leiðinlegra að skrifa þetta sem ég veit sem er að Þorleifur er mjög góður leikstjóri, og að ég sá að krakkarnir sem settu upp sýninguna lögðu sig fram af sál og líkama og ástríðu. En af sömu ástæðum hlýt ég að skammast og hundskammast út í þessa leikgerð, þessa útfærslu á verkinu, því hún er móðgun við hæfileika og erfiði þessa fólks. Að ég tali nú ekki um móðgun við áhorfendur.
11/4/2003 11:17:06 AM, Eiríkur Örn Norðdahl
föstudagur, nóvember 07, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli