AFtur vantar svar mitt sem mun birtast innan skamms
Blessaður aftur,
Jú, það er einmitt svipað með bréfið og ljóðin mín. Meira að segja koma þau
eins út. Ljóðin mín eru bölvað helvítis hroðans kraðak, og gagnrýnendur eru
á eitt um að ég sé að hneyksla hneykslunarinnar vegna, endurframleiða
endurframleiðslunnar vegna, og reykspóli svo í hjólförum úrsérgenginnar
framúrstefnu, og vaði reykinn í hringi. En af einhverjum orsökum, þá hefur
fólk samt alltaf helvíti mikið um þau að segja, sem er gaman. Og mér finnst
óhugnanlega gaman að skrifa þau. It's a win-win situation, eins og einhver
sagði.
En allavega. Í grunninn sýnist mér ágreiningsmálið vera spurningin um hið
altæka einræði. Og þá vísa ég aftur í þá merku menn Hardt og Negri:
"Hugmyndirnar um "alræði" sem voru mótaðar á tímum kalda stríðsins hafa
reynst vera gagnleg áróðursverkfæri en algjörlega ófullnægjandi
greiningartæki og leitt til háskalegra rannsóknarréttaraðferða og skaðlegra
siðferðisröksemda. Það ætti að líta með skömm á og hiklaust fleygja
fjölmörgum bókahillum okkar sem eru fullar af greiningum á alræði."
Og vil þá meina að þeirra orð hafi skipt meira í bréfi mínu, en öll mín orð
til samans (enda magn ekki það sama og gæði, og ég oft á tíðum málóður).
Kannski er þetta líka sami hugsunarháttur og að 2+2 séu ófrávíkjanlega
fjórir. Að sannleikurinn sé þannig að hann sé eins 1949, 1984 og 2003. Að
alræðið sé eitt, og sannleikurinn einn. Ef það er þín hugsun, þá skilur
okkur hreinlega að á þeim stað. Sannleikurinn er nefnilega ekki fasti,
brahma er fljótandi, brahma er allt. Eins og Whitman orðaði það í Leaves of
Grass: "Er ég í mótsögn við sjálfan mig? Jæja þá, þá er ég í mótsögn við
sjálfan mig. Ég inniheld mergðir (multitudes)." Og ég orti svo einhverju
síðar "ég er aldrei beinlínis í mótsögn við sjálfan mig. Ég er einungis fær
um að segja eitt í einu." Sannleikurinn er nefnilega ekki bara margvíður,
hann er næstum því allt. Þess vegna stenst það fullt eins vel að 2+2 séu 4,
og að 2+2 séu gíraffi.
Hitt er bara hreinlega að bókin 1984 talaði til mín, ég ældi líka í síðasta
kaflanum (sem þú nóta bene slepptir) - á meðan leikritið 1984- ástarsaga,
talaði ekki til mín, náði engum kontakt (að undanskildu byrjunaratriðinu).
Mögulega má rekja það til þess að Orwell notar vísanir úr samtíma sem hann
skilur, á meðan Arnarson og Þórarinsdóttir nota vísanir úr samtíma sem
Orwell skilur. Þannig verður Orwell lifandi, en Arnarson og Þórarinsdóttir
ná ekki það langt. Mín var að einhverju leyti freistað að rekja tengslaleysi
leikritsins við þá staðreynd að ég þekki bókina, og leikritið var vissulega
ekki að bæta neinu við hana, en svo gengur það auðvitað ekki upp, því ég hef
marglesið bókina, og æli alltaf í lokakaflanum.
Ég neita að kenna neinu öðru um en leikgerðinni, því allt annað sem mér
dettur í hug var vel gert.
Griffludæmið var grín, þetta var brandari sem við Davíð Kristinsson vorum að
fíflast með í hléinu. Ekki arða af alvöru í orðum mínum. Reyndar er ég ekki
svo viss um að það gengi gegn því sem verkið fjallar um. Verkið fjallar
stærstum þræði um konformisma, og þjóðfélagsþvinganir. Tískubylgjur ganga
svo sannarlega inn í þann fasisma.
Að sjálfstæðisflokkurinn eigi mikið skylt með nasistum eða kommúnistum?
Ímynd nasistana var hörð, ímynd Adolfs var ímynd manns sem mátti yggla
brýrnar, og manns sem mátti æpa (hugsaðu þér Davíð með höndina á lofti,
æpandi slagorð, og þá sérðu strax hvar skilur endanlega milli
sjálfstæðisfagurfræði og nasískrar fagurfræði (á íslandi á nasísk fagurfræði
miklu meira upp á pallborðið hjá VG en sjálfstæðisflokknum). Skipulagsfræði
kommúnista? Ráðstjórnarríkin voru byggð upp á endalausri bjúrókrasíu, miklu
meiri en við getum með góðu móti ímyndað okkur. Það er ekki nóg með að
sjötti hver maður í DDR hafi verið njósnari, nánast hver einasti kjaftur í
sovétríkjunum sat í einhvers konar ráði sem átti að ráða einhverju, sem það
svo auðvitað réð ekki, af því bjúrókrasían ræður sér alltaf sjálf.
Bjúrókrasían er fyrst og síðast neitandi afl. Trotskí kallaði þetta "alræði
skrifræðisins". Ég hef bara hreinlega ekki orðið var við þetta á Íslandi,
nema kannski helst í skylduáskrift RÚV (sem ég er reyndar hlynntur, eða
svona, ég myndi kannski ekki koma henni á, en mér finnst fínt hún sé til).
1984-ástarsaga hefur kannski verið ádeila á arnarmerki sjálfstæðisflokksins
annars vegar, og skylduáskrift að Rúv hinsvegar. Það væri nú saga til næsta
bæjar.
Ég held ég hafi verið of upptekinn af að horfa á hana Katrínu vinkonu mína
totta gaurinn, til að veita fyrirlestrum um dýrðleik skírlífisins athygli.
Reyndar hefur mér alltaf þótt merkilegt þetta með Brave New World og 1984,
sem kallast svo sterkt á, að í 1984 skyldi skírlífið vera allsráðandi, á
meðan lauslæti er einmitt félagsleg skylda í Brave New World. Mögulega má
rekja þennan mun til þess að á meðan Orwell var frekar myndarlegur og
sjarmerandi maður, þá var Huxley víst frámunalega ljótur, og einhver ástkona
hans lýsti mökum við hann á þann máta að það væri eins og að fá ofan á sig
tvö hundruð kílóa slímuga marglyttu.
En já, það sem skiptir hinsvegar öllu máli í þessu, svo ég endurtaki það, er
að mér þykir 1984 mögnuð bók, en lélegt leikrit.
Ást og kossar,
Eiríkur
ps. þigg kaffibollann. Kemst reyndar ekkert í kvöld, þar sem ég er að lesa
upp úr Heimsku Hvítu Körlunum á Súfistanum, en við verðum bara í bandi, og
ég þjarma út úr þér bolla alveg á næstunni.
pps. þess má reyndar geta að ég hef algert yndi af því að rífast, og gæti
haldið þessu áfram þar til frýs í helvíti. En við erum báðir uppteknir menn,
svo við skulum fara okkur varlega.
föstudagur, nóvember 07, 2003
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli