föstudagur, nóvember 07, 2003

Hér fyrir framan vantar svarbréf mitt til hans eftir að hafa lesið dóminn þar sem mér fannst stórlega vegið að mér og Dúnju meðhöfundi mínum. Oftar en ekki má lesa af svörum hans hvað ég sagði en verður þá að hafa í huga að hann afbakar merkingu orða minna oftar en ekki og ég notaði móður mína ekki sem dæmi um manneskju sem naut sýningarinnar heldur fólk af hennar kynslóð sem upplifði kommúnismann í Sovét.

En hér er sumsé hans fyrsta svar:


Tja, Þorleifur, leikhúsið hlýtur nú allavega að eiga metta mann, þó maður
setji steikina upp í sig sjálfur. Það sem ég var að kvarta undan var ekki að
kjúklingur væri ekki bragðgóður fugl, en það er alveg sama hversu vel hann
er kryddaður, ef það er ekkert utan á beinunum þá endist maður ekki lengi í
að naga hann.

Auðvitað er þetta ekki spurning um að fara eina leið eða aðra, heldur að
fara einhverja leið. Segja eitthvað.

Ég tek að sjálfsögðu ekki mark á því þó mamma þín hafi skemmt sér vel á
sýningunni. Reyndar væri mér sama þó ég væri einn um mína skoðun (sem ég þó
er alls ekki - hef meira að segja fengið fleiri en eitt hrós í tölvupósti
fyrir þennan litla pistil), því mér hefur sýnst fólk aðallega verið upptekið
af því í leikhúsi að skemmta sér vel. Sem er ágætt, en ekki það róttæka
leikhús sem ég vildi helst sjá. Íslenskt leikhús þarf náttúrulega helst á
flengingasérfræðingum að halda (bæði til að flengja og vera flengdir). Þegar
ég fór á þennan blessaða Kirsuberjagarð, í uppsetningu einhvers eistnesks
Tsjekov-spesíalista, fyrir eins og um þremur árum, þá man ég ekki betur en
fólk hafi skemmt sér rosa vel (enda þorir enginn að segja að Tsjekov geti
verið leiðinlegur). Allir nema ég, Haukur, Viðar og Dóri, sem vorum næstum
því gengnir út í hléi. Ég held það hafi bara verið þrjóskan og miðaverðið
sem fengu okkur til að gefa þessu séns eftir hlé. Okkur lá bókstaflega við
uppköstum eftir sýninguna, enda var hún tilgerðarleg út í eitt. Viðar hefur
einmitt stundum sagt mér frá leikhúsferðum sínum um tíðina, með foreldrum
sínum, en þá er alltaf farið heim eftir sýningu, fengið sér smá rauðvín, og
sýningin svo rædd. Nema hvað öll neikvæðni er alltaf kæfð í fæðingu. Þannig
skemmtu sér allir alltaf vel á þeim leiksýningum sem Viðar fór á sem barn.

Hugarflug áhorfenda? Jú vissulega þarf það að vera til staðar. En það verður
að hafa eitthvað til að styðja sig við, annað en almenna velvild gagnvart
leikhúsinu, eða þér.

Svo má vel vera að ég sé að gera of miklar kröfur til stúdentaleikhúss. Ég
hafði bara mínar væntingar.

Ég gleymdi einum punkti varðandi sýninguna, sem mér var bent á að væri
svolítið fyndinn (ég reyndar sleppti öðrum fyndnum, sem er freudíska
greiningin á því að faðir leikstjórans skyldi vera Stóri Bróðir, augun sem
skömmuðu Þorleif fyrir að læðast í smákökuboxið, voru augu SB) sem var þetta
með þvingaða uppklappið í lokin. Nú er þetta ekkert sem er bara á 1984.
Þvingaða uppklappið er alltaf allstaðar, og gerir mig snarvitlausan. Verk
þarf að vera helvíti slappt til að fá ekki tvö uppklöpp hið minnsta (enda
ættingjar í salnum, kannski). Út af fyrir sig má lifa með þessu, en á eftir
1984, sem snýst allt um conformity, og reglu, þá verður þetta alveg
hysterískt fyndið. Þessi hjarðhegðun sem margfalda uppklappið er í ákveðnum
kreðsum, þar sem ákveðið hefur verið að uppklapp verði að vera svolítið
hressilegt. Leikhús og klassískir tónleikar. Og svo auðvitað uppklappslagið
á tónleikum rokksveitar sem er þekkt, þó hún sé bara oggu þekkt.

Annað, úr einhverri mögnuðustu bók samtímans, Empire, eftir þá Michael Hardt
og Antonio Negri (kommúnistaávarp hins póstmóderníska dags):

"Hugmyndirnar um "alræði" sem voru mótaðar á tímum kalda stríðsins hafa
reynst vera gagnleg áróðursverkfæri en algjörlega ófullnægjandi
greiningartæki og leitt til háskalegra rannsóknarréttaraðferða og skaðlegra
siðferðisröksemda. Það ætti að líta með skömm á og hiklaust fleygja
fjölmörgum bókahillum okkar sem eru fullar af greiningum á alræði."

(þýðing Viðars Þorsteinssonar fyrir næsta Hug)

Ég er ekki að segja þú eigir að nútímavæða til að fólk skilji
alræðispælinguna. Ég er að segja að alræðispælingin, eins og hún kemur fram
í bæði bók og leikriti, er banal í dag. Vegna þess að alræðið, að því leyti
sem það er til, er hreinlega allt annað í dag - og á EKKERT skylt við þetta
kúgunaralræði sósíalismans.

Þú segist ekki vilja mata fólk, að þú viljir að það túlki sjálft. Þetta
finnst mér frekar billeg undanfærsla. Þú gætir sett mann upp á svið í tvo
tíma og látið hann endurtaka sama orðið "lauf, lauf, lauf, lauf" og gert svo
tilkall til þess í viðtölum og í leikskrá, að verkið sé samtímapólitískt, sé
að segja eitthvað mikilvægt í samfélaginu. Og svo þegar ég sé það ekki, þá
geturðu alltaf sagt: "Maður fær greitt í samræmi við það sem maður leggur á
sig."

Pyntingar allra tíma, skipta ekki máli. Pynting dagsins í dag er fjarlæg og
við firrt henni. Stóra bróðurs samfélagið í dag pyntar ekki þegna sína,
heldur drekkir það þeim í vellystingum, til að þeir láti vera að finna að
gjörðum þeirra annars staðar. Hvort heldur það er gegn verkamönnum í eigin
landi, Mcborgara-flippurum, eða Nike-saumabörnum í þeim löndum sem standa
utan við Stóra Bróðurs samfélagið (í malasíu hefur enginn t.d. heyrt um Big
Brother sjónvarpsseríuna, eða raunveruleikasjónvarp yfir höfuð).

Reyndar þótti mér líka misráðið af þér að hafa þessa pyntingarsenu svona
einhæfa og langa (var eins og önnur hver b-mynd sem ég hef séð um ævina).
Eitt er að gera það með virkilega góðum atvinnuleikurum, en að gera það með
amatörum fannst mér hryllingur. Ég geispaði hreinlega yfir vælinu í Winston
(sem nóta bene hafði löngu tapað allri samúð). Ég sleppti því að minnast á
þetta í greininni af virðingu fyrir leikurunum, sem kontróleruðu allar aðrar
senur, en réðu ekkert við að gera neitt úr þessari pyntingalangloku
(auðvitað var Maggi frændi samt framúrskarandi, leiftrandi og ég veit ekki
hvað og hvað).

Ekki mata fólk á merkingu. Mér er svolítið hugsað til þessarar setningar,
því hún gengur ansi nærri því að vera skilgreiningarhugtak fyrir banalitet.
Listamaður matar fólk á merkingu, og treystir svo fólkinu til að skilja,
misskilja, túlka, og svara þeim hugmyndum, þeirri merkingu, sem hann bauð
þeim til átu.

Ég tek á mig fulla ábyrgð þegar ljóðin mín misskiljast. Og treystu mér, þau
hafa hryllilega tilhneigingu til að misskiljast. En ábyrgðin hlýtur að
liggja hjá mér, ég er sá sem er að túlka veruleikann í ljóðum mínum, og hafi
ég klúðrað einhverjum forsendum, þá hlýt ég að bera ábyrgð á því. Svo kemur
náttúrulega hitt að maður getur aldrei skrifað svo allir skilji, og þá er að
velja og hafna. Hverjir vil ég að skilji ljóðið.

Orwell skrifaði af pólitískri ástríðu, beinlínis til að kallast á við
heiminn sem hann lifði í. "Desire to push the world in a certain direction,
to alter other peoples' idea of the kind of society that they should strive
after [...] When I sit down to write a book, I do not say to myself, "I am
going to produce a work of art." I write it because there is some lie that I
want to expose, some fact to which I want to draw attention, and my initial
concern is to get a hearing." Stendur í ritgerðinni "Why I write" eftir
meistarann. 1984, og sú sýn sem þar birtist, á við um samfélagið 1948,
eftirstríðsárin. Og því sést staður allstaðar. Þú kýst að halda þessu, til
að sýna, hvað best ég get skilið, að pyntarinn sé alltaf eins. En svo er það
náttúrulega vitleysa. Stóra Bróðurs þjóðfélagið sem við lifum í, stóra
bróðurs-þjóðfélagið sem endurskrifaði Íraks-stríðið, setur upp
eftirlitsmyndavélar á öllum hornum, framleiðir raunveruleikasjónvarp, er
andsnúið kynlífi (þó það sé hlynnt mildri-erótík), og er troðfullt af alls
kyns þverstæðum - þetta þjóðfélag á sér samsvörun í 1984, en með því að
horfa framhjá því hversu eðli þess er annað en það sem Orwell ímyndaði sér,
með því að horfa framhjá því að svipan er ekki svipa, heldur fjaðurbrúskur,
og hann gellur ekki á bossum pöpulsins heldur strýkur hann ljúft og
krefjandi í ástúðarblossa, með því að horfa framhjá þessu í uppsetningu á
1984 árið 2003, ertu að svíkja anda verksins, sem er beinpólitískur, og
gerist þess í stað sekur um banalitet í nafni klassisisma.

Ég vona að þú skiljir af ofangreindu málsgreinakraðaki (bréfið er skrifað í
nokkrum hollum, á pásum í hlaupum frá vinnu í viðtöl í stríðsbókadreifingu í
matarboð hjá ættingjum) hvers vegna mér er ófært að samþykkja að 1984 -
ástarsaga, eigi tilkall til einhverskonar relevans í þjóðfélaginu. Og hvers
vegna mér (og Orwell) er annt um að verk hafi merkingu, að þau séu ekki
hlutlaus karakter sem meðborgurum beri að vega og meta á estetískum
grundvelli einvörðungu, heldur séu þau hárbeint vopn sem maður beitir í
pólitískum tilgangi (og metast auðvitað líka á estetískum grundvelli). Nú
vil ég benda á, að ég er ekki að tala um verk sem predika. Ég er ekki
hrifnari af predikunum frekar en hver annar (nema auðvitað í greinum og
dómum um verk, sem eru predikanir í eðli sínu, og afskaplega ólistrænar).
Verk á ekki að SEGJA manni hvað maður Á að vera að hugsa. Það á að fleygja í
mann nýjum skilningi á heiminum, og láta mann svo um að túlka hann sjálfur.

Orwell segist í eðli sínu ekki vera pólitískur maður, heldur hafi samtími
hans krafist þess af mönnum að þeir brygðust við honum. Samtími okkar gerir
það sama. Hann skrifaði árið 1936 (og það birtist í áðurnefndri ritgerð)

I dreamt I dwelt in marble halls,
And woke to find it true;
I wasn't born for an age like this;
Was Smith? Was Jones? Were you?

Samtíminn er hryllilegur, raunveruleiki samtímans er jafnvel skelfilegri en
fantasía Orwells. Því það er vissulega hægt að sjá fyrir sér að Flokknum
megi velta úr sessi. Þar er valdið eitt, einfalt, grimmt og allsráðandi. En
eins og með önnur slík gamaldags kúgunarveldi, er það nægilega vel
skilgreint til að geta hrunið, sem var akkilesarhæll sósíalíska alræðisins.
Það hafði fætur, og fætur má fella. Hið kapítalíska alræði, stóri bróðir
nútímans, hefur ekki fætur, hann hefur rísóm-rætur, margfaldar langar
teygðar sem nærast á öllu, öllum, allstaðar. Höggvirðu einn anga, deyr einn
próletar, svo að segja, höggvirðu þá alla, deyja allir próletar. Hið
kapítalíska einræði er gangandi þversögn, sem getur ekki leystst, það er
steinninn hans Sisifosar og hvönnin hans Þorgeirs í Gerplu.

Eina leiðin til að gera út af við þversagnir er að benda á þær nógu oft og
kröftuglega til að heimurinn geri sér grein fyrir þeim.

kær kveðja,

Eiríkur

ps. sjálfsagt hefði ég átt að reyna að meitla þessar hugmyndir hér að ofan í
færri og hnitmiðaðri pælingar, en ég hef hreinlega ekki tíma, og læt því
vera þó ég hafi riðið húsum en ekki hugsað knappt.

Engin ummæli: