föstudagur, nóvember 07, 2003

Ég er ekki með það sem ég skráði enda er þessi deila lengri en mig minnti en ég er með svarbréf mitt við þessu og kemur það hér á eftir:



Nei Þorleifur.

Grundvallarspurningin er sú, hvort maður eigi að kaupa það að alræðið sé
alltaf eins. Hvort alræðið nú sé það sama og það var 1949, og hvort að sá
skilningur sem dugði þá (og gerir það að verkum að bókin 1984 er relevant
(þá sem samtímapólitískt verk, og nú sem sagnfræði) dugi nú. Ég er hreinlega
á því að við lifum í allt öðru kerfi (það er kerfi stýringar, en ekki ögunar
eins og þá), og til að fá fram boðskap bókarinnar, þurfi maður að taka mið
af því. Taka mið af breyttum aðstæðum.

Þú segir að alræðið sé altækt, að ögunarhugmyndin frá 1949 sé relevant í
nútímanum. Ég segi að hún sé það ekki. Að hér þurfi að bæta við.

Júlía kom nóta bene vel út, best allra karakterana.

Þekki ekki fjandmann fólksins, en ég er alls ekki viss um að ég hefði ekki
bara hreinlega verið sammála þér. Og hefði orðið fyrir jafn miklum
vonbrigðum með Bush á skjánum, og flokkinn sem repúblikana. Enda væru það
bara léleg, og ódýr stílbrögð.

Mér datt reyndar í hug hvort ekki mætti líkja þessu dálæti á sýningunni, það
er þessu hatri sem kviknaði hjá þessu samtíðarfólki foreldra þinna, gagnvart
ögunaralræðinu (sem er löngu dautt, og allir löngu lausir við, og þar af
leiðandi ekki til), sumsé hvort ekki mætti líkja þessu við hate-session gegn
Goldstein. Og þar er kannski komin relevant tenging við nútímann. Og nokkuð
góður gjörningur, myndirðu lýsa hann upp.

Það var smásaga eftir Borges sem fjallaði um 20 aldar mann sem endurskrifaði
Don Kíkóta, orð fyrir orð. Hún var nákvæmlega eins, upp á bókstaf. Og í
smásögunni, sem var í ritgerðarformi um þennan seinni tíma Don Kíkóta, er
bókinni lýst sem stórkostlegu meistaraverki - og miklu merkilegra en Don
Kíkóta Cervantesar, því hér leiki 20.aldar maðurinn sér að því að setja sig
inn í 18.aldar hugsunarhátt, og bregði stílnum fyrir sig eins og hetja. Hér
er auðvitað um napra kaldhæðni að ræða. En þetta snertir helvíti nálægt því
sem mér þótti um leikritið. Að endursegja söguna formálalaust 54 árum
seinna? Til hvers?

Það sem ég er að stunda akkúrat hérna, er ekki list, heldur gagnrýni, sem á
meira skylt við vísindi en list, þó hún sé í raun hvorugt. Þetta er skoðun.

Aukinheldur þá hefur þú ekki rétt til að skilgreina list. Hreinlega.

Þegar ég er að koma með uppástungur að breytingum, er ég ekki að segja að
leikritið ætti að flytja á einn eða annan máta. Ég er hreinlega að benda á
að mörgu má breyta, það er þitt að ákveða hvað það er. Ég vil bara ekki að
þú endursegir söguna formála- og breytingarlaust. Það er óþarfi að þylja
hana, bókin gerir það sjálf, og þú bætir engri merkingu við hana.

Og loks: 1984 er til á landsbókasafninu. Ef þú ætlar ekki að gera neitt með
hana, annað en að klifa á sögunni, þá mæli ég með því að þú leyfir henni
bara gista hillurnar, og hvetjir fólk til að fá hana að láni annað veifið.

kveðja,

Eiríkur

Engin ummæli: